Áhrif áætlaðra fjárfestinga á flutningskostnað

Í þessum kafla verður fjallað um áhrif áætlaðra fjárfestinga á flutningskostnað. Farið verður stuttlega yfir stöðu flutningsgjaldskrár og þá þætti sem hafa haft áhrif á þróun hennar undanfarinn áratug og þá sem munu að öðru óbreyttu ráða þróun hennar næstu misseri.

Árið 2016 setti Landsnet sér það markmið að fjárfestingar í flutningskerfinu leiði ekki til hækkunar á flutningskostnaði til langs tíma. Í þeirri viðleitni hefur Landsnet reynt að halda fjárfestingum jöfnum til að koma í veg fyrir að eignastofn fyrirtækisins vaxi of hratt miðað við flutta raforku. Í ljósi þessa markmiðs mun Landsnet haga hraða framkvæmda þannig að mið sé tekið af raunþróun flutnings í kerfinu og kerfið mun því byggjast upp hraðar eftir því sem heildarflutningsmagn eykst hraðar. Gera má þó ráð fyrir að þetta markmið náist ekki alltaf og að tímabundnar sveiflur verði á flutningsgjaldskrá félagsins, enda eru undirliggjandi stærðir sem hafa áhrif á flutningsgjaldskrá þess eðlis að Landsnet getur ekki haft áhrif á þær eins og fjallað verður um hér á eftir.

 Landsnet setur nú fram þrjá valkosti til uppbyggingar þar sem breytingar á flutningskostnaði eru metin, A, B og C. Valkostur C bætist við framsetningu síðasta árs. Landsnet er þannig að bregðast við athugasemdum frá viðskiptavinum í samráðsferli í fyrra. Valkostur C felur í sér að einungis er farið í svokallaðar lykilfjárfestingar – þau verkefni sem eru sameiginleg öllum valkostum. Það verða því engar samtengingar milli virkjanasvæða ef valkostur C raungerist. Valkostur A gerir ráð fyrir hálendislínu með 50km löngum jarðstreng. Tölur um fjárfestingakostnað eru settar fram á nafnvirði.

Enn fremur eru hér settar fram niðurstöður tveggja sviðsmynda um uppbyggingarhraða í valkostum A og B. Í sviðsmyndum um hraða uppbyggingu er gert ráð fyrir því að samtengingum virkjanasvæða verði lokið árið 2028 en árið 2032 í hægri uppbyggingu. Til að ná að fanga áhrif beggja uppbyggingarsviðsmynda á gjaldskrá hefur tímabil gjaldskrárþróunar verið lengt úr 10 árum í 15.


 

Staða flutningsgjaldskrár og áhrif uppbyggingar

Flutningsgjaldskrá Landsnets er í grunninn byggð á samspili fluttrar raforku, rekstrarkostnaðar, afskrifta og arðsemi eignastofns. Það flækir hins vegar oft myndina að þessir þættir og aðrir sem skipta máli eru síbreytilegir og utan áhrifa fyrirtækisins. Flutningsgjaldskráin er því í raun byggð á kvikum grunni og mun óhjákvæmilega sveiflast í kringum meðaltal til lengri tíma. Mikilvægir þættir sem flutningsgjaldaskráin byggist á og fyrirtækið hefur engin áhrif á hafa haft afgerandi áhrif undanfarinn áratug. Ber þar helst að nefna breytingar á raforkulögum árið 2011, langvarandi óvissu um tekjumörk og leyfða arðsemi eignastofns á árunum 2006-2016 auk gengisfalls krónu gegn bandaríkjadollar í kringum efnahagshrunið 2008 og þeirrar ákvörðunar yfirvalda að Landsnet skyldi greiða stórnotendum gengishagnað til baka á 10 árum í formi lækkaðrar gjaldskrár. Þessi langvarandi óvissa og óstöðugleiki hefur gert Landsneti erfitt fyrir að uppfylla markmið sitt um stöðugan flutningskostnað. Þessi saga er útskýrð með ítarlegri hætti á heimasíðu Landsnets .

