Lýsing verkefna á árinu 2021

 

Í þessum kafla má finna ítarlegar lýsingar á verkefnum sem eru á framkvæmdaáætlun Landsnets. Umfang lýsinga er misjafnt eftir því á hvaða stigi verkefnið er í undirbúningi eða framkvæmd og eins hvort um nýtt verkefni er að ræða eða ekki. 


Vopnafjarðarlína 1 - endurnýjun

Verkefnið snýr að endurbótum á Vopnafjarðarlínu 1 sem er hluti af svæðisbundna flutningskerfinu á Austurlandi. Verkefnið gengur út á að breyta línunni, sem er 66 kV háspennulína, er liggur frá tengivirkinu við Lagarfoss að tengivirki rétt við Vopnafjarðarbæ, í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi á Vopnafirði og einnig til að minnka slysahættu við rekstur og viðhald línunnar. Línan er tréstauralína og er heildarlengd rúmlega 58 km. Hún liggur meðfram Lagarfljóti og Jökulsá Brú í Hróarstungu í átt til sjávar. Línan þverar Hellisheiði eystri og fer niður Skinnugil og upp Búrið, sem er afar torfarið og hættulegt á veturna. Ofan af Hellisheiði eystri liggur línan inn Vopnafjörð og í tengivirkið norðan megin við fjörðinn. Línan var tekin í notkun árið 1980. 

Uppruni verkefnis

Verkefnið er hluti af endurnýjunaráætlun Landsnets og snýr að hlutaendurnýjun á 66 kV háspennulínu. Á Hellisheiði eystri er Vopnafjarðalína 1 sem er eina tenging Vopnafjarðar við meginflutningskerfið. Línan er útsett fyrir mikilli ísingu á köflum ásamt því að liggja um svæði þar sem búast má við snjóflóðum. Í ljósi þessara ástæðna hefur verið skoðað, hvort auka megi persónuöryggi starfsmanna, sem sinna viðhaldi og rekstri línunnar, ásamt því að fækka rekstrartruflunum og minnka kostnað vegna erfiðra og áhættusamra viðgerða við slæmar aðstæður. Línan liggur yfir fjallgarð með bröttum hlíðum og hafa skapast afar erfiðar aðstæður við lagfæringar á línunni, þegar hún hefur skaðast í slæmum veðrum. Einkum er erfitt að ferðast að línunni á svokölluðu Búri þar sem fara þarf um brattar fjallshlíðar og oft í miklum snjó með tilheyrandi snjóflóðahættu. 

Línan er tæplega 40 ára gömul og á enn töluvert eftir af skilgreindum líftíma (50 ár). Reiknaður heilsufarsstuðull bendir til að línan sé í þokkalegu ástandi, en hún hefur þó farið nokkru sinnum úr rekstri vegna veðurs og skemmda á undanförnum árum. Undanfarin 10 ár hafa verið nokkrar truflanir og bilanir á línunni, en árið 2014 var erfitt rekstrarár, þegar línan bilaði átta sinnum og þurfti að ráðast í umfangsmiklar viðgerðir á henni. Viðvarandi ísinga- og stormverður var á NA-landi frá áramótum og fram í apríl það ár. Aðstæður til viðgerða voru afar erfiðar, mikil snjóflóðahætta og mjög erfitt að komast um svæðið með búnað til viðgerða. Persónuöryggi starfsmanna var ógnað og urðu tafir á viðgerðum af þeim völdum.

Framkvæmt var áhættumat fyrir línuna, þar sem metnar voru líkur á bilunum ákveðnum hlutum hennar og afleiðingar þeirra út frá áhættumatsferli Landsnets. 

Niðurstaða matsins sýnir, að veruleg áhætta er á, að alvarleg slys geti átt sér stað við rekstur línunnar og áframhaldandi rekstrartruflunum, ef ekkert verður að gert. Alls voru 7 atvik á rauðu (hæsta alvarleikastig) og 5 atvik af næst hæsta alvarleikastigi. Áhættumatið var svo endurtekið þegar búið var að gera ráð fyrir jarðstreng samkvæmt tillögu sem lýst er í aðalvalkosti, frá stæðu nr. 196 og að stæðu 274. Endurtekið áhættumat sýnir að verulega dregur úr hættu starfsmanna og mögulegum rekstrartruflunum við strenglagningu línunnar á þessum stað og eru engin atvik lengur af tveimur alvarlegustu alvarleikastigum.

