Þróun meginflutningskerfisins næstu 10 árin

Undangengin valkostagreining snýr að heildarendurnýjun meginflutningskerfisins á því tímabili sem sviðsmyndir um raforkunotkun 2018–2050 ná yfir. Skv. 9. gr. a raforkulaga nr. 65/2003 og reglugerð 870/2016 um kerfisáætlun skal langtímaáætlun kerfisáætlunar sýna þá þætti í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu 10 árum og tímaáætlun þeirra. Ekki er raunhæft að sú uppbygging á meginflutningskerfinu sem fjallað er um í valkostagreiningu langtímaáætlunar verði framkvæmd innan þess tímaramma. Um er að ræða viðamiklar fjárfestingar sem rúmast þurfa innan eðlilegs fjárfestingarramma flutningsfyrirtækisins. Að sama skapi þarf einnig að vera rúm fyrir aðrar fjárfestingar við flutningskerfið, bæði í svæðisbundnu kerfunum og eins vegna endurnýjunar núverandi flutningsmannvirkja í meginflutningskerfinu. 
Það er stefna Landsnets að fjárfestingar í flutningskerfinu leiði ekki til hækkunar á gjaldskrá til lengri tíma. Því mun hraði framkvæmda að einhverju leyti taka mið af raunþróun notkunar kerfisins og kerfið byggjast upp hraðar eftir því sem heildarflutningsmagn þess eykst hraðar. 

 

 

Styrkingar til næstu 10 ára

Niðurstaða valkostagreiningar í langtímaáætlun kerfisáætlunar, sem snýr að þróun meginflutningskerfisins, er sú að þær línulagnir sem sameiginlegar eru öllum valkostum og kynntar eru í kafla 4 verði fullkláraðar á því tímabili sem áætlunin nær yfir, auk þess að styrkja flutningsleiðina á milli Hvalfjarðar og Hrútafjarðar með byggingu nýrrar 220 kV línu. 


 Þær línur sem um ræðir eru á Norðurlandi; Kröflulína 3 á milli Kröflu og Fljótsdals, Hólasandslína 3 á milli Akureyrar og Kröflu og Blöndulína 3 á milli Blöndu og Akureyrar. Á suðvesturhorninu þarf að byggja Lyklafellslínu 1 og Suðurnesjalínu 2 sem nú er í umhverfismati. Einnig er fyrirsjáanlegt að auka þurfi flutningsgetu á milli höfuðborgarsvæðis og Vesturlands, annað hvort með uppfærslu á Brennimelslínu 1 eða með byggingu nýrrar línu þar á milli. Það sama gildir um tengingu á milli Hellisheiðar og höfuðborgarsvæðis en kerfisrannsóknir sýna að þar muni fljótlega myndast flöskuháls í fæðingu höfuðborgarinnar. Ekki er ákveðið hvernig staðið verði að þeirri styrkingu en einhverjir möguleikar eru í stöðunni, m.a. uppfærsla á núverandi línum eða með lagningu nýrrar línu. Í umfjöllun sem fylgir um gjaldskráráhrif framkvæmda munu þessar sjö línuleiðir vera kallaðar lykilfjárfestingar í meginflutningskerfinu. Samhliða þessum verkefnum er áætlað að byggja nýja 220 kV línu á milli Hvalfjarðar og Hrútafjarðar auk þess að fjárfesta bæði í svæðisbundnu kerfunum og endurnýjun núverandi flutningsmannvirkja. 

Áætluð aflgeta afhendingarstaða eftir 10 ár


Framkvæmdar hafa verið kerfisrannsóknir í þeim tilgangi að leggja mat á aflgetu afhendingarstaða í lok tímabils áætlunarinnar eftir að lokið hefur verið við þær framkvæmdir sem taldar eru upp hér að ofan. Miðað er við Raforkuspá og horft til stöðunnar eins og hún verður í lok árs 2028 skv. spánni og er niðurstaðan eftirfarandi:

 
MYND 5-1 : Aflgeta afhendingarstaða í lok tímabils áætlunarinnar

Mynd 5-1 sýnir áætlaða aflgetu afhendingarstaða árið 2028. Ef myndin er borin saman við sambærilegar myndir fyrir niðurstöðu valkosta sést að mikið verður áunnið með því að ráðast fyrst í byggingu lína sem auðkenndar eru á myndinni. Þetta eru framkvæmdir sem sameiginlegar eru öllum valkostum auk einnar sem einungis tilheyrir B-valkostum eins og valkostirnir eru skilgreindir nú. Sérstaklega munar litlu þegar þessi mynd er borin saman við niðurstöðu fyrir A-valkosti hvað varðar möguleika til aukins flutnings til afhendingarstaða. Það sem kemur þó ekki fram á myndinni er að tenging milli landshluta veitir stöðugleika og sveigjanleika sem mun alltaf vanta upp á meðan slíkri/slíkum tengingu/m er slegið á frest. Á meðan verður hægt að auka afhendingu, sérstaklega ef virkjanir eru byggðar innan sömu landshluta og notkunin er. Ef mynd 5.1 er borin saman við sambærilegar myndir fyrir B-valkosti má sjá að töluverðu munar á afhendingargetu kerfisins þar sem B-valkostir spanna allan hringinn í kringum landið en þó eru forgangsframkvæmdirnar á mynd 5-1 vel til þess fallnar að létta á núverandi kerfi og skapa svigrúm til skemmri tíma. 


 

Áhrif af uppbyggingu vindorku

Undangengnar greiningar sýna að verði af uppbyggingu vindorkugarða mun það hafa mikil áhrif á flæði milli einstakra tengipunkta á núverandi línuleiðum. Þróun vindorkuverkefna í nánustu framtíð mun því hafa áhrif á forgangsröðun verkefna. Til að bregðast við áformum um uppbyggingu vindlunda á Vesturlandi hefur verið tekin ákvörðun um það að styrkja meginflutningskerfið á Vesturlandi með nýrri öflugri tengingu á milli Hvalfarðar og Hrútafjarðar á næstu 10 árum. Verði tafir á vindorkuverkefnum á Vesturlandi er mögulegt að þessi áform verði endurskoðuð til samræmis. Sem dæmi má nefna að hröð uppbygging vindlunda á Vesturlandi gætu orðið til þess að flýta styrkingu flutningskerfisins á Vesturlandi, til dæmis með bættri tengingu Hrútatungu við Hvalfjörð og Blöndu.