Uppbygging í svæðisbundnum flutningskerfum

Svæðisbundnu flutningskerfin eru samnefnari fyrir þann hluta flutningskerfisins sem ekki telst til meginflutningskerfisins. Þau eru að mestu rekin á 66 kV spennu en einstaka hlutar þeirrar eru á 33 kV og 132 kV spennu. Mörg verkefni sem eru á framkvæmdaáætlun Landsnets eiga uppruna sinn í kerfisgreiningum sem eru framkvæmdar á svæðisbundnu flutningskerfunum og því mikilvægt að umfjöllun um svæðisbundnu flutningskerfin í kerfisáætlun sé nákvæm og hnitmiðuð. Tilgangur með þessum kafla er að gefa greinargott yfirlit yfir niðurstöður þessara kerfisgreininga ásamt því að birta yfirlit yfir þær uppbyggingarleiðir sem hafa verið til skoðunar. 

Lýsing á hverju svæðisbundnu flutningskerfi byrjar á stuttri lýsingu á viðkomandi kerfi ásamt einlínumynd. Gerð er grein fyrir aflgetu afhendingarstaða í viðkomandi kerfi og hverjir helstu flöskuhálsar eru. Gerð er grein fyrir hvernig talið er að álag muni þróast á svæðinu samkvæmt Raforkuspá og hvaða uppbyggingarleiðir eru á framkvæmdaáætlun eða til skoðunar.

MYND 3-1 : Svæðisbundin flutningskerfi og tengingar við stórnotendur

 

Höfuðborgarsvæðið og Suðurnes

Höfuðborgarsvæðið og Suðurnes eru að mestu leyti fædd beint frá meginflutningskerfinu. Þeir hlutar sem teljast til svæðisbundinna kerfa í eigu Landsnets eru 132 kV tenging frá Hamranesi að Öldugötu í Hafnarfirði, 132 kV tenging frá Hamranesi að Hnoðraholti í Kópavogi og 132 kV tengingar frá Geithálsi að Aðveitustöð 12 við Rauðavatn og í Korpu. Önnur kerfi á 132 kV og lægri spennum eru í eigu Veitna í Reykjavík og HS Veitna í Hafnarfirði. Út frá Hamranesi er tenging út á Suðurnes þar sem jarðhita-virkjanir HS Orku eru tengdar ásamt dreifikerfi HS Veitna. Auk þess afhendir Landsnet þar orku til gagnavera Verne og Advania.
MYND 3-2 : Einlínumynd af flutningskerfinu á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum

Núverandi staða

Vegna aukinnar raforkunotkunar á Suðurnesjum er 132 kV flutningskerfið á SV-horninu orðið þungt lestað. Áhrifanna gætir einnig í 132 kV kerfi Veitna og er nú svo komið að það er ekki lengur rekið hringtengt, til þess að koma í veg fyrir að það sinni hlutverki flutningskerfis, með tilheyrandi skerðingu afhendingaröryggis á höfuðborgarsvæðinu. Truflanir í vinnslukerfinu á Suðurnesjum hefðu enn fremur getað valdið yfirlestunum og útleysingum á höfuðborgarsvæðinu í hringtengdu kerfi Veitna.

MYND 3-3 : Aflgeta afhendingarstaða á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum

Mynd 3-3 sýnir afhendingargetuna á afhendingarstöðum Landsnets á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Fjólublár litur þýðir að hægt er að bæta við afhendingu upp á 0–10 MW, en rauður litur að ekki sé hægt að auka afhendingu frá því sem nú er. Eins og kemur fram á myndinni er hægt að bæta við um 0–10 MW á afhendingarstöðunum á höfuðborgarborgarsvæðinu en það er ekkert svigrúm á Suðurnesjunum.

Þróun álags og vinnslu

Ýmislegt hefur verið í umræðunni varðandi þróun raforkunotkunar og -vinnslu. Má þar nefna aukna uppbyggingu kísilvera í Helguvík, gagnaver bæði á Suðurnesjum og í Reykjavík (Hólmsheiði og Korpu), svo dæmi séu tekin. Hvað varðar orkuvinnslu hafa stækkun Reykjanesvirkjunar, Eldvörp og vindorkuver á Mosfellsheiði helst verið í umræðunni.

Aukning á almennri notkun 

Í Raforkuspá er gert ráð fyrir talsverðri aukningu í almennri orkunotkun á svæðinu. Raforkuspá nær ekki yfir aukningu hjá stórnotendum nema þegar samningur um notkun er til staðar og því ná meðfylgjandi gröf eingöngu aukningu í almennri notkun. 

 
Mynd 3‑4 : Álagsþróun á höfuðborgarsvæðinu
Mynd 3-4 sýnir hvernig talið er að almennt álag muni þróast á höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 2050 skv. Raforkuspá 2018. Eins og sést á myndinni mun álagið aukast töluvert, eða rúmlega tvöfaldast á tímabilinu.
MYND 3-5 : Álagsþróun á Reykjanesi

Mynd 3‑5 sýnir hvernig talið er að almennt álag muni þróast á Suðurnesjum fram til 2050 skv. Raforkuspá. Heildarnotkunaraukning yfir tímabilið er um 70%.

Vinnsluþróun

HS Orka stefnir að því að auka vinnslugetu í Reykjanesvirkjun með því að bæta við 30 MW gufutúrbínu. Gert er ráð fyrir að hún verði komin í rekstur fyrri hluta árs 2021. Enn fremur stefnir HS Orka að endurnýjun vélbúnaðar í Svartsengisvirkjun og þar með mun afkastageta hennar aukast um 15 MW. Gert er ráð fyrir að sú stækkun verði komin í gagnið í ársbyrjun 2022.

Rekstrartengdar áskoranir

Innmötunargeta af 220 kV kerfinu inn á 132 kV kerfið (á Geithálsi og í Hamranesi) stefnir í það að verða takmarkandi. Útleysing á einni einingu getur valdið keðjuverkun sem gæti endað í straum¬leysi um stóran hluta SV-hornsins. Versta tilvik af þessu tagi er útleysing Fitjalínu 1 (MF1) sem veldur því að rúmlega 150 MW vinnslugeta frátengist kerfinu. Þetta veldur yfirlestun í 132 kV kerfi Veitna (milli A.1 og A.2) og sú tenging fer út sem veldur yfirlestun á spennum SP1 og SP2 í Hamranesi. Þeir fara þá báðir út með þeim afleiðingum að algert straumleysi verður á Suðurnesjum, Hafnarfirði og stórum hluta Kópavogs, Garðabæjar og Reykjavíkur.

Uppbyggingarleiðir

Bygging Suðurnesjalínu 2 (SN2) sem er hluti af meginflutningskerfinu er á framkvæmdaáætlun og er fyrirhugað að framkvæmdir við hana hefjist í lok árs 2019.