Umfang verkefnis

Verkefnið snýst um að leggja jarðstreng frá stæðu 196 rétt norðan við veginn yfir Hellisheiði, að mestu meðfram veginum yfir heiðina að stæðu númer 274 undir Vindfellshálsi. Leiðin er u.þ.b. 9,6 km löng, þar sem hún fer yfir Hellisheiði eystri og niður í Vopnafjörð. Að breyta línunni að hluta í jarðstreng er í samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og eykur persónuöryggi þeirra starfsmanna er sinna línu viðhaldi. Gera má ráð fyrir að áhrif veðurs á rekstur línunnar minnki og þar með er öryggi raforkuflutnings aukið.

Rökstuðningur verkefnis

Sá valkostur sem best uppfyllir markmið raforkulaga og er í samræmi við stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins og stefnu um lagningu raflína hefur verið valinn sem framlagður aðalvalkostur í framkvæmdaáætlun. Það er einnig sá valkostur sem hefur í för með sér mest jákvæð áhrif á persónuöryggi starfsmanna sem sinna viðhaldi og viðgerðum á línunni sem er ein af aðalástæðum þess að ákveðið var að ráðast í framkvæmdina.

TAFLA 3-146 : VP1 – Rökstuðningur verkefnis

Tafla 3-146 sýnir niðurstöðu mats á því hvernig verkefnið uppfyllir markmið raforkulaga, samkvæmt mælikvarða sem lýst hefur verið, og mat á því hvort verkefnið sé í samræmi við stefnur stjórnvalda. Einnig inniheldur hún fjárhagslegar upplýsingar um verkefnið. Matinu ásamt niðurstöðu valkostagreiningar er lýst nánar í töflum 3-148, 3-149 og 3-150.

Lýsing á framkvæmd

Verkefnið felst í að leggja hluta línunnar í jörð, þar sem hún fer yfir Hellisheiði eystri, samtals um 10 km. Tveimur möstrum í línunni verður breytt í endamöstur þar sem línan fer úr loftlínu í jarðstreng og síðan aftur í loftlínu. Settur verður upp samtengibúnaður fyrir loftlínu og jarðstreng á þessum tveimur stöðum.

Einlínumynd verkefnis

MYND 3-55 : Einlínumynd af VP1 sem verkefnið nær yfir

Mynd 3-55 sýnir einlínumynd af Vopnafjarðarlínu 1. Jarðstrengsleiðin fylgir að mestu núverandi þjóðvegi, þar sem hann fer yfir heiðina, en þverar veginn á nokkrum stöðum til að krækja hjá giljum og bröttu landi. Vestan við Dalsá, norðan við Eyvindarstaði, mun strengurinn liggja eftir gömlum vegi að þeim stað sem hann tengist loftlínunni.

Raflína

TAFLA 3-147 : VP1 – Lýsing framkvæmdar

Búnaður til launaflsútjöfnunar

Ekki er þörf á sérstökum búnaði til launaflsútjöfnunar.

Fjárhagslegar upplýsingar um aðalvalkost

TAFLA 3-148 : VP1 – Fjárhagslegar upplýsingar

Tafla 3-148 sýnir fjárhagsleg áhrif af fjárfestingunni sem fylgir verkefninu. Áhrifin koma eingöngu fram í gjaldskrá til dreifiveitna, þar sem að Vopnafjarðarlína 1 er hluti af svæðisbundna flutningskerfinu á Austfjörðum. Heildarkostnaður við verkefnið er 490 milljónir króna.

Vopnafjarðarlína hefur verið úti í tæpa 18 sólarhringa síðan 2007. Á tímabilinu janúar – febrúar 2014 var línan úti í tæpa 10 sólarhringa af þessum 18. Heildarkostnaður vegna þessa er skv. tölum frá START hópnum um 175 milljónir króna. Ástæðan fyrir því að kostnaðurinn er ekki hærri en raun ber vitni, er sú að á Vopnafirði er 6 MW varaaflsstöð. Hún hefur á þessum tíma framleitt um 1.100 MWh með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda. Beinn kostnaður vegna þessa er áætlaður um 32 milljónir króna.