 Í þeim útreikningum sem fylgja er ekki gert ráð fyrir breytingum á ytri aðstæðum eins og þeim sem hér hefur verið lýst. Þá er gert ráð fyrir því í þessari áætlun að flutt raforka fylgi þeim sviðsmyndum sem Raforkuhópur orkuspárnefndar hefur skilgreint, en niðurstöður þessara útreikninga lýsa hvorki markmiðum né stefnu Landsnets í flutningsgjaldskrármálum. Tilgangurinn með þessum útreikningum er að sýna samspil þeirra þátta sem hafa áhrif á þróun flutningskostnaðar. Landsnet setti sér á árinu 2016 markmið um að flutningskostnaður skyldi ekki hækka til langs tíma litið. Hefur þetta markmið verið sett inn á línurit vegna mögulegrar flutningsgjaldskrárþróunar sem birt eru síðar í þessum kafla.

Til þess að meta áhrif fjárfestinga á flutningsgjaldskrá vegna raforkuflutninga þarf í grunninn að huga að tveimur þáttum. Annars vegar hvernig áætlað er að orkuflutningur muni koma til með að þróast og hins vegar tekjumörkum Landsnets. Tekjumörk eru þær heildartekjur sem félaginu er heimilt að innheimta af viðskiptavinum sínum. Tekjumörkum er skipt í tvennt, annars vegar leyfðar tekjur af dreifiveitum og hins vegar af stórnotendum. Samkvæmt raforkulögum setur Orkustofnun Landsneti tekjumörk sem byggjast á eftirfarandi: sögulegum rekstrarkostnaði, afskriftum ásamt arðsemi eignastofns og veltufjármuna.

Framlag eignastofnsins til tekjumarka er ráðandi þáttur í útreikningum þeirra. Ef horft er til ársins 2019 má rekja u.þ.b. 80% tekjumarka stórnotenda og 70% tekjumarka dreifiveitna til eignastofnsins. Í heildina er vægi eignastofns í tekjumörkum um 75%. Hann hefur því afgerandi áhrif á tekjustofn félagsins og þar með á flutningsgjaldskrá.

Frá árinu 2008 hafa fjárfestingar í flutningskerfinu snúið meira að dreifiveitum. Viðbætur við eignastofn dreifiveitna hafa numið um 50% milli áranna 2008 og 2018 en á sama tíma hafa viðbætur við eignastofn stórnotenda numið 35%. Á þessu tímabili hefur orkunotkun dreifiveitna aukist um 10% en notkunaraukning stórnotenda hefur numið 24% á sama tímabili. Þessi áhersla á fjárfestingar í kerfishluta dreifiveitna ásamt tiltölulega lítilli notkunaraukningu hafa átt sinn þátt í að þrýsta flutningsgjaldskrá dreifiveitna upp á við á undanförnum áratug. Hins vegar hefur á þessum tíma flutningsgjaldskrá stórnotenda lækkað að raunvirði vegna aukins flutnings og lægri fjárfestinga.


 

Áhrif framkvæmda næstu 15 ára á flutningsgjaldskrá

Til að meta möguleg áhrif fjárfestinga á flutningskostnað eru settir fram þrír valkostir. Einn valkosturinn gerir ekki ráð fyrir samtengingu en tveir valkostanna gera ráð fyrir samtengingu, annars vegar yfir hálendið og hins vegar með tengingu milli Hvalfjarðar og Blöndu. Fyrir valkostina sem innihalda samtengingar er gert ráð fyrir tveim uppbyggingarsviðsmyndum, það er mishraðri uppbyggingu á samtengingu. Metin eru möguleg áhrif þessa valkosta og sviðsmynda á flutningskostnað út frá fjórum mismunandi notkunarsviðsmyndum Raforkuhóps orkuspárnefndar.

 

Gert er ráð fyrir sömu heildarfjárfestingu í öllum notkunarsviðsmyndum nema í tilviki Aukinnar stórnotkunar. Þar er reiknað með hærri fjárfestingakostnaði en fyrir aðrar sviðsmyndir þar sem leggja þarf í auknar fjárfestingar við tengingar stórnotenda en nauðsynlegt er ef einhver af hinum sviðsmyndunum raungerist.