Stækkun Reykjanesvirkjunar stendur fyrir dyrum innan tveggja ára. Flutningsgeta frá Rauðamel að Fitjum um Fitjalínu 1 (MF1) er ófullnægjandi fyrir þá stækkun og því er úrbóta þörf. Nærtækast væri að tvöfalda tenginguna milli Rauðamels og Fitja, en stækkun Rauðamels er ekki góður kostur því að virkið stendur inni á vatnsverndarsvæði. Heppilegt væri því að byggja tengivirki á Njarðvíkurheiði samhliða lagningu SN2. Leika mætti „millileik“ með tvöföldun milli Fitja og Rauðamels. Sú tenging myndi svo nýtast í framhaldinu með því að taka hana inn í Njarðvíkurheiði.

Aðrar útfærslur eru mögulegar, t.d. að byggja SN2 milli Rauðamels og Njarðvíkurheiðar og tengja hana inn á Suðurnesjalínu 1 (SN1). Í næsta áfanga yrði tengivirki á Njarðvíkurheiði byggt samhliða byggingu SN2 og Rauðamelslína 1 spennuhækkuð í 220 kV og tengd SN2 frá Rauðamel að Njarðvíkurheiði. Svartsengislína myndi tengjast inn á MF1 milli Rauðamels og Njarðvíkurheiðar og tekin þar inn. Fitjalína 1 yrði tekin inn í Njarðvíkurheiði og bætt við nýrri 132 kV tengingu milli Njarðvíkurheiðar og Fitja (eða jafnvel Stakks).

Hvaða leið verður fyrir valinu er ennþá til skoðunar og er verkefnið því ekki komið á framkvæmdaáætlun ennþá.

Yfirlestunarvandamál spenna á Geithálsi verða leyst með endurnýjun spennanna (og auknu spennaafli). Spennarnir eru nú þegar rúmlega 50 ára gamlir og styttist því í endurnýjun þeirra. Auka þarf flutningsgetu Rauðavatnslínu 1, en það verkefni er hluti af framkvæmdaáætlun þessarar kerfisáætlunar.


 

Suðurland

Svæðisbundna flutningskerfið á Suðurlandi afmarkast af svæði sem nær á milli Þorlákshafnar, Flúða og Vestmannaeyja. Kerfið samanstendur af 66 kV loftlínum og jarðstrengjum og átta afhendingarstöðum. Kerfið tengist meginflutningskerfinu í tveimur tengipunktum, Í Sogi og í Búrfelli.
MYND 3-6 : Einlínumynd af flutningskerfinu á Suðurlandi

Mynd 3-6 sýnir einlínumynd af svæðisbundna flutningskerfinu á Suðurlandi. Eins og sést á myndinni er kerfið fætt frá tveimur stöðum, vesturhlutinn frá Soginu um Selfosslínu 1 og Hveragerðislínu 1 og austurhlutinn frá Búrfelli um Hvolsvallarlínu 1 og Flúðalínu 1. Eystri og vestri hlutinn eru svo samtengdir á milli Selfoss og Hellu með Selfosslínu 2. Vestmannaeyjar eru tengdar við Hvolsvöll gegnum Rimakot og tvo sæstrengi þaðan til Eyja. 

Núverandi staða

Álag á 66 kV svæðisflutningskerfið á eystri hluta Suðurlands hefur aukist mikið á síðari árum, mun meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Nú er svo komið að flutningsgeta einstakra hluta er orðin takmarkandi þáttur og að auki eru spennuvandamál vaxandi.

 
MYND 3-7 : Aflgeta afhendingarstaða á Suðurlandi

Mynd 3-7 sýnir mat á aflgetu afhendingarstaða í svæðisbundna flutningskerfinu á Suðurlandi. Í núverandi ástandi er ekki mögulegt að bæta við afli í austari hluta kerfisins en ástandið í vesturhlutanum er örlítið skárra. Í Þorlákshöfn og á Selfossi er mögulegt að bæta við 0–10 MW en í Hveragerði 10-30 MW.

Spennuhækkun flutnings um Vestmannaeyjalínu 3 (VM3) milli lands og Eyja hefur lagfært stöðuna lítillega, en þó eru líkur á að spennuvandamál (t.d. vegna útleysingar skerðanlegs álags í Eyjum) verði viðvarandi. Spennuhækkun VM3 var hugsuð sem fyrsti áfanginn í því að auka flutningsgetu um 66 kV svæðisflutningskerfið á Suðurlandi til Eyja, enda er mesta notkunin á svæðinu þar.Fram til þessa hefur verið horft á flutningskerfið á Suðurlandi sem tvö aðskilin kerfi. Hringurinn Búrfell-Flúðir-Hella-Hvolsvöllur-Búrfell (með „totu“ frá Hvolsvelli um Rimakot til Eyja) hefur verið rekinn frá Búrfelli á meðan hringurinn Sog-Selfoss-Hveragerði-Þorlákshöfn-Sog hefur verið rekinn frá Soginu. Þetta rekstrarfyrirkomulag hefur verið að breytast og hefur Selfosslína 2 verið rekin inni um nokkurt skeið. Aðalástæða þess er að hjálpa til við spennustýringu á Suðurlandi „eystra“. Selfosslína 2 hefur ekki verið í rekstri nema í truflanatilvikum og rétt annar forgangsálagi á Selfossi. Þegar Selfosslína 3 (Selfoss-Þorlákshöfn) bættist við getur einföld truflun á Ljósafossi valdið því að Selfosslína 2 þarf að anna forgangsálagi á Selfossi, Þorlákshöfn og í Hveragerði. Núverandi lína hefur ekki næga flutningsgetu til að anna því álagi og Því er ljóst að einhverra úrbóta er þörf til að viðhalda afhendingaröryggi á svæðinu.

 

Þróun álags og vinnslu

Við undirbúning kerfisgreininga og áætlanagerðar þarf að líta bæði til skemmri og lengri tíma hvað varðar þróun álags. Við áætlanir um uppbyggingu og styrkingar þarf því að huga að lausnum sem gera kleift að flutningskerfið sé rekið á þann hátt að almennir notendur forgangsálags verði fyrir sem minnstum truflunum. Á hinn veginn þarf einnig að huga að því hvernig framtíðaruppbyggingu kerfisins verði best háttað. Gert er ráð fyrir að nýframkvæmdir í flutningskerfinu muni standa að minnsta kosti næstu 50 árin og því mikilvægt að vanda vel allan undirbúning. Varðandi álagsþróun er litið til Raforkuspár sem nær til ársins 2050.

Aukning á almennri notkun 

MYND 3-8 : Álagsþróun í vestari hluta Suðurlands
Mynd 3-8 sýnir mat á því hvernig almennt álag muni þróast í vestari hluta Suðurlandskerfisins fram til 2050 skv. Raforkuspá. Spáin gerir ráð fyrir hægfara aukningu í notkun yfir tímabilið.
MYND 3-9 : Álagsþróun í austari hluta Suðurlands
Mynd 3 9 sýnir hvernig Raforkuspá gerir ráð fyrir að almennt álag muni þróast í austurhluta Suðurlandskerfisins fram til ársins 2050.