Heildarkostnaður vegna útleysinga á VP1 er því rúmar 200 milljónir króna síðan 2007.

Tímaáætlun

Áætlað er að framkvæmdir hefjist vorið 2020 og línan verði spennusett þá um haustið. Lokafrágangi eftir framkvæmdir mun ljúka á vordögum 2021.

Markmið raforkulaga

Framkvæmd var greining á því hvernig báðir valkostir uppfylla markmið raforkulaga.

MYND 3-56 : VP1 - Uppfylling markmiða raforkulaga

Mynd 3-56 sýnir niðurstöðu mats á því hvernig framkvæmdin uppfyllir markmið raforkulaga. Framkvæmdin er talin hafa jákvæð áhrif á markmið um öryggi og áreiðanleika afhendingar þar sem afhendingaröryggi eykst vegna þess að gert er ráð fyrir verulegri fækkun truflana vegna veðurs. Áhrif á gæði raforku og skilvirkni eru talin vera óveruleg.

Áhrif framkvæmdar á flutningstöp

Framkvæmdin hefur ekki áhrif á flutningstöp.

Áhrif framkvæmdar á afhendingaröryggi

Þeir stuðlar sem notaðir eru við að meta afhendingaröryggi breytast ekki þar sem eingöngu er um hlutaendurnýjun línu að ræða. Þó má reikna með bættu afhendingaröryggi á Vopnafirði þar sem erfiðum hluta línunnar sem er útsettur fyrir ísingu verður breytt í jarðstrengslögn.

Samræmi við stefnu stjórnvalda um línugerð

TAFLA 3-149 : VP1 – Samræmi við stefnu um línugerð

Tafla 3-149 staðfestir að strenglagning lína í svæðisbundnu flutningskerfunum við endurnýjun er í samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Skv. stefnunni má jarðstrengslögn ekki vera meira en tvisvar sinnum dýrari en sambærileg loftlína. Verðið er fengið úr verðbanka Landsnets og miðast við kostnað vegna lagningar nýrrar 66 kV loftlínu við svipaðar aðstæður og eru á viðkomandi verkstað. Skv. verðbankanum er verð nýrrar loftlínu 485 milljónir króna sem er 103% af verði jarðstrengslagnarinna. Jarðstrengslagningin er því í samræmi við stefnu stjórnvalda um línugerð.

Samræmi við almenn atriði í stefnu stjórnvalda

TAFLA 3-150 : VP1 – Samræmi við almenn atriði í stefnu

Verkefnið er í samræmi við almenn atriði í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis. Áhrif þess eru metin frá því að vera óveruleg og upp í það að vera verulega jákvæð.

Umhverfisáhrif valkosta

MYND 3-57 : VP1 - Mat á umhverfisáhrifum

Umhverfisáhrif verkefnisins kunna að verða neikvæð á lífríki og snýr það fyrst og fremst að vistgerðum sem eru á eða í nágrenni áhrifasvæðis. Nokkrar vistgerðir eru með hátt verndargildi. Huga þarf að þeim þegar endanleg lega er ákveðin. Að öðru leyti fer strengur ekki nálægt verndarsvæðum. Óvissa er um menningarminjar. Atvinnuuppbygging, sem sést ekki á grafi, er talin verða fyrir jákvæðum áhrifum.Akraneslína 2 - ný tenging

Verkefnið snýr að endurnýjun flutningslínu í svæðisbundna flutningskerfinu á Vesturlandi. Akranes er í dag tengt við meginflutningskerfið með tveimur 66 kV flutningslínum. Annars vegar með Akraneslínu 1 sem er 66 kV jarðstrengur á milli Akraness og Brennimels og hins vegar með Vatnshamralínu 2 (hét áður Andakílslína 1) sem er 66 kV loftlína á milli Akraness og Vatnshamra. Línan er yfir 50 ára gömul og þarfnast endurnýjunar. Endurnýjuð tenging Akraness við meginflutningskerfið mun hljóta nafnið Akraneslína 2 (AK2).

