Matsvinna kerfisáætlunar

Nálgun matsvinnu

Nálgun matsvinnunnar byggir á þeim markmiðum sem ná á fram með umhverfismati áætlana, sem eru að:

  • Skilgreina líkleg og veruleg áhrif á umhverfið.
  • Bera saman umhverfisáhrif valkosta.
  • Veita heildarsýn á umhverfisáhrif vegna kerfisáætlunar.
  • Taka tillit til umhverfisjónarmiða við mótun kerfisáætlunar og draga þannig úr eða koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif.
  • Skilgreina vöktun og mótvægisaðgerðir þar sem það á við.
  • Skjalfesta matsvinnu.
  • Stuðla að samræmi áætlana og greina frá tengslum kerfisáætlunar við aðrar áætlanir og alþjóðlega samninga.
  • Kynna helstu umhverfisáhrif kerfisáætlunar.

Vinna við umhverfismatið hófst með gerð matslýsingar, sem kynnt var í nóvember til desember 2018. Þar var m.a. gerð grein fyrir verklagi matsvinnu, gagnaöflun, áherslum, valkostum og matsspurningum. Matsvinna kerfisáætlunar hefur fylgt þeirri nálgun sem kom fram í matslýsingu, ásamt því að tekið hefur verið tillit til þeirra athugasemda sem bárust við matslýsingu, sem voru minniháttar. Nálgast má svör við athugasemdum á heimasíðu Landsnets (landsnet.is).   

Forsenda matsvinnu er samanburður valkosta

Grundvöllur matsvinnunnar er samanburður valkosta, sem er forsenda fyrir því að geta metið möguleg og líkleg umhverfisáhrif. Valkostirnir ná til mismunandi þátta s.s. legu, spennustigs, endurbyggingu eldri mannvirkja eða bygging nýrra,  hvort um er að ræða loftlínu eða jarðstreng og gerð jarðstrengs (riðstraumur eða jafnstraumur).
Í umhverfismatinu er fjallað um þessa kosti til að tryggja að umhverfissjónarmið liggi ávallt fyrir við ákvörðun um valkosti og útfærslu í flutningskerfinu. Með þessari nálgun er því hægt að sjá hvort og hvar mögulegt sé að draga úr neikvæðum áhrifum og auka þau jákvæðu, sem er í samræmi við markmið laga um umhverfismat áætlana. 

Áhrifamatið byggir á lögum, stefnum og áætlunum stjórnvalda

Umhverfismatið byggir á því að skoða helstu áhrifaþætti sem felast í framkvæmd áætlunarinnar, leggja mat á umfang og vægi umhverfisáhrifa, og tilgreina mótvægisaðgerðir til að draga úr eða koma í veg fyrir umhverfisáhrif þar sem það á við. Við mat á umhverfisáhrifum eru lög, stefnur og áætlanir stjórnvalda hluti þess sem lagt er til grundvallar.

Umhverfisþættir sem verða fyrir mestum áhrifum

Umhverfisþættir sem verða fyrir helstu neikvæðu umhverfisáhrifum eru landslag og ásýnd, land, lífríki og ferðaþjónusta, meðan helstu jákvæðu áhrifin eru á aðra atvinnuuppbyggingu. Gerð er grein fyrir umhverfisþáttum sem verða fyrir óverulegum áhrifum í viðauka.

Samþætting vinnu við kerfisáætlun og umhverfisskýrslu

Vinna við umhverfismat hefur farið fram samhliða vinnu við mótun kerfisáætlunar. Þannig er tryggt að horft sé til umhverfissjónarmiða við mótun kerfisáætlunar og að unnt sé að bregðast við upplýsingum sem koma fram í matsvinnunni. Vinna við kerfisáætlun 2019-2028 og umhverfisskýrslu hennar byggir að stórum hluta á kerfisáætlun 2018-2027.

Mynd 2.1 -  Mótun kerfisáætlunar 2019-2028

Vandkvæði í matsvinnu 

Breytingar hafa orðið á umhverfismati kerfisáætlunar frá matslýsingu

Breytingar frá matslýsingu felast fyrst og fremst í að mat er lagt á umhverfisáhrif C kostar, það er þær lykilfjárfestingar sem eru sameiginlegar í A og B.
Einnig hafa orðið breytingar á umhverfisþáttum og hvernig matsspurningum er skipt á umhverfisþætti. Sömu matsspurningar eru notaðar og lagt var upp í matslýsingu.

Vandkvæði í umhverfismatsvinnu

Eins og í fyrri matsvinnu liggja ekki fyrir nauðsynlegar upplýsingar fyrir alla umhverfisþætti. Gerð var grein fyrir því í matslýsingu. Því er ekki hægt að leggja fram sambærilegar upplýsingar fyrir landið í heild í mati á mögulegum áhrifum kerfisáætlunar. 

Fornleifar

Sá kortagrunnur, sem er til með skráðum fornleifum á Íslandi, nær eingöngu til lítils hluta af skráðum leifum. Í matsvinnu var því ekki unnt að gera grein fyrir grunnástandi nema að takmörkuðu leyti og ekki reyndist unnt að meta líkleg áhrif kerfisáætlunar á fornleifar á þessu stigi. 

Ferðaþjónusta

Við umhverfismat kerfisáætlunar er reynt að leggja mat á möguleg áhrif kerfisáætlunar á ferðaþjónustu og þá sérstaklega hvort hún takmarkaði á einhvern hátt vöxt þessarar atvinnugreinar. Ekki liggur fyrir stefna um svæði sem ferðaþjónustan, sem heildarsamtök, telur mikilvæg fyrir vöxt og viðgang greinarinnar, eða áætlun stjórnvalda um uppbyggingu greinarinnar. Skortur á þessum upplýsingum takmarkar að ákveðnu leyti umfjöllun um möguleg áhrif kerfisáætlunar á ferðaþjónustu. Aftur á móti liggja árlega fyrir ný töluleg gögn í tengslum við ýmsa þætti ferðaþjónustu sem má nýta.

Óbyggð víðerni

Með gildistöku náttúruverndarlaga nr. 60/2013 var skilgreiningu og heiti ósnortinna víðerna breytt. Í dag er notað hugtakið óbyggð víðerni. Ný skilgreining mun líklega leiða til þess að víðerni nái yfir stærra svæði en áður. Hins vegar liggur ekki fyrir kortlagning óbyggðra víðerna eða friðlýsing þeirra skv. 46. gr. laga um náttúruvernd. 

Jarðminjar

Skortur er á opinberum viðmiðum fyrir það sem teljast merkar jarðminjar. Haft var samband við Náttúrufræðistofnun Íslands sem staðfesti að slík viðmið vantaði. Stuðst er við kortagrunn Náttúrufræðistofnunar um jarðminjar og skýrslu um jarðminjar (Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins, 2002) við áhrifamat kerfisáætlunar.