Vinnsluþróun

HS Orka er að byggja 9,9 MW virkjun í Tungufljóti sem hefur fengið nafnið Brúarvirkjun. Í neðri hluta Þjórsár eru virkjanakostir sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar. Einhver umræða hefur verið um vindorkugarða á svæðinu, en Landsneti er ekki kunnugt um að neinar ákvarðanir hafi verið teknar um slíkt ennþá.

Rekstrartengdar áskoranir

Álag á 66 kV svæðisflutningskerfið á eystri hluta Suðurlands hefur aukist mikið á síðari árum, ekki síst vegna aukinnar raforkunotkunar notenda á skerðanlegum flutningi í Vestmannaeyjum. Flutningsgeta einstakra hluta kerfisins er orðin takmarkandi þáttur og að auki fara spennuvandamál vaxandi.

Aukning flutningsgetu einstakra takmarkandi strengenda ásamt spennuhækkun flutnings um Vestmannaeyjastreng 3 til Eyja hefur lagfært stöðuna lítillega en þó eru líkur á að spennuvandamál verði viðvarandi.

Spennuhækkunin til Vestmannaeyja hefur frá upphafi verið hugsuð sem fyrsti áfanginn í því að auka flutningsgetu um 66 kV svæðisflutningskerfið á Suðurlandi til Eyja, enda er mesta notkunin í Vestmannaeyjum innan svæðisflutningskerfisins á Suðurlandi.

Afhendingaröryggi hefur aukist með tilkomu Selfosslínu 3, sem liggur á milli Selfoss og Þorlákshafnar. N-1 afhendingaröryggi næst þó ekki með tilkomu Selfosslínu 3 því að Selfosslína 1 og Hveragerðislína 1 koma báðar frá sama 66 kV teininum á Ljósafossi. Teinabilun þar tekur því út báðar línurnar. Ekki er hægt að bæta við forgangsálagi á Flúðum, Hellu, Hvolsvelli, í Rimakoti og Vestmannaeyjum þar sem talsverð yfirlestunarvandamál verða ef Flúðalína 1 eða Hvolsvallarlína 1 leysa út ásamt því að mikil spennuvandamál koma fram við línuútleysingar á svæðinu. Einnig eru spennar í Búrfelli sem þjóna kerfinu á Suðurlandi orðnir fulllestaðir. Ef um skerðanlegt álag væri að ræða væri mögulega hægt að bæta við álagi á svæðinu.

Uppbyggingarleiðir

Skoðaðar hafa verið nokkrar leiðir til uppbyggingar í austari hluta Suðurlandskerfisins og kerfisleg áhrif þeirra metin. Við matið er horft til raftæknilegra þátta og má þar nefna flutningsgetu, spennugildi, áhrif breytilegrar vinnslu eins og t.d. vindorkuvera, N-1 ásamt fleiri þáttum. Einnig er tekið tillit til þróunar í notkun og þá lagt mat á það hversu vel uppbyggingin styður við framtíðarrekstur kerfisins. Í þeim tilgangi að leysa vandamál varðandi aukna flutningsgetu inn á austari hluta Suðurlandskerfisins voru skoðaðir mismunandi möguleikar og fer lýsing á þeim hér á eftir.

  • Uppbygging á 66 kV frá Búrfelli. Þessi leið kallar á úrbætur á spennaafli í Búrfelli og styrkingar/endurbyggingar á línum (a.m.k. HV1 og FU1)
  • Uppbygging á 66 kV frá nýju tengivirki við Búrfellslínu 2. Hugmyndir hafa komið fram um að byggja mætti tengivirki við Búrfellslínu 2, einhvers staðar á „vinstri hlið þríhyrningsins“ sem myndast af Hellulínu 1, Búrfellslínu 2 og Selfosslínu 2. Það tengivirki yrði þá (í þessu tilviki) 220/66 kV.
  • Uppbygging á 132 kV frá nýju tengivirki við Búrfellslínu 2. Í raun sama útgáfa og hér að ofan, nema nú er tengivirkið 220/132 kV og með tengingu við Hellu. Þá þarf að skoða hvert 132 kV kerfið ætti að teygja sig lengra en til Hellu og horfa þá jafnvel til Hvolsvallar og Rimakots.

Sú leið sem ákveðið var að fara var að byggja nýtt tengivirki við Lækjartún í nágrenni Þjórsár sem tengist við Búrfellslínu 2. Einnig stendur til að leggja 132 kV streng frá tengivirkinu og að Hellu sem kæmi í stað þess hluta af Selfosslínu 2. Verkefnin eru á framkvæmdaáætlun Landsnets og má finna nánari lýsingu á þeim þar.

Líkt og með austari hluta Suðurlandskerfisins hafa verið skoðaðar nokkrar leiðir til uppbyggingar í vestari hluta Suðurlandskerfisins. Stillt hefur verið upp nokkrum valkostum og kerfisleg áhrif þeirra skoðuð.

  • Sogslína 2 (132 kV) látin enda í Hveragerði (þ.e. tekin niður milli Hveragerðis og Geitháls). Settur upp spennir (132/66 kV) í Hveragerði. Með því fæst öflug 132 kV tenging inn á vestari hringinn í Hveragerði.
  • Sogslína 2 (132 kV) tekin öll niður. Selfosslína 1, sem er byggð sem 132 kV lína að mestu, tengd í hennar stað á Írafossi (þ.e. á 132 kV) og 132/66 kV spennir settur upp á Selfossi. Með því fæst 132 kV fæðing á Selfoss.
  • Í framhaldinu mætti svo samtengja austari og vestari hluta kerfisins með því að tengja saman Selfoss og Lækjartún með 132 kV jarðstreng sem kæmi þá í stað vestari hluta Selfosslínu 2.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það ennþá hvaða leið verður fyrir valinu við styrkingu á vestari hluta Suðurlandskerfisins.


 

Norður- og Norðausturland


Á norðurhluta landsins eru langar 132 kV línur sem eru hluti af byggðalínunni. Í landshlutanum eru tvö svæðisbundin flutningskerfi sem tengjast meginflutningskerfinu, annars vegar í Varmahlíð og hins vegar á Rangárvöllum á Akureyri. Einnig tengist austari hluti kerfisins meginflutningskerfinu við Þeistareyki.
MYND 3-10 : Einlínumynd af flutningskerfinu á Norður- og Norðausturlandi
Mynd 3 10 sýnir einlínumynd á flutningskerfinu á Norðurlandi. Vestan til er einföld 66 kV tenging frá Varmahlíð til Sauðárkróks. Á Norðausturlandi er umfangsmikið 66 kV kerfi frá Rangárvöllum á Akur-eyri að Laxárvirkjun og allt norðaustur á Kópasker. Inn á línuna milli Laxárvirkjunar og Kópaskers tengist 66 kV jarðstrengur sem tengir 220 kV kerfið á Þeistareykjum um 220/66 kV aflspenni. Húsavík tengist flutningskerfinu frá Laxá með einfaldri 33 kV tengingu. Einnig liggur 66 kV lína frá Rangár¬völlum til Dalvíkur.