Landsneti hefur borist erindi frá Akranesbæ um að fjarlægja Vatnshamralínu 2 á um 4 km kafla þar sem gert er ráð fyrir iðnaðarsvæði norðaustan við bæinn. Því hefur verið ákveðið að skipta framkvæmdinni upp í tvo áfanga. Sá fyrri nær yfir strenglagningu Vatnshamralínu 2 á um 4 km leið við Akranes. Síðari áfanginn er svo áframhaldandi lagning jarðstrengs að tengivirki á Brennimel og endurnýjun á 132/66 kV spenni á Brennimel, ásamt niðurrifi á Vatnshamralínu 2. 

Uppruni og meginmarkmið verkefnis

Verkefnið er hluti af endurnýjunaráætlun Landsnets, en hlutverk endurnýjunaráætlunar er að hámarka afhendingaröryggi í flutningskerfinu, tryggja samfellu í endurnýjun núverandi eigna í flutningskerfinu og lágmarka þannig uppsafnaðan vanda vegna endurnýjunarþarfar. Meginmarkmið verkefnisins er að viðhalda afhendingaröryggi á Akranesi og tryggja að flutningskerfið standi ekki í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Umfang verkefnis

Verkefnið snýst um endurnýjun á tvítengingu Akraness, sem er lagning á 66 kV jarðstreng milli Brennimels og Akraness. 

Rökstuðningur verkefnis

Metið hefur verið hvernig framkvæmdin uppfyllir meginmarkmið verkefnisins ásamt þeim markmiðum sem skilgreind eru í raforkulögum og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins.

 

TAFLA 3-151 : AK2 – Rökstuðningur verkefnis

Tafla 3-151 inniheldur mat á því hvernig framkvæmdin er talin uppfylla þau markmið sem sett eru fram í raforkulögum ásamt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Mat á því hvernig framkvæmdin uppfyllir markmið raforkulaga má sjá á mynd 3-60 og mat á samræmi við stefnu stjórnvalda í töflum 3-166 og 3-167 ásamt undirkaflanum niðurstaða valkostagreiningar.

Lýsing á framkvæmd

Lagning 66 kV jarðstrengs á milli Akraness og Brennimels um 20 km leið. Einnig verður Vatnshamralína 2 rifin niður.

Einlínumynd verkefnis

MYND 3-58 : AK2 – Einlínumynd

Raflína

TAFLA 3-152 : AK2 – Lýsing framkvæmdar

Búnaður til launaflsútjöfnunar

Ekki er þörf á launaflsútjöfnun.

Fjárhagslegar upplýsingar um aðalvalkost

TAFLA 3-153 : AK2 – Fjárhagslegar upplýsingar

Tímaáætlun

Áætlað er að framkvæmdir hefjist í maí 2021 og ljúki um mánaðamótin september/október.

 

Valkostagreining

Alls voru teknir þrír meginvalkostir til skoðunar vegna nýrrar tengingar inn á Akranes. Auk aðalvalkosts var skoðaður sá möguleiki að leggja 132 kV jarðstreng sömu leið, sem og að leggja 66 kV jarðstreng milli Akraness og Vatnshamra.
 

TAFLA 3-154 : AK2 – Lýsing valkosta

Fjárhagslegur samanburður valkosta

TAFLA 3-155 : AK2 – Fjárhagslegur samanburður valkosta

Markmið raforkulaga

Öryggi

Lagt hefur verið mat á það hvernig valkosturinn uppfyllir markmið um öryggi. Sem liður í matinu hefur grunnástand öryggis verið metið fyrir alla matsþætti sem ná yfir öryggi.