 

Valkostirnir eru settir fram sem dæmi um mögulegan uppbyggingarhraða í þeim tilgangi að meta áhrif uppbyggingarinnar á flutningsgjaldskrár. Líklegt má telja að raunþróun flutningsmagns verði einhvers staðar innan þeirra marka sem sviðsmyndir frá Raforkuhópi orkuspárnefndar lýsa og munu lokaákvarðanir um fjárfestingar taka mið af þeirri raunþróun.

 

Í umfjölluninni sem hér fylgir er fyrst fjallað um nýjan valkost. Valkosti C var bætt við umfjöllunina til að bregðast við umsögnum við kerfisáætlun síðasta árs. Í honum er ekki gert ráð fyrir samtengingu virkjanasvæða, hvorki með hálendislínu né með tengingu frá Hvalfirði til Blöndu. Valkostur C er því í raun það sem er sameiginlegt með öllum valkostum A og B. Munurinn á hröðum og hægum uppbyggingarsviðsmyndum er svo hvenær samtenging á sér stað. Þau verkefni sem valkostur C samanstendur af hafa því verið nefnd lykilfjárfestingar.

 

Töflur 6-1 til 6-3 sýna fjárfestingarkostnað á 15 ára tímabili fyrir hina ýmsu hluta flutningskerfisins. Heildarkostnaður við valkostina er á bilinu 77,4-99,8 milljarðar króna eða 5,2-6,7 milljarðar á ári. Til samanburðar hafa fjárfestingar í flutningskerfinu undanfarin 10 ár numið að jafnaði um 3,4 milljörðum króna á ári og undanfarin fimm ár hafa fjárfestingar að jafnaði verið 4,4 milljarðar króna á ári. Stór verkefni sem áttu að vera komin til framkvæmda hafa frestast sem lækkar tölu undanfarinna ára og hækkar sömuleiðis fyrirséðan fjárfestingakostnað.

 

Fjárfestingarkostnaður lykilfjárfestinga í meginflutningskerfinu er um 40% af áætluðum kostnaði við uppbyggingu og endurnýjun flutningskerfisins næstu 15 árin. Aðrar fjárfestingar í meginflutningskerfinu snúa aðallega að endurnýjun núverandi flutningsvirkja samkvæmt endurnýjunaráætlun. Um fjórðungur fjárfestingarþarfar er tilkominn vegna verkefna í svæðisbundnu flutningskerfunum, en þar er bæði um að ræða endurnýjun á núverandi flutningsvirkjum ásamt byggingu nýrra virkja, bæði flutningslína og tengivirkja. Þau verða byggð í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi og í einhverjum tilvikum að auka flutningsgetu. Í kostnaðartölum vegna lykilfjárfestinga í meginflutningskerfinu er gert ráð fyrir að hlutfall jarðstrengja í 220 kV línum sé í samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

Nánari lýsingar á valkostum má finna í kafla 4.

Valkostur A – Tenging yfir hálendið

Í valkosti A er gert ráð fyrir öllum lykilfjárfestingum auk tengingar yfir hálendið. Fyrir þennan valkost er stillt upp tveim útfærslum, hraðari samtengingu og hægari. Fyrir hraðari útfærsluna er, á sama hátt og gert er fyrir valkost B, miðað við að samtenging klárist árið 2028 og við hægari útfærsluna er gert ráð fyrir að samtenging klárist 2032. Heildarkostnaður fjárfestinga fyrir þennan valkost er sá sami hvort sem um er að ræða hægari eða hraðari útfærsluna ef litið er framhjá áhrifum núvirðingar. Munurinn á fjárfestingum milli valkosta C og A er 16,4 milljarðar króna og liggur sá munur í samtengingunni. Kostnaður við valkost A er enn fremur 4 milljörðum hærri en kostnaður við valkost B.