Núverandi staða

Svipuð staða er uppi á Norðurlandi og víða annars staðar þegar kemur að aflgetu afhendingarstaða. Á Eyjafjarðarsvæðinu er ekki mögulegt að bæta við neinni notkun. Það sama gildir um Sauðárkrók, Húsavík og Kópasker. Í árslok 2017 bættist við 220 kV tenging inn á svæðið frá Kröflu yfir á Þeistareyki og áfram að Bakka við Húsavík og er mögulegt að bæta við notkun þar. Blönduós og Hnjúkar njóta góðs af nálægð við Blönduvirkjun og þar er hægt að bæta við notkun upp á 0–10 MW. Virkjanir sem tengjast inn á flutningskerfið á Norðurlandi og Norðausturlandi eru Blanda, sem er stór vatnsaflsvirkjun, og á Norðausturlandi vatns¬aflsvirkjun í Laxá og gufuaflsvirkjun á Þeistareykjum sem var gangsett í árslok 2017, ásamt gufuaflsvirkjun í Kröflu.

Fyrir utan flutningskerfi Landsnets rekur RARIK dreifikerfi á svæðinu sem þjónar Raufarhöfn, Þórs-höfn og Bakkafirði ásamt dreifbýli.

MYND 3-11 : Afhendingargeta úr flutningskerfinu á Norður- og Norðausturlandi
Mynd 3-11 sýnir aflgetu allra afhendingarstaða á Norður- og Norðausturlandi. Rauður litur þýðir að ekki sé hægt að bæta við neinni notkun á viðkomandi afhendingarstað. Fjólublár litur þýðir að hægt er að bæta við álagi upp á 0–10 MW og appelsínugulur að hægt sé að bæta við álagi upp á 10–30 MW.

Þróun álags og vinnslu

Forsendur fyrir þróun álags og vinnslu til næstu ára byggja á Raforkuspá og gögnum sem hafa orðið til hjá svokallaðri Norðausturnefnd sem er samráðsvettvangur Orkustofnunar, RARIK og Landsnets. Aukning á almennri notkun

Aukning á almennri notkun 

MYND 3-12 : Álagsþróun á vestari hluta Norðurlands
Mynd 3-12 sýnir hvernig gert er ráð fyrir að almennt álag muni þróast á Norðurlandi fram til ársins 2050 skipt niður á afhendingarstaði Landsnets. Eins og sést á myndinni er gert ráð fyrir hægri og jafnri aukningu á álagi yfir tímabilið. Notkun stórnotenda er ekki á grafinu, þar sem Raforkuspá nær ekki yfir spá um slíka notkun.
MYND 3-13 : Álagsþróun á Norðurlandi eystra

Mynd 3-13 sýnir vænta þróun á Norðurlandi eystra skv. því sem fram kemur í Raforkuspá.

Vinnsluþróun

Nokkrir jarðvarmavirkjunarkostir á Norðausturlandi eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar. Á Norðurlandi eru einnig vindlundir við Blöndu í nýtingarflokki ásamt veituleiðum Blönduvirkjunar. Einnig hafa verið í umræðunni ýmsar smávirkjanir sem ýmist gætu tengst dreifikerfinu og jafnvel flutningskerfinu. Vindorkugarðar aðrir en Blöndulundur hafa verið nefndir til sögunnar og þá helst á Langanesi. Slíkar framkvæmdir myndu kalla á sértækar aðgerðir í flutningskerfinu sem verða teknar til skoðunar þegar að því kemur. 

Rekstrartengdar áskoranir

Helsta hindrunin fyrir aukinni afhendingargetu afhendingarstaða á svæðinu er takmarkanir sem bundnar eru við meginflutningskerfið, þ.e. aflflutningur um snið IV, þar sem aflflutningur frá Vesturlandi inn á Austurland má ekki fara yfir 100 MW. Flæði um snið IV fer oftar en ekki yfir skilgreind stöðugleikamörk á háálagstíma og er brugðist við því með skerðingu á raforku til notenda á skerðanlegri orku. Af þeim sökum er ekki hægt að bæta við 10 MW álagi innan sniðs IV nema með aukinni raforkuvinnslu innan svæðis eða með styrkingu flutningskerfisins.

Til stendur að styrkja meginflutningskerfið á Norður- og Norðausturlandi með lagningu þriggja nýrra 220 kV lína á milli Blöndu og Fljótsdals og talið er að með tilkomu þeirra muni aflgeta afhendingarstaða lagast til muna. Tvær þessara lína, Kröflulína 3 og Hólasandslína 3, eru á framkvæmdaáætlun Landsnets en sú þriðja, Blöndulína 3, mun fara á framkvæmdaáætlun næstu kerfisáætlunar, en áætlað er að framkvæmdir við hana munu hefjast árið 2023.

Í kjölfar spennusetningar Hólasandslínu 3 verður Laxárlína 1 sem byggð var árið 1953 rifin. Sá kafli línunnar sem liggur yfir Vaðlaheiði hefur oft orðið fyrir ísingar- og vindálagi. 17 af þeim 21 fyrirvaralausu bilunum sem hafa átt sér stað á línunni síðastliðin 10 ár má rekja til veðurfarslegra orsaka, s.s. vinds, ísingar og eldinga. Gert er ráð fyrir því að Þeistareykjalína 2 sé arftaki Laxárlínu 1 og þjónar þá Laxárvirkjun aðallega Norðausturlandi en þó með tengingu við meginflutningskerfið um 220/66 kV kerfið á Þeistareykjum til Kröflu.

Húsavíkurlína 1 frá Laxá til Húsavíkur er 33 kV lína sem orðin er tæplega 70 ára gömul, byggð 1948 og ljóst að endurnýja þarf línuna á næstu árum. Samkvæmt kerfisáætlun er áætlað að leysa það vandamál með því að tengja Húsavík við nýtt iðnaðarhverfi á Bakka sem verður tengdur 220 kV línu frá Þeistareykjum og er það verkefni á framkvæmdaáætlun.

Uppbyggingarleiðir

Til stendur að tvöfalda tengingu til Sauðárkróks frá Varmahlíð og auka þannig aflgetu og afhendingar-öryggi á Sauðárkróki. Verkefnið er á framkvæmdaáætlun, en byrjun framkvæmda hefur tafist af ýmsum orsökum. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á árinu 2019.

Húsavíkurlína 1, tenging Húsavíkur frá Laxá, er með allra elstu flutningslínum í kerfinu og hefur um nokkurn tíma staðið til að endurnýja hana. Af þeim kostum sem skoðaðir hafa verið stendur valið um að tengja bæjarfélagið frá nýjum afhendingarstað við iðnaðarsvæðið á Bakka eða leggja nýja línu frá Kópaskerslínu 1 við Höfuðreiðarmúla. Sú lausn sem er hagkvæmari er tenging frá Bakka, en sú tenging er háð spennugæðum á Bakka. Mælingar á spennugæðum standa yfir, en framkvæmdir munu ekki hefjast fyrr en ljóst er að spennugæði standist þær kröfur sem settar eru fram í netmálum og reglugerð.