 

TAFLA 3-156 : AK2 – Mat á grunnástandi matsþátta fyrir öryggi

Tafla 3-156 sýnir niðurstöðu mats á grunnástandi matsþátta sem ná yfir öryggi. Grunnástand Tvítengingar afhendingarstaða er metið sem miðlungs þar sem tengivirkið á Akranesi tengist við meginflutningskerfið með tveimur flutningslínum. Ástæða þess að það er ekki metið í hæsta flokki er takmörkuð flutningsgeta AK1 og VA2 ásamt háu viðnámi í VA2. Grunnástand Stöðugleika er metið í næstlægsta flokki, en útleysing á annarri hvorri línu  inn á Akranes getur valdið talsverðum óstöðugleika sem getur komið af stað keðjuverkandi útleysingum á svæðinu. Matsþátturinn Náttúruvá er ekki metinn fyrir línuleiðina.

Með greiningum eru áhrif skoðaðra valkosta á matsþætti öryggis metin og er niðurstaða matsins eftirfarandi:

 

TAFLA 3-157 : AK2 – Mat á einkennum áhrifa valkosta á öryggi

Tafla 3-157 sýnir niðurstöðu mats á því hver einkenni áhrifa skoðaðra valkosta eru á matsþætti fyrir öryggi. Eins og sést á töflunni eru áhrif valkostanna á Tvítengingar afhendingarstaða metin undir meðallagi fyrir alla þrjá valkosti. Ástæður þess eru að ekki bætist við ný flutningsleið, heldur eykst flutningsgeta að svæðinu sem talið er auka afhendingaröryggi á svæðinu. Stöðugleiki mun ekki aukast fyrir valkost 1 þar sem strengurinn yrði lagður sömu leið að tengivirkinu í Vatnshömrum. Stöðugleiki fyrir valkosti 2 og 3 er metinn yfir meðallagi þar sem viðnám nýrrar flutningsleiðar er töluvert lægra samanborið við grunnástandið. Einnig eru taldar minni líkur á mislestun flutningslína fyrir valkosti 2 og 3 samanborið við valkost 1.

 Áreiðanleiki afhendingar 

Lagt hefur verið mat á það hvernig skoðaðir valkostir uppfylla markmið um áreiðanleika afhendingar. Grunnástand hefur verið metið fyrir alla matsþætti sem ná yfir áreiðanleika afhendingar.

 

TAFLA 3-158 : AK2 – Mat á grunnástandi matsþátta fyrir áreiðanleika afhendingar

Tafla 3-158 sýnir niðurstöðu mats á grunnástandi matsþátta sem ná yfir áreiðanleika afhendingar. Grunnástand fyrir Flöskuhálsa er metið undir meðallagi vegna takmarkandi flutningsgetu inn á svæðið þar sem VA2 er rekin opin til að koma í veg fyrir gegnumflæði. Grunnástand fyrir Ótiltæki og Áreiðanleikastuðla er metið miðlungs þar sem truflanir á AK1 valda skerðingum á orkuafhendingu.

Með greiningum eru áhrif valkostanna á matsþætti áreiðanleika afhendingar metin og er niðurstaða matsins eftirfarandi:

TAFLA 3-159 : AK2 – Mat á einkennum áhrifa valkosta áreiðanleika afhendingar

Tafla 3-159 sýnir niðurstöðu mats á því hver einkenni áhrifa valkosta eru á matsþætti fyrir áreiðanleika afhendingar. Áhrif valkosts 1 á Flöskuhálsa eru metin undir meðallagi þar sem hætta er á gegnumflæði um Akranes að Vatnshömrum eins og í tilfelli VA2. Áhrif valkosta 2 og 3 á Flöskuhálsa eru metin yfir meðallagi þar sem litlar líkur eru á flutningstakmörkum inn á svæðið. Áhrif allra valkosta á Ótiltæki eru metin miðlungs þar sem útleysing einnar krítískrar einingar ógnar ekki öryggi svæðisins. Áhrif allra valkosta Áreiðanleikastuðla eru metin miðlungs þar sem stuðlar fyrir jarðstrengi eru lægri en fyrir loftlínur.

Gæði raforku

Lagt hefur verið mat á það hvernig valkostir uppfylla markmið um gæði raforku. Grunnástand öryggis hefur verið metið fyrir alla matsþætti sem ná yfir gæði raforku.