Tímaáætlun framkvæmda við lykilfjárfestingar í meginflutningskerfinu samkvæmt valkosti A og hraðari uppbyggingu er eftirfarandi:

MYND 6-1: Tímalína lykilfjárfestinga við valkost A – hraðari uppbygging
 
Tímaáætlun framkvæmda við lykilfjárfestingar í meginflutningskerfinu samkvæmt valkosti A og hægari uppbyggingu er eftirfarandi:
MYND 6-2: Tímalína lykilfjárfestinga við valkost A – hægari uppbygging

Við samanburð á hraðari og hægari uppbyggingu má sjá að munurinn liggur eingöngu í framkvæmdatíma hálendislínu.

Heildarfjárfestingar í flutningskerfinu á tímabilinu í valkosti A eru eftirfarandi:

TAFLA 6-1 : Heildarmagn fjárfestinga – valkostur A

Tafla 6-1 sýnir hvernig fjárfestingar innan valkosts A eru samsettar. Um helming þeirra má rekja til lykilfjárfestinga í meginflutningskerfinu en þær fjárfestingar eru sameiginlegar öllum valkostum auk samtengingar. Aðrar fjárfestingar í meginflutningskerfinu eru um fjórðungur en fjárfestingar í svæðisbundnu kerfunum eru um fimmtungur. Við sviðsmyndina Aukin stórnotkun bætist svo 6 milljarða fjárfestingaþörf vegna verkefna sem snúa beint að stórnotendum. Heildarfjárfesting í þessum valkosti er því á bilinu 94-100 milljarðar króna.

Eins og áður hefur komið fram setti Landsnet sér markmið á árinu 2016 um að flutningsgjaldskrá ætti ekki að hækka til langs tíma litið. Gjaldskrárviðmiðið sem birt er í gröfunum í þessum kafla er byggt á tekjumörkum Landsnets á árinu 2016 á föstu verðlagi. Þetta er reiknað á þann hátt að núverandi flutningsgjaldskrá fær gildið 100. Söguleg gjaldskrá er svo reiknuð til baka með þeim gjaldskrárbreytingum sem hafa orðið frá 2008 og að lokum eru þessar vísitölur færðar upp á fast verðlag með neysluverðvísitölum. Flutningsgjaldskrárviðmiðið er sett sem uppreiknuð gjaldskrárvísitala árið 2016, en þó þannig að leiðrétt er fyrir frávikum rauntekna og tekjumarka á því ári. Þessi leiðrétting er gerð svo ekki sé innbyggð skekkja í gjaldskrárviðmiðunum vegna endurgreiðslu á inneign eða skuld Landsnets við viðskiptavini. Flutningsgjaldskrárviðmið frá 2016 er birt með grænni línu á myndum sem sýna þróun flutningskostnaðar.

 
MYND 6-3: Áhrif fjárfestinga í valkosti A á flutningskostnað dreifiveitna, hröð uppbygging

Mynd 6-3 sýnir hver áhrif hraðari uppbyggingar gætu verið á þróun flutningskostnaðar til dreifiveitna. Engin þessara sviðsmynda samræmist stefnu Landsnets um að flutningskostnaður hækki ekki til lengri tíma. Það er því ólíklegt að Landsnet myndi leyfa þessari þróun að raungerast heldur er líklegra að framkvæmdir frestist svo flutningskostnaður verði nær markmiðum Landsnets.

MYND 6-4: Áhrif fjárfestinga í valkost A á flutningskostnað dreifiveitna, hægari uppbygging

Mynd 6-4 sýnir svo hvernig flutningskostnaður gæti þróast fyrir dreifiveitur ef miðað er við hægari uppbyggingu. Sviðsmyndin Hægar framfarir leiðir enn til verulegrar hækkunar flutningskostnaðar og því ekki í samræmi við stefnu Landsnets um langtímaþróun flutningskostnaðar. Í öllum öðrum sviðsmyndum má gera ráð fyrir því að flutningskostnaður lækki frá því sem nú er eða standi í stað til lengri tíma. Í tilviki grænnar framtíðar er Landsnet rétt við langtímamarkmið sitt um óbreyttan flutningskostnað til lengri tíma litið. 