Á Rangárvöllum eru tveir spennar sem tengja saman 132 og 66 kV spennustigin á Norðausturlandi. Vaxandi álag á Eyjafjarðarsvæðinu veldur því að álag þessa kerfis verður meira en svo að hægt sé að missa annan spenninn úr rekstri án skerðinga, sérstaklega þegar Laxárlína 1 verður rifin. Þess vegna er það verkefni í undirbúningi að bæta við 132/66 kV aflspenni í þeim tilgangi að afhending almenns álag á Norðausturlandi verði trygg til framtíðar. Verkefnið er ekki ennþá komið á framkvæmdaáætlun en gert er ráð fyrir að framkvæmd tengist spennusetningu Hólasandslínu 3 og niðurrifi á Laxárlínu 1.


 

Vesturland

Svæðisflutningskerfið á Vesturlandi er 66 kV kerfi á Snæfellsnesi og Akranesi sem tengist annars vegar Vatnshömrum og hins vegar Brennimel. Það samanstendur af fimm afhendingarstöðum, Akranesi og fjórum á Snæfellsnesi. Kerfið samanstendur af jarðstrengjum.
MYND 3-14 : Einlínumynd af flutningskerfinu á Vesturlandi

Mynd 3-14 sýnir einlínumynd af svæðisbundna flutningskerfinu á Vesturlandi ásamt tengingum þess við meginflutningskerfið. Á Snæfellsnesi eru fjórir hringtengdir afhendingarstaðir sem eru geislatengdir við meginflutningskerfið um Vegamótalínu 1. Þeir eru Ólafsvík, Grundarfjörður, Vogaskeið (Stykkishólmur) og Vegamót. Sunnar er Akranes sem tengist meginflutningskerfinu annars vegar á Brennimel um Akraneslínu 2, 66 kV jarðstreng, og hins vegar á Vatnshömrum um Vatnshamralínu 2 (sem hét áður Andakílslína 1).

Núverandi staða

Flutningur inn á Vesturland er 5-12 MW. Hæst hefur flutningur inn á Vesturland frá 2010 farið í 16 MW fyrir heildarálag og 14 MW í forgangsálagi.

 
MYND 3-15 : Aflgeta afhendingarstaða á Vesturlandi

Mynd 3-15 sýnir aflgetu afhendingarstaða á Vesturlandi. Eins og sést á myndinni er aflgeta allra afhendingarstaða á bilinu 0–10 MW. Það skal þó áréttað að afhendingargeta afhendingarstaða er innbyrðis háð, sem þýðir að aukin afhending á einum stað hefur neikvæð áhrif á aflgetu annarra í sama kerfi. Á svæðinu er talsvert um smávirkjanir og á lágálagstímum ætti að vera nægilegt staðbundið afl á svæðinu til að ráða við eyjarekstur ef skerðanlegt álag er frátalið. Brýn þörf er þó á aðgerðum sem gera kleift að stýra launafli á svæðinu þannig að mögulegt sé að reka kerfið í eyjarekstri. Núverandi staða er þannig að þrátt fyrir að komið væri upp snjallstýringum sem virkja sjálfvirkar útleysingar allt eða hluta af því álagi gæti kerfið ekki lifað af eftir útleysingu Vegamótalínu 1 nema gerðar séu nauðsynlegar úrbætur á stýringu smávirkjana, útjöfnun launafls og tilkomu snjallnets. Einnig er mjög líklegt að sjálfvirk útleysing á Grundarfjarðarlínu 2 í báðum endum jarðstrengsins yrði nauðsynleg vegna mikillar launaflsframleiðslu jarðstrengsins.

Sjálfvirkar útleysingar á skerðanlegu álagi á Vesturlandi með hjálp snjallnets myndu auka afhendingaröryggi á svæðinu en koma þó ekki í stað nauðsynlegrar uppbyggingar á svæðinu, með tvítengingu Snæfellsness við meginflutningskerfið.

Þróun álags og vinnslu

Við kerfisgreiningar er tekið tillit til væntrar þróunar álags á Vesturlandi. Horft er til Raforkuspár 2018 fram til ársins 2050, sem er það tímabil sem spáin nær yfir.

Aukning á almennri notkun

MYND 3-16 : Álagsþróun á Vesturlandi

Mynd 3-16 sýnir álagsþróunina á Vesturlandi samkvæmt Raforkuspá, skipt á afhendingarstaði Landsnets. Samkvæmt henni er heildarvöxtur svæðisins á tímabilinu í kringum 20%. 

Vinnsluþróun

Ekki er gert ráð fyrir að reistar verði stærri virkjanir á svæðinu næstu árin. Þá er ekki ólíklegt að smávirkjunum muni fjölga eitthvað og eins gæti áhugi á vindorkuframleiðslu á svæðinu farið vaxandi.

Rekstrartengdar áskoranir

Framkvæmd hefur verið úttekt á tiltæku skerðanlegu afli, varaafli og framkvæmdar kerfisgreiningar í þeim tilgangi að meta svæðisbundna flutningskerfið á Vesturlandi. Niðurstöður greininga koma ekki vel út þar sem kerfið þolir í flestum tilfellum ekki útleysingu á Vegamótalínu 1 út frá Vatnshömrum þó svo að nóg raunaflsframleiðsla sé fyrir hendi í eyjunni. Úrbætur á kerfinu eru nauðsynlegar til að geta tryggt afhendingaröryggi og eyjakeyrslu á Snæfellsnesi. Framleiðslugeta á svæðinu er samtals tæplega 11 MW, sem skiptist í díselknúið varaafl upp á um 4,6 MW og vatnsaflvirkjanir upp á um 6,3 MW. Nýr 66 kV jarðstrengur, Grundarfjarðarlína 2 sem liggur á milli Ólafsvíkur og Grundafjarðar, verður tekinn í notkun sumarið 2019 og mun hann auka afhendingaröryggi á svæðinu. Niðurstöður kerfisgreiningar sýna að nauðsynlegt er að breyta umsetningu á straummælispennum á nokkrum stöðum, en flutningsgeta takmarkast af straummælispennum í Grundarfirði, Vogaskeiði, Vegamótum og Ólafsvík.

Uppbyggingarleiðir

Á árinu 2019 verða tekin í notkun ný tengivirki á Grundarfirði og Ólafsvík ásamt nýjum jarðstreng á milli þessara tveggja virkja, GF2. Eftir stendur að Snæfellsnes verður áfram geislatengt svæði með skert afhendingaröryggi. Til þess að bæta úr því hefur verið skoðað að bæta tengingu við meginflutningskerfið, t.d. með því að tengja saman Vogaskeið og Glerárskóga, eða með tvöföldun tengingar til Vatnshamra, en þær hugmyndir eru þó enn á frumathugunarstigi og ekki komnar á framkvæmdaáætlun Landsnets. 