 

TAFLA 3-160 : AK2 – Mat á grunnástandi matsþátta fyrir gæði raforku
 Tafla 3-160 sýnir niðurstöðu mats á grunnástandi allra matsþátta sem ná yfir gæði raforku. Grunnástand fyrir Kerfisstyrk er metið miðlungs þar sem skammhlaupsafl á svæðinu er frekar lágt. Grunnástand fyrir Spennusveiflur/spennuþrep er metið miðlungs þar sem töluverðar líkur eru á spennusveiflum í truflanatilvikum. Fyrir Afhendingarspennu/vikmörk er grunnástandið metið töluvert og er ástæða þess sú að þrátt fyrir lágt skammhlaupsafl helst afhendingarspenna innan vikmarka að mestu leyti.
 Með greiningum eru áhrif uppstilltra valkosta á matsþætti gæða raforku metin og er niðurstaða matsins eftirfarandi:

 

TAFLA 3-161 : AK2 – Mat á einkennum áhrifa valkosta á gæði raforku
 Tafla 3-161 sýnir niðurstöðu mats á því hver einkenni áhrifa valkosta eru á matsþætti fyrir gæði raforku. Eins og sést á töflunni eru áhrif valkosta á kerfisstyrk miðlungs eða töluverð. Fyrir valkosti 1 og 2 hækkar skammhlaupsafl lítillega og eru því áhrifin metin miðlungs. Fyrir valkost 3 hækkar skammhlaupsafl töluvert og eru áhrifin því metin töluverð. Áhrif allra valkosta á Spennusveiflur/spennuþrep eru metin miðlungs þar sem búast má við minni spennusveiflum/spenniþrepum þar sem tvær sterkar tengingar tengja afhendingarstaðinn við meginflutningskerfið. Áhrif allra valkosta á Afhendingarspennu/vikmörk eru metin töluverð og er ástæða þess sú að rekstrarspenna á svæðinu verður stöðugri vegna hærra skammhlaupsafls.

Skilvirkni

Lagt hefur verið mat á það hvernig valkosturinn uppfyllir markmið um skilvirkni. Grunnástand hefur verið metið fyrir alla matsþætti sem ná yfir skilvirkni.

 

TAFLA 3-162 : AK2 – Mat á grunnástandi matsþátta fyrir skilvirkni
 Tafla 3-162 sýnir niðurstöðu mats á grunnástandi matsþátta sem ná yfir skilvirkni. Eins og sést í töflunni er grunnástand Flutningstapa metið lágt. Ástæða þessa er sú að flutningur um línuna liggur nálægt flutningsmörkum loftlínuhlutans sem þýðir að hlutfallsleg flutningstöp eru há. Það sama gildir um grunnástand fyrir Flutningsgetu, en það er metið lágt sökum þeirra flutningstakmarkana sem loftlínuhluti línunnar orsakar. Grunnástand fyrir nýtingu virkjana er ekki metið fyrir AK2, þar sem línan hefur lítil sem engin áhrif á þann matsþátt.
 Með greiningum eru áhrif valkostanna á matsþætti skilvirkni metin og er niðurstaða matsins eftirfarandi:

 

TAFLA 3-163 : AK2 – Mat á einkennum áhrifa valkosta á skilvirkni
 Tafla 3-163 sýnir niðurstöðu mats á því hver einkenni áhrifa valkosta eru á matsþætti fyrir skilvirkni. Eins og sést á töflunni eru áhrif valkostanna á Flutningstöp talsverð og há fyrir alla valkosti þar sem verið er að skipta út langri og gamalli loftlínu fyrir jarðstrengi. Áhrif valkostanna á Flutningsgetu eru einnig metin nokkuð hátt fyrir valkost 1 og hátt fyrir valkosti 2 og 3 þar sem hægt er að bæta við á bilinu 23–50 MW flutningi inn á Akranes. Áhrif valkosta á matsþáttinn Nýtingu virkjana eru lítil þar sem hann er ekki metinn hér.

Hagkvæmni

Lagt hefur verið mat á það hvernig valkosturinn uppfyllir markmið um hagkvæmni. Grunnástand hefur verið metið fyrir alla matsþætti sem ná yfir hagkvæmni.