Þegar litið er á hvernig flutningskostnaður til stórnotenda gæti þróast er myndin önnur. Mynd 6 5 sýnir hver áhrif hraðari uppbyggingar gætu orðið á þróun flutningskostnað stórnotenda. Mynd 6 6 sýnir svo hvernig flutningskostnaður gæti þróast fyrir stórnotendur ef miðað er við hægari uppbyggingu.

MYND 6-5: Áhrif fjárfestinga í valkost A á flutningskostnað stórnotenda, hraðari uppbygging

Eins og sjá má á Mynd 6-5 hafa sviðsmyndir nokkuð afgerandi áhrif á flutningskostnað stórnotenda. Raungerist forsendur Raforkuspár eða Hægra framfara er fyrirséð að flutningskostnaður muni hækka í skrefum um meira en 20% á næstu 15 árum áður en hann fer í lækkunarfasa aftur. Í Grænni framtíð er fyrirséð hækkun minni en þó nokkur. Sviðsmyndin Aukin stórnotkun sker sig úr, enda sú eina sem gerir ráð fyrir aukningu á raforkuflutningi til stórnotenda. Þar má sjá mun minni hækkun auk þess sem lækkunarfasi hefst fyrr en í öðrum sviðsmyndum. Rétt er þó að hafa í huga að flutningsgjaldskrá er um þessar mundir í sögulegu lágmarki eins og greinilega má sjá á myndunum. Í öllum

MYND 6-6: Áhrif fjárfestinga í valkosti A á flutningskostnað stórnotenda, hægari uppbygging

Á Mynd 6-6 má sjá áhrif hægari uppbyggingar á þróun flutningskostnaðar. Framan af eru áhrifin þau sömu en á árunum 2028-2032 koma áhrif samtengingarinnar inn. Flutningskostnaður lækkar þá tímabundið í sviðsmyndinni Grænni framtíð en helst nokkuð stöðugur út tímabilið í sviðsmyndunum Raforkuspá og Græn framtíð. Á sama tíma fer flutningskostnaður í lækkunarfasa ef sviðsmyndin Aukin stórnotkun raungerist og endar vel undir markmiðum Landsnets um stöðugan flutningskostnað.

Valkostur B – Tenging milli Hvalfjarðar og Blöndu

Valkostur B gerir ráð fyrir tengingu milli Hvalfjarðar og Blöndu. Fyrir þennan valkost er stillt upp tveim útfærslum, hraðari samtengingu og hægari. Fyrir hraðari útfærsluna er gert ráð fyrir að samtenging klárist árið 2028 og við hægari útfærsluna er gert ráð fyrir að samtenging klárist 2032. Heildarkostnaður fjárfestinga fyrir þennan valkost er sá sami hvort sem um er að ræða hægari og hraðari útfærsluna. Munurinn á fjárfestingum milli valkosta C og B er 12,4 milljarðar króna og liggur sá munur í samtengingunni. Valkostur B er því 4 milljörðum ódýrari en valkostur A.


Tímaáætlun framkvæmda við lykilfjárfestingar í meginflutningskerfinu samkvæmt valkosti B og hraðari uppbyggingu er eftirfarandi:

MYND 6-7: Tímalína lykilfjárfestinga við valkost B – hraðari uppbygging
Tímaáætlun framkvæmda við lykilfjárfestingar í meginflutningskerfinu samkvæmt valkosti B og hægari uppbyggingu er eftirfarandi:
MYND 6-8: Tímalína lykilfjárfestinga við valkost B – hægari uppbygging

Við samanburð á hraðari og hægari uppbyggingu má sjá að tengingin Hvalfjörður  – Blanda kemur inn síðar. Í hraðara tilfellinu er tengingu komið á árið 2028 en 2032 í seinna tilfellinu. 