Önnur möguleg leið er að bæta við varaafli á svæðinu og hefur Landsnet m.a. hafið skoðun á færanlegum varaaflseiningum til þess að bæta afhendingaröryggið tímabundið þar til tvítenging Snæfellsness fer í framkvæmd.
Endurnýjun tengivirkis á Vegamótum er á framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára en tengivirkið, sem er yfir 40 ára og í slæmu ástandi, er á endurnýjunaráætlun Landsnets. 

Vatnshamralína 2 milli Akraness og Vatnshamra er komin til ára sinna, úr sér gengin og þarfnast endurnýjunar. Hafinn er undirbúningur að því að leggja nýja línu í stað hennar og verður sú lína lögð á milli Akraness og Brennimels. Mun hún heita Akraneslína 2 og er fyrsti áfangi hennar komin á framkvæmdaáætlun Landsnets.

 

 

Vestfirðir

Svæðisbundna flutningskerfið á Vestfjörðum er 66 kV flutningskerfi sem tengir Ísafjörð, Bolungarvík, Breiðadal og Keldeyri við meginflutningskerfið. Tengipunkturinn er við Mjólkárvirkjun, en virkjunin getur séð svæðinu fyrir hluta orkuþarfar þess. Orkuframleiðsla á Vestfjörðum er ekki nægileg til að anna orkuþörf svæðisins og er heildarinnflutningar inn á svæðið frá byggðalínuhringnum í Hrútatungu. Afhendingaröryggi á Vestfjörðum hefur í gegnum tíðina verið bágborið og í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi á svæðinu byggði Landsnet 10 MW díselknúna varaaflstöð í Bolungarvík árið 2014.


 
MYND 3-17 : Einlínumynd af flutningskerfinu á Vestfjörðum

Mynd 3-17 sýnir einlínumynd af svæðisbundna flutningskerfinu á Vestfjörðum ásamt tengingu þess við meginflutningskerfið. Mjólká tengist byggðalínuhringnum í Hrútatungu um þrjár 132 kV loftlínur sem heita Glerárskógalína 1, Geiradalslína 1 og Mjólkárlína 1, sem saman eru stundum kallaðar Vesturlína. Við Mjólká tekur svo við 66 kV kerfi sem tengist annars vegar Keldeyri (við Tálknafjörð) og hins vegar Breiðadal. Á norðanverðum Vestfjörðum er svo 66 kV hringtenging á milli Breiðadals, Bolungarvíkur og Ísafjarðar.

Núverandi staða

Þó svo að flutningsgeta Vesturlínu sé langt frá því að vera fullnýtt eru til staðar flutningstakmarkanir á svæðinu. Eru þær fyrst og fremst tilkomnar vegna spennuvandamála, en vegna lágs kerfisstyrks þolir kerfið illa aukinn flutning.

 
MYND 3-18 : Aflgeta afhendingarstaða á Vestfjörðum

Mynd 3-18 sýnir útreiknaða aflgetu afhendingarstaða á Vestfjörðum. Fjólublátt ljós þýðir að hægt er bæta við afhendingu upp á 0–10 MW. Þetta þýðir þó ekki að hægt sé að bæta slíku álagi við á hverjum afhendingarstað, þar sem stærðirnar eru innbyrðis háðar. Á Vestfjörðum hefur afhendingaröryggi í sögulegu samhengi verið heldur lakara en víðast annars staðar á landinu. Til að bæta afhendingaröryggið hafa á undanförnum árum verið gerðar ýmsar endurbætur á flutnings¬kerfinu, s.s. bygging nýrrar vararafstöðvar í Bolungarvík, sem hefur bætt afhendingar¬öryggið mikið á norðanverðum Vestfjörðum. Einnig hefur Bolungarvíkurlína 2, milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar, verið endurnýjuð sem jarðstrengur og spennaafl aukið í Mjólká. Tengivirkin í Bolungarvík og á Ísafirði hafa bæði verið endurnýjuð og Ísafjarðarlína 1 hefur verið endurnýjuð að hluta sem jarðstrengur. Tálknafjarðarlína 1 frá Mjólká að Keldeyri hefur verið styrkt og endurbætt að hluta og ýmsar lagfæringar gerðar á Vesturlínu, sem hafa minnkað truflanir á línunni vegna veðurs.

Þróun álags og vinnslu

Gert er ráð fyrir aukningu á raforkunotkun á Vestfjörðum líkt og annars staðar á landinu. Ekki er gerð spá um aukningu í stórnotkun og kemur öll slík notkun ofan á fyrirliggjandi spá frá Raforkuhópi orkuspárnefndar.

Aukning á almennri notkun

Sú aukning sem Raforkuspá 2018 gerir ráð fyrir er teiknuð inn á graf sem nær fram til ársins 2050. Notkuninni er skipt niður á afhendingarstaði Landsnets.

MYND 3-19 : Álagsþróun á Vestfjörðum

Mynd 3-19 sýnir álagsþróunina á Vesturlandi samkvæmt Raforkuspá. Samkvæmt henni er heildarvöxtur svæðisins á tímabilinu í kringum 16% og er hann að mestu leyti tilkominn vegna aukningar í notkun á Ísafirði. Ekki er gert ráð fyrir að notkun muni aukast mikið á öðrum stöðum á Vestfjörðum.

Vinnsluþróun

Talsverð umræða hefur verið um virkjanir á Vestfjörðum. Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar og er hún í undirbúningi. Austurgilsvirkjun í Djúpi er einnig í nýtingarflokki í þriðja áfanga rammaáætlunar og eins hafa fleiri, smærri vatnsaflsvirkjanir í Djúpi verið í umræðunni. Landsnet hefur fundið fyrir miklum áhuga á beislun vindorku á Vestfjörðum og einnig eru uppi hugmyndir um ýmsar smávirkjanir á svæðinu. Landsnet hefur bent á það sem ákjósanlega leið til að auka afhendingaröryggi á Vestfjörðum að auka framleiðslu á svæðinu, samfara styrkingum á flutningskerfinu.

Rekstrartengdar áskoranir

Ef litið er á skerðingar á afhendingarstöðum Landsnets undafarin 10 ár, þ.e. frá 2009-2018, sést að alls hafa truflanir í kerfi Landsnets valdið skerðingum 383 sinnum á Vestfjörðum eða rúmlega 38 sinnum á ári og hefur skerðingin að meðaltali verið tæplega 300 MWh á ári. Það samsvarar um 19 klukkustundum á ári.

Flutningsgeta 66 kV lína á Vestfjörðum er nægjanleg til að flytja allt að 10 MW til viðbótar inn á svæðið en spennan fer undir leyfileg rekstrarmörk ef álagið er aukið óháð afhendingarstað. Spennuvanda-málið mætti laga að einhverju leyti með uppsetningu þéttavirkja.

