Áhrifaþættir kerfisáætlunar

Við mat á mögulegum áhrifum á umhverfisþætti vegna uppbyggingar flutningskerfisins er litið til helstu áhrifaþátta kerfisáætlunar. Áhrifaþáttum er skipt í þrjá megin flokka. Þessir þrír flokkar hafa mismunandi áhrif á umhverfisþætti sem eru til skoðunar (Tafla 5.1) þótt í ákveðnum tilvikum kunni þeir að hafa áhrif á sömu þættina.

Tafla 5.1 - Helstu áhrifaþættir kerfisáætlunar á umhverfið

 

Beint rask vegna mannvirkja

Þegar fjallað er um umfangsvæða sem verða fyrir beinu raski er gert ráð fyrir að allir framkvæmdaþættir séu þar taldir með,mastursstæði, vegslóðar, skurðir og tengivirki. Í kafla 6.2 er gerð grein fyrir mismunandi stærð helgunarsvæða og raskaðra svæða eftir því hvort um er að ræða loftlínu eða jarðstreng. 

Stefna Landsnets um frágang eftir byggingu mannvirkja

Landsnet leggur áherslu á að að loknum framkvæmdum séu svæði hreinsuð og jarðrask lagfært í samræmi við aðstæður á hverjum stað. Þar sem þörf er talin á verður borinn áburður í gróðursár og/eða sáð fræi eða þar sem það á við og notað svarðlag sem tekið var frá í upphafi framkvæmdar. Ef um er að ræða lagningu loftlínu eða jarðstrengs á hálendi er til þess tekið að gróður og jarðvegur þar er viðkvæmari en á láglendi. 

Í stefnu Landsnets kemur fram að eitt af markmiðum fyrirtækisins sé að koma fram af virðingu við umhverfi sitt, bæta það og tryggja að ekki verði óþarfa röskun á því vegna starfsemi fyrirtækisins. Fyrirtækið gerir sömu kröfur í umhverfismálum til þeirra verktaka og ráðgjafa sem vinna fyrir fyrirtækið og það gerir til sjálfs sín. Fyrirtækið hefur eftirlit með því að verktakar við einstaka framkvæmdir fari að lögum og reglugerðum, valdi ekki meiri röskun á landi en þörf krefur og gangi vel um framkvæmdasvæðið.

 

Tafla 5.2 - Meðalbreidd beins rasks eftir tegundum framkvæmda. 

 

Sýnileiki, hávaði og raf- og segulsvið

Sýnileiki. Í áhrifamati er lögð áhersla á sýnileika flutningskerfisins. Talsverður munur er á sýnileika loftlínu og jarðstrengs. Stærð, fjöldi og tegund mastra eru þættir sem skipta máli hvað varðar sýnileika. 

Við mat á sjónrænu áhrifasvæði loftlínu er allajafna miðað við að megin áhrif á landslag og sjónræn áhrif séu innan 5 km fjarlægðar frá línumannvirkjum. Mat á áhrifasvæði loftlínu miðar því við 10 km. Í reynd getur loftlína bæði sést um skemmri og lengri veg en þar sem um er að ræða áætlun á landsvísu er ekki tilefni til að greina áhrifin nánar á þessu stigi. Framangreind viðmið byggja á GLIVA (Landscape institute and Institute of Environmental Management and Assessment, 2013). 

Í umhverfismatinu hefur verið litið til þess að sýnileiki jarðstrengja fari eftir staðháttum. Almennt er litið til þess að jarðstrengir valdi sjónrænum áhrifum vegna jarðrasks,  til lengri tíma litið eru áhrifin minni en af loftlínum og sjónrænt áhrifasvæði allajafna minna. Ekki liggja fyrir viðmiðá umfangi eða mati á sýnileika strengja eins og til er fyrir loftlínur.

Rafsegulsvið. Miðað er við að áhrifasvæði rafsegulssviðs sé 95 m, þ.e. 42,5 m frá loftlínustæði (Tafla 5.4). Rafsvið skermaðs jarðstrengs nær ekki út fyrir strenginn sjálfan, en segulsvið er alltaf til staðar og er segulsvið jarðstrengja sterkast á takmörkuðu svæði beint yfir strengnum og minnkar hratt út til hliðanna. Helgunarsvæði jarðstrengja á spennustiginu 220 kV er 12-20 m fyrir tvö aðskilin strengsett með vegslóð á milli. Helgunarsvæði loftlína er hins vegar talsvert breiðara. Það er 45-70 m fyrir 220 kV línur. Breidd helgunarsvæðis er háð mastragerð, haflengdum og fleiri þáttum. Innan helgunarsvæða eru ýmsar takmarkanir á  landnotkun. 

Hávaði. Almennt er ekki gert ráð fyrir að hljóð sé greinanlegt frá jarðstrengjum, en hljóð frá háspennulínum er mismunandi og háð aðstæðum sem mikilvægt er að skoða við mat á umhverfisáhrifum hvers verkefnis. 

 

Tafla 5.3  - Yfirlit yfir áhrifasvæði loftlína
Tafla 5.4 -  Yfirlit yfir áhrifasvæði jarðstrengja
Tafla 5.5 -  Yfirlit yfir helgunarsvæði

 

Afhending raforku

Áhrifaþættir sem snúa að afhendingu raforku eru flutningsgeta, afhendingaröryggi og stöðugleiki. Þessir þættir hafa flestir jákvæð áhrif á notendur. Jákvæðu áhrifin geta m.a. stuðlað að betri rekstrarskilyrðum og skapað forsendur fyrir uppbyggingu nýrrar eða aukinnar atvinnustarfsemi, betri nýtingu virkjana og jafnað samkeppnisstöðu svæða.

Þá hefur flutningskerfið og styrking þess áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Losunin er bæði vegna uppbyggingar á flutningskerfinu og vegna óbeinna áhrifa, sem snúa að notkun orkunnar.