Heildarfjárfestingar í flutningskerfinu á tímabilinu í valkosti B eru eftirfarandi:

TAFLA 6-2: Heildarmagn fjárfestinga – valkostur B

Tafla 6-2 sýnir hvernig fjárfestingar innan valkosts B eru samsettar. Rúmlega 70 milljarðar eru vegna fjárfestinga í meginflutningskerfinu. Þar af eru 44,5 milljarðar vegna svokallaðra lykilfjárfestinga auk samtengingar. Fjárfestingar í svæðisbundnum kerfum nema svo 19 milljörðum. Samtals eru fjárfestingar í valkosti B tæpir 90 milljarðar eða 96 milljarðar ef sviðsmyndin Aukin stórnotkun raungerist.

Mynd 6-9 sýnir hver áhrif hraðari uppbyggingar gætu orðið á þróun flutningskostnaðar dreifiveitna. Mynd 6-10 að neðan sýnir svo hvernig flutningskostnaður gæti þróast fyrir dreifiveitur ef miðað er við hægari uppbyggingu

 
MYND 6-9: Áhrif fjárfestinga í valkosti B á flutningskostnað dreifiveitna, hraðari uppbygging

Eins og sjá má á Mynd 6-9 veltur gjaldskrárþróun mikið á því hvaða sviðsmynd um raforkunotkun raungerist. Ef sviðsmyndin Hægar framfarir raungerist mun gjaldskrá hækka verulega og ná hápunkti á árunum 2027-2030 áður en lækkunarfasi hefst. Hins vegar mun flutningskostnaður vera í meira jafnvægi í öðrum sviðsmyndum og enda lægri en hann er í dag, en þó ekki þannig að markmið Landsnets um flutningskostnað náist.

MYND 6-10: Áhrif fjárfestinga í valkosti B á flutningskostnað dreifiveitna, hægari uppbygging

Áhrif þess að fara í hægari uppbyggingu koma fram í því að tímabundin hækkun er lægri í sviðsmyndunum Aukin stórnotkun og Raforkuspá. Þá hefst lækkunarfasi flutningskostnaðar fyrr en hættir að sama bragði fyrr. Þannig má sjá að árin 2032-2033 er fyrirséð nokkuð stöðug flutningsgjaldskrá í öllum sviðsmyndum auk þess sem í sviðsmyndinni Græn framtíð næst langtímamarkmið Landsnets um flutningskostnað.

Þegar litið er á hvernig flutningskostnaður til stórnotenda geti þróast lítur myndin svona út. Mynd 6-11 sýnir hver áhrif hraðari uppbyggingar gætu orðið á þróun flutningskostnaðar stórnotenda. Mynd 6-12 sýnir svo hvernig flutningskostnaður gæti þróast fyrir stórnotendur ef miðað er við hægari uppbyggingu.

MYND 6-11: Áhrif fjárfestinga í valkosti B á flutningskostnað stórnotenda, hraðari uppbygging
Eins og sjá má á hafa notkunarsviðsmyndir nokkuð afgerandi áhrif á á flutningskostnað stórnotenda. Raungerist forsendur Raforkuspár eða Hægra framfara er fyrirséð að flutningskostnaður muni hækka í skrefum um meira en 20% frá því sem nú er á næstu 15 árum áður en hann fer í lækkunarfasa aftur. Í Grænni framtíð er nokkur hækkun fyrirséð en þó mun flutningskostnaður vera lægri en hann hefur oft verið. Sviðsmyndin Aukin stórnotkun sker sig úr en þar má sjá mun minni hækkun auk þess sem lækkunarfasi hefst fyrr en í öðrum sviðsmyndum. Rétt er þó að hafa í huga að flutningskostnaður er um þessar mundir í sögulegu lágmarki. Í öllum tilfellum verður flutningskostnaður stórnotenda lægri en hann var á árunum 2009 og 2013. Í notkunarsviðsmyndinni aukin stórnotkun er áætlaður flutningskostnaður vel undir langtímamarkmiði Landsnets.
MYND 6-12: Áhrif fjárfestinga í valkosti B á flutningskostnað stórnotenda, hægari uppbygging

Ef hægari uppbygging er valin í valkosti B má sjá talsverð áhrif á flutningskostnað stórnotenda Tímabundnar hækkanir á flutningskostnað verða minni í öllum sviðsmyndum auk þess sem lækkunarfasi hefst fyrr. Í notkunarsviðsmyndunum Grænni framtíð og Aukinni stórnotkun er áætlaður flutningskostnaður undir langtímamarkmiði Landsnets.