Helsti flöskuháls svæðisins er sá að afhending á forgangsorku er ekki með N-1 afhendingaröryggi þar sem Vestfirðir eru geislatengdir meginflutningskerfinu um Vesturlínu. Varaaflstöð í Bolungarvík annar vel forgangsorkunotkun á norðanverðum Vestfjörðum en leysir ekki vanda í bilanatilfellum á suðurfjörðum. Eins koma varaaflstöðvar ekki í veg fyrir afhendingarrof þar sem þær þurfa að ræsa sig upp og tengjast inn á netið við Straumrof. Snjallstýringar varaaflstöðva hafa þó stytt tímann verulega sem tekur að koma rafmagni aftur á við afhendingarrof. Frekari upplýsingar um afhendingaröryggi á Vestfjörðum má finna í skýrslu Landsnets um greiningu á afhendingaröryggi í flutningskerfinu á Vestfjörðum.

Uppbyggingarleiðir

Til að auka afhendingaröryggi á sunnanverðum Vestfjörðum hafa ýmsir möguleikar verið til skoðunar. Má þar nefna tvær mögulegar hringtengingar, aðra minni sem nær til sunnanverðra Vestfjarða frá Mjólká og hins vegar stærri hring sem einnig nær til norðanverðra Vestfjarða og myndi þá tengjast við Breiðadal í norðri.

Minni hringtengingin er tenging frá Mjólká um Hrafnseyri og þaðan suður yfir Arnarfjörð til Bíldudals. Þaðan fer hún svo frá Bíldudal að Keldeyri og svo með Tálknafjarðarlínu 1 til Mjólkár. Við þessa framkvæmd verður Keldeyri ekki lengur geislatengdur afhendingarstaður frá Mjólká og við það eykst afhendingaröryggið til muna á Keldeyri.

Stærri hringtenging er ný tenging milli Keldeyrar og Breiðadals. Þá yrði kominn 66 kV hringur Mjólká-Keldeyri-Breiðidalur-Mjólká. Við þessa framkvæmd verða hvorki Breiðidalur né Keldeyri lengur geislatengdir frá Mjólká, en við það eykst afhendingaröryggið á sunnanverðum Vestfjörðum talsvert og eins fengist takmörkuð bæting á afhendingaröryggi á norðanverðum Vestfjörðum.

Annar möguleiki er að setja upp varaaflstöð á sunnanverðum Vestfjörðum sem útbúin yrði með snjallstýringum. Slíkt varaafl var sett upp í Bolungarvík árið 2015 og hefur haft mikil áhrif á afhendingaröryggi á norðanverðum Vestfjörðum.

Með nýrri snjallstýrðri varaaflstöð á Keldeyri myndir viðbragðstími á uppkeyrslu varaafls styttast verulega og afhendingaröryggi aukast til muna. Hafa þarf þó í huga að tíðni truflana breytist ekki við slíka framkvæmd en lengd skerðinga styttist verulega. Þessi framkvæmd myndi bæta afhendingaröryggið á Keldeyri og á Mjólká ef truflanir verða á Vesturlínu.

Verkefni sem snýr að styrkingum á sunnanverðum Vestfjörðum mátti finna í tillögu að framkvæmdaáætlun Landsnets fyrir árin 2019-2021, en var tekin út þegar áætlunin var lögð fyrir Orkustofnun til afgreiðslu. Ástæður þess voru meðal annars óvissa um forræði verkefnisins og hvaða viðmið skyldi ráða varðandi það hvort og þá hvar yrðu settir upp nýir afhendingarstaðir í flutningskerfinu. Reikna má með að verkefnið fari aftur á framkvæmdaáætlun þegar leyst hefur verið úr þessari óvissu.

Á framkvæmdaáætlun Landsnets má finna uppsetningu á nýjum tengipunkti í Ísafjarðardjúpi. Tengipunkturinn verður hluti af meginflutningskerfi raforku og mun tengjast með 132 kV loftlínu inn á Mjólkurlínu 1 í Kollafirði. Samkvæmt greiningum sem Landsnet hefur látið framkvæma mun afhendingaröryggi á öllum Vestfjörðum batna með tilkomu tengipunktsins, að því tilskildu að inn á hann verði tengd/ar virkjun eða virkjanir sem séu útbúnar á þann hátt að þær geti keyrt í eyjarekstri. Tengipunkturinn verður settur upp samhliða nýrri tengingu við Hvalárvirkjun sem nú er í undirbúningi með uppsett afl um 55 MW.

Í tengslum við áætlun um nýjan afhendingarstað hefur einnig verið skoðaður sá möguleiki að setja upp tengingu frá Ísafjarðardjúpi og til Ísafjarðar. Með þessari viðbótartengingu kæmi til fæðing úr tveimur áttum til norðanverðra Vestfjarða og þeir yrðu því ekki lengur geislatengdir frá Mjólká eins og nú er. Við þetta myndi afhendingaröryggið batna enn frekar á norðanverðum Vestfjörðum og tíðni truflana minnka talsvert. Þeim uppbyggingarleiðum sem hér hafa verið gerð skil er lýst í áðurnefndri skýrslu sem finna má á heimasíðu Landsnets. Í henni má finna nánari lýsingu á mögulegum uppbyggingarleiðum og niðurstöður greininga á áhrifum hverrar leiðar á afhendingaröryggi.


 

Austurland

Svæðisbundna flutningskerfið á Austurlandi samanstendur af hringtengingu á milli Hryggstekks, Eyvindarár, Eskifjarðar, Stuðla og Hryggstekks. Hluti af þessum hring, þ.e. línur á milli Hryggstekks og Eyvindarár annars vegar og Hryggstekks og Stuðla hins vegar, er rekinn á 132 kV en aðrar línur á 66 kV. Frá afhendingarstöðum í hringnum eru svo aðrir afhendingarstaðir á Austurlandi geislatengdir með 66 kV við svæðisflutningskerfið.
MYND 3-20 : Einlínumynd af flutningskerfinu á Austfjörðum
Mynd 3-20 sýnir einlínumynd af flutningskerfinu á Austfjörðum. Tengipunktur svæðisbundna flutningskerfisins við meginflutningskerfið er á Hryggstekk, en Hryggstekkur er hluti af byggðalínuhringnum og er með tengingar við Fljótsdal og Teigarhorn. Á Austurlandi er einn stórnotandi sem tengist beint við Fljótsdal og nýtir að mestu það afl sem framleitt er í Fljótsdalsstöð. Nokkur flutningur er frá Suður- og Suðvesturlandi inn á Austurland um byggðalínuna og er sá flutningur háður nokkrum þáttum, s.s. árstíðabundinni sveiflu í framleiðslu vatnsaflsvirkjana, notkun í svæðisflutningskerfinu á Austurlandi og reglubundnu viðhaldi jarðvarmavirkjana.