 

TAFLA 3-164 : AK2 – Mat á grunnástandi matsþátta fyrir hagkvæmni
 Tafla 3-164 sýnir niðurstöðu mats á grunnástandi allra matsþátta sem ná yfir skilvirkni. Eins og sést á töflunni er grunnástand fyrir matsþáttinn Truflanir og skerðingar metið hátt þar sem skerðingar hafa verið mjög litlar síðustu ár vegna tvítengingar Akraness. Grunnástand fyrir Losun gróðurhúsalofttegunda er metið talsvert og er ástæða þess engin varaaflskeyrsla en það er bara meðalsvigrúm til orkuskipta. Grunnástand fyrir matsþáttinn Aukning flutningsmagns er metið nokkuð lágt og er ástæða þess að ekki er mögulegt að bæta við stórnotkun (fjólublátt ljós).
 Með greiningum eru áhrif valkostanna á matsþætti hagkvæmni metnir og er niðurstaða matsins eftirfarandi:

 

TAFLA 3-165 : AK2 – Mat á einkennum áhrifa valkosta á hagkvæmni
 Tafla 3-165 sýnir niðurstöðu mats á því hver einkenni áhrifa valkosta eru á matsþætti fyrir hagkvæmni. Eins og sést á töflunni eru áhrif valkostanna á Truflanir og skerðingar lítil þar sem núverandi ástand er þegar mjög gott. Áhrif valkostanna á matsþáttinn Losun gróðurhúsalofttegunda eru metin mikil fyrir alla valkosti þar sem flutningsgeta eykst og þar af leiðandi svigrúmið til orkuskipta einnig. Áhrif valkosta á matsþáttinn Aukning flutningsmagns er miðlungs fyrir valkost 1 sem eykur flutningsgetu um 23 MW og mikil fyrir hina valkostina sem auka flutningsgetuna um allt að 50 MW.

Niðurstaða mats á uppfyllingu markmiða

MYND 3-59 : Akraneslína 2 – Mat á því hvernig valkostur 1 uppfyllir markmið raforkulaga

MYND 3-60 : Akraneslína 2 – Mat á því hvernig valkostur 2 uppfyllir markmið raforkulaga

MYND 3-61 : Akraneslína 2 – Mat á því hvernig valkostur 3 uppfyllir markmið raforkulaga

Samræmi við stefnu stjórnvalda um línugerð

TAFLA 3-166 : AK2 – Samræmi valkosta við stefnu um línugerð
 Tafla 3-166 sýnir niðurstöðu mats á því hvernig valkostir samræmast stefnu stjórnvalda um línugerð. Línan telst vera í landshlutakerfi raforku og á samkvæmt því að meta sem jarðstreng. Kostnaðarhlutfall er undir tvisvar sinnum það sem loftlína með sambærilega flutningsgetu kostar á þessu svæði og því er jarðstrengslögn metin í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda um línugerð.

Samræmi við almenn atriði í stefnu stjórnvalda

TAFLA 3-167 : AK2 – Samræmi við almenn atriði í stefnu stjórnvalda

Umhverfisáhrif valkosta

Umhverfisáhrif fyrsta áfanga verkefnisins eru talin óveruleg. Framkvæmdin er innan iðnaðarsvæðis og liggur utan verndasvæða. Möguleg áhrif valkosta eru á lífríki og vatnsvernd. Nánar verður gerð grein fyrir umhverfisáhrifum seinni áfanga verkefnis þegar það kemur inn á framkvæmdaáætlun.

Niðurstaða valkostagreiningar

Skoðaðir hafa verið þrír valkostir við nýrri tengingu Akraness. Allir valkostirnir þrír eru í samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Allir þrír valkostirnir uppfylla markmið framkvæmdarinnar sem er að viðhalda afhendingaröryggi á Akranesi og tryggja að flutningskerfið standi ekki í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Einnig hefur verið framkvæmt mat á því hvernig valkostirnir uppfylla markmið raforkulaga og koma valkostir 2 og 3 aðeins betur út heldur en valkostur 1.

Það er því niðurstaða valkostagreiningar að valkostur 2, sem er nýr 66 kV jarðstrengur frá Brennimel uppá Akranes, sé sá valkostur sem best uppfyllir öll markmið og samræmist best stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins og lagningu raflína.