Sjá má að ef sviðsmyndin Aukin stórnotkun raungerist verður vísitala flutningsgjaldskrárkomin aftur niður fyrir 100 árið 2031. Í öðrum sviðsmyndum er fyrirséð hækkun flutningskostnaðar mestur í Raforkuspá, rúmlega 14% frá núverandi gildi, um 4% yfir langtímamarkmiði.

Valkostur C – Engin samtenging

Í valkosti C er gert ráð fyrir að fjárfestingar takmarkist við þau verkefni sem eru sameiginleg í hinum valkostunum tveimur. Styrkingar á milli Fljótsdals og Blöndu á Norðurlandi og styrkingar í kringum höfuðborgarsvæðið eru óbreyttar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að styrkja samtengingar landsvæða, hvorki með hálendislínu né á milli Hvalfjarðar og Blöndu. Kostnaður við þessar framkvæmdir er því 12,4-16,4 milljörðum lægri en við hina valkostina. Þar sem ekki er gert ráð fyrir samtengingum er engin sviðsmynd hér um hraðari uppbyggingu.


Tímaáætlun framkvæmda lykilfjárfestingar í meginflutningskerfinu er eftirfarandi:

 
MYND 6-13 : Tímalína lykilfjárfestinga í valkosti C.1
Valkostur C gerir ráð fyrir að öllum lykilfjárfestingum í meginflutningskerfinu ljúki fyrir árið 2027. Heildarfjárfestingar í flutningskerfinu á því tímabili sem langtímaáætlun nær yfir eru á föstu verðlagi eftirfarandi:
TAFLA 6-3 : Heildfjárfesting – valkostur C.1

Tafla 6-3 sýnir fjárfestingarkostnað á 15 ára tímabili fyrir hina ýmsu hluta flutningskerfisins. Fjárfestingarkostnaður lykilfjárfestinga í meginflutningskerfinu er um 40% af áætluðum kostnaði við uppbyggingu og endurnýjun flutningskerfisins næstu 15 árin.

Aðrar fjárfestingar í meginflutningskerfinu snúa aðallega að endurnýjun núverandi flutningsvirkja samkvæmt endurnýjunaráætlun. Um fjórðungur fjárfestingarþarfar er tilkominn vegna verkefna í svæðisbundnu flutningskerfunum, en þar er bæði um að ræða endurnýjun á núverandi flutningsvirkjum ásamt byggingu nýrra virkja, bæði flutningslína og tengivirkja. Þau verða byggð í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi og í einhverjum tilvikum að auka flutningsgetu. Í kostnaðartölum vegna lykilfjárfestinga í meginflutningskerfinu er gert ráð fyrir að hlutfall jarðstrengja í 220 kV línum sé samkvæmt viðmiðum í stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

Áhrif fjárfestinga samkvæmt valkosti C.1 á flutningsgjaldskrár hafa verið metin til næstu 15 ára út frá þeim fjórum notkunarsviðsmyndum sem Raforkuhópur orkuspárnefndar hefur skilgreint.

MYND 6-14 : Áhrif fjárfestinga í valkosti C á flutningskostnað dreifiveitna

Mynd 6 14 sýnir hvernig flutningskostnaður dreifiveitna gæti þróast við mismunandi notkunarsviðsmyndir ef uppbygging verður á þann hátt sem lýst er í valkosti C. þar sem ekki er gert ráð fyrir samtengingu. Eins og sjá má á grafinu mun flutningskostnaður enda nálægt langtímamarkmiðum Landsnets nema í tilviki hægra framfara. Í tilviki hægra framfara er þróunin langt yfir markmiðum og afar ólíklegt að Landsnet myndi leyfa þessari þróun að raungerast.
 

Áhrif á flutningskostnað stórnotenda eru áætlaður á sama hátt og má sjá niðurstöður þeirrar áæltlunar á Mynd 6-15.