Núverandi staða

Mikil breyting hefur átt sér stað í raforkunotkun á Austfjörðum á undanförnum árum. Fiskimjölsverksmiðjur hafa í stórauknum mæli skipt úr olíu yfir í ótryggt rafmagn og hafa þar með meira en tvöfaldað heildarálag á svæðinu. Þetta hefur í för með sér að styrkja þarf flutningskerfið enn frekar en hefur verið gert þar sem núverandi kerfi getur illa annað núverandi álagi. Til þess að tryggja afhendingaröryggi og hámarka afköst kerfisins hefur verið komið upp snjallstýringu sem getur sjálfvirkt stýrt álagi á fiskimjölsverksmiðjur ef rekstraraðstæður í kerfinu krefjast þess.
MYND 3-21 : Aflgeta afhendingarstaða á Austurlandi
Mynd 3-21 sýnir yfirlitsmynd af aflgetu afhendingarstaða á Austurlandi. Eins og sést á myndinni er ekki hægt að auka afhendingu á neinum afhendingarstað á svæðinu. Helstu ástæður þess eru tengdar flutningstakmörkunum í meginflutningskerfinu og í svæðisbundna flutningskerfinu. Heildarinnmötunargeta inn á 66 kV kerfið frá 132 kV kerfinu er um 90 MW. Framleiðslugeta innan svæðisins er um 40 MW. Heildarálag er komið í um 125 MW og því ljóst að ekki er til staðar svigrúm til aukningar á afhendingu nema til komi styrkingar á kerfinu.

Þróun álags og vinnslu

Raforkuspá gerir ráð fyrir aukningu í almennri notkun, bæði forgangsorku og eins orku á skerðanlegum flutningi.

Aukning á almennri notkun

MYND 3-22 : Álagsþróun á Austurlandi
Mynd 3-22 sýnir væntanlega þróun hámarksálags á fjórum afhendingarstöðum Landsnets skv. Raforkuspá. Gert er ráð fyrir að heildarálag muni aukast nálægt 5 MW á tímabilinu og er stærsti hlutinn tilkominn vegna afhendingar í Neskaupstað.
MYND 3-23 : Álagsþróun á norðurhluta Austurlands 
Mynd 3-23 sýnir svo hvernig talið er að álag muni aukast í norðurhluta Austurlands. Gert er ráð fyrir nokkuð jafnri aukningu á öllum fjórum afhendingarstöðunum. 
MYND 3-24 : Álagsþróun á Suðausturlandi

Álagsþróunin á Suðausturlandi er svo sýnd á Mynd 3-24 en þar er gert ráð fyrir að notkunin aukist ekki mikið næstu árin.

Vinnsluþróun

Enginn virkjunarkostur er í nýtingarflokki rammaáætlunar á Austurlandi. Einhver umræða hefur þó verið um smávirkjanir á svæðinu og má þar t.d. nefna 6 MW vatnsaflsvirkjun í Þverá í Vopnafirði, sem nú er í umhverfismati. Að sama skapi hafa vindorkuver á Austurlandi verið nefnd, en Landsneti er ekki kunnugt um neinar ákvarðanir þar að lútandi.

Rekstrartengdar áskoranir

Á Austurlandi hafa flestar flutningslínur á 66 kV spennu, hvort sem um ræðir loftlínur eða jarðstrengi, nægjanlega flutningsgetu. Aflflutningur inn á svæðið takmarkast annars vegar af aflspennum í Eyvindará og á Stuðlum, sem samtals geta flutt að hámarki 103 MVA, og hins vegar af flutningstakmörkunum í 66 kV kerfinu á Austfjörðum en samanlagður aflflutningur um Stuðlalínu 2 og Eskifjarðarlínu 1 má að hámarki vera 79 MVA. Ef þessum takmörkunum er eytt þarf að horfa til takmarkana í meginflutningskerfinu en snið IV takmarkast við 100 MW. Staðan á byggðalínunni er þannig í dag að ekki er hægt að bæta við stærri notendum austan Blönduvirkjunar og Sigölduvirkjunar (snið IV), þar sem nú þegar er verið að skerða notendur á skerðanlegum flutningi.

Uppbyggingarleiðir

Á 10 ára áætlun um þróun meginflutningskerfisins á framkvæmdaáætlun eru kynntar nokkrar lykilfjárfestingar í meginflutningskerfinu sem ætlað er útrýma hluta af núverandi flöskuhálsum á byggðalínuhringnum. Með þessum framkvæmdum verður komin ný öflug 220 kV tenging frá Blöndu og að Fljótsdal sem mun létta á flutningstakmörkunum frá meginflutningskerfinu og inn á Austurlandskerfið. 

Spennuhækkun á Austfjarðahringnum er á framkvæmdaáætlun Landsnets. Í því felst að spennuhækka hringtenginguna Hryggstekkur-Stuðlar-Eskifjörður-Eyvindará í þeim tilgangi að auka flutningsgetu og áreiðanleika í svæðisflutningskerfinu á Austfjörðum.

Annað verkefni sem er á framkvæmdaáætlun er lagning Neskaupstaðarlínu 2, 66 kV jarðstrengs, sem er þá tvöföldun á tengingu á milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar. Í framkvæmdinni er gert ráð fyrir að strengur verði lagður frá Eskifirði út á Neskaupstað í gegnum Norðfjarðargöng, en lögð voru rör í göngin fyrir strenginn þegar þau voru byggð. Með tvöfaldri tengingu verður afhendingaröryggi í Neskaupstað bætt til muna og flutningsgeta eykst samfara öðrum styrkingum, en núverandi lína til Neskaupstaðar er á tíðum þungt lestuð þegar vinnsla í fiskimjölsverksmiðju og frystihúsi er í hámarki. Annað verkefni sem er á framkvæmdaáætlun snýr að endurbótum á Vopnafjarðarlínu 1, sem liggur á milli Lagarfoss og Vopnafjarðar. Verkefnið gengur út á að breyta línunni, sem er 66 kV háspennulína, í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi á Vopnafirði og einnig til að minnka slysahættu við rekstur og viðhald línunnar. Línan er tréstauralína og er heildarlengd rúmlega 58 km. Hún liggur meðfram Lagarfljóti og Jökulsá á Brú í Hróarstungu í átt til sjávar. Línan þverar Hellisheiði eystri, fer niður Skinnugil og upp Búrið, sem er afar torfarið og hættulegt á veturna.

Tvöföldun á tengingu til Fáskrúðsfjarðar er á frumstigi undirbúnings, en þó ekki komið á framkvæmdaáætlun ennþá. Við byggingu Fáskrúðsfjarðarganga á sínum tíma var lagður 66 kV jarðstrengur í göngin ætlaður til framtíðarstyrkinga. Núverandi tenging til Fáskrúðsfjarðar liggur frá tengivirkinu á Stuðlum í Reyðarfirði að tengivirkinu á Fáskrúðsfirði og er 66 kV loftlína sem liggur yfir Stuðlaheiði. Ef nýta á strenginn í göngunum þarf að tengja hann annars vegar frá norðurenda ganganna að tengivirkinu við Stuðla og hins vegar frá suðurenda ganganna inn á tengivirki við Fáskrúðsfjörð.