 
MYND 6-15: Áhrif fjárfestinga í valkosti C á flutningskostnað stórnotenda

 

Töluleg samantekt á áhrifum á flutningskostnað eftir valkostum og sviðsmyndum

Meðfylgjandi tafla sýnir áætlaðar vísitölur flutningsgjaldskrár ásamt breytingum á flutningsgjaldskrá á hverjum tímapunkti.

TAFLA 6-4 : Spár um vísitölur flutningsgjaldskráa og gjaldskrárbreytingar

 

Samantekt á áhrifum framkvæmda á flutningskostnað

Áhrif framkvæmda í flutningskerfinu eru háð mikilvægum forsendum um bæði raforkunotkun og uppbyggingarhraða. Markmið Landsnets um að hækka ekki flutningskostnað til lengri tíma þýðir að uppbygging í flutningskerfinu mun taka mið af eftirspurn. Þó þarf að hafa í huga að þættir utan áhrifa Landsnets geta breytt niðurstöðum.Niðurstöður ætti jafnframt að túlka með þeim fyrirvara að ekki er gert ráð fyrir því að brugðist yrði við þróun sem benti til mikillar hækkunar flutningskostnaðar með því að fresta eða hætta við uppbyggingu eftir því hvernig eftirspurn á raforku þróast. Markmið Landsnets um að hækka ekki flutningskostnað til lengri tíma þýðir að slíkt yrði í raun alltaf gert ef ástæða þætti til.

Niðurstöður sýna fram á að uppbyggingarhraði hefur nokkur áhrif á flutningskostnað og þeim mun meiri eftir því sem raforkunotkun eykst hægar. Hraðari uppbygging leiðir til hraðari stækkunar eignastofns Landsnets án þess að orkunotkun fylgi með. Eignastofninn er eins og áður hefur komið fram mikilvægasti þátturinn í tekjumörkum.

Áhrif sviðsmynda um raforkunotkun á flutningskostnað eru einnig veruleg og hafa meiri áhrif á flutningskostnað stórnotenda en flutningskostnað dreifiveitna. Ef uppbygging verður hröð á sama tíma og aðrar sviðsmyndir en aukin stórnotkun raungerist mun það kalla á nokkra hækkun flutningskostnaðar fyrir stórnotendur. Það verður þó að huga að því að í dag er flutningskostnaður stórnotenda í sögulegu lágmarki sé miðað við fast verðlag og eins að sviðsmyndin aukin stórnotkun er eina sviðsmyndin sem gerir ráð fyrir aukningu í orkunotkun stórnotenda. Sé horft til markmiðs Landsnets um að hækka ekki flutningskostnað til lengri tíma litið er afar ólíklegt að uppbygging kerfisins verði eins og lýst er í valkostum A, B og C ef engin aukning í orkunotkun stórnotenda raungerist.

Fyrir flutningskostnað dreifiveitna er í flestum notkunarsviðsmyndum og valkostum gert ráð fyrir flutningsgjaldskrárlækkunum til lengri tíma litið þó svo að spáð sé hækkunum yfir styttri tímabil. Það er ekki nema í notkunarsviðsmyndinni hægar framfarir sem gert er ráð fyrir flutningsgjaldskrárhækkunum til lengri tíma.

Eins og fram kemur í þessum niðurstöðum er væntanleg þróun flutningskostnaðar háð breytilegum þáttum sem geta haft veruleg áhrif á flutningskostnað. Breytilegir þættir valda óvissu en geta Landsnets til að bregðast við og draga úr uppbyggingarhraða eða hætta við framkvæmdir minnkar hættu á miklum flutningsgjaldskrárhækkunum ef raforkunotkun eykst hægar en gert er ráð fyrir. Samspil þessara þátta getur leitt til mjög breytilegra niðurstaðna, bæði til lækkunar flutningskostnaðar og hækkunar. Markmið Landsnets frá árinu 2016 er eftir sem áður að þeir þættir sem Landsnet hefur stjórn á leiði ekki til hækkunar á flutningskostnaði til lengri tíma.