Samræmi við aðrar áætlanir

Kerfisáætlun er að mestu í samræmi við áætlanir og stefnur


Mikilvægur hluti umhverfismats er að kanna samræmi kerfisáætlunar við áætlanir og stefnur stjórnvalda (Tafla 12.2). Tekið er tillit til samræmis og/eða ósamræmis í áhrifamati, eins og kveðið er á um leiðbeiningum Skipulagsstofnunar um vægiseinkunnir.  
Þær áætlanir, sem kerfisáætlun er ekki í fullu samræmi við, eru landsskipulagsstefna og velferð til framtíðar í þeim tilfellum þar sem valkostir fara um miðhálendi og víðerni. Óvissa er um það hvort kerfisáætlun sé í fullu samræmi við samninga sem snúa að lífríki og líffræðilegum fjölbreytileika. Slíkar upplýsingar munu liggja fyrir að loknu mati á umhverfisáhrifum fyrir um einstakar framkvæmdir við uppbyggingu meginflutningskerfisins.
Dregið er fram í sértöflu hvernig kerfisáætlun og valkostir falla að stefnumörkun stjórnvalda um lagningu raflína og uppbyggingu flutningskerfis raforku (Tafla 12.1). Þessi stefnumörkun er dregin fram, þar sem hún leggur línur fyrir þær áherslur, viðmið og leiðarljós sem kerfisáætlun skal vinna eftir.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fjallað um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og styrkingar flutningskerfis raforku án þess að ráðast í línulagnir á hálendinu. Í ljósi þess að meginvalkostir um styrkingu meginflutningskerfisins fela í sér byggingu nýrra raflína, ýmist loftlína eða jarðstrengja innan skilgreindrar miðhálendislínu, þá er ákveðin óvissa um hvernig stefnumörkun ríkisstjórnar og metinna valkosta í kerfisáætlun fara saman. 
Jafnframt er forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að nýta, með sem hagkvæmustum hætti, þá orku sem þegar hefur verið virkjuð. Í þeim tilgangi þarf að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt, sem er grunnur að forsendum kerfisáætlunar.

Skilgreining á línugötum og línustæðum

 

  • Með línugötu er átt við mannvirkjabelti sem fylgir núverandi háspennulínu. Valkostir um nýja línu geta því fylgt núverandi línugötu, ef hann liggur meðfram núverandi línu, eða hann getur kallað á nýja línugötu, þ.e. mannvirkjabelti raflínu, þar sem legan er önnur en núverandi lína.
  • Með línustæði er átt við möstur og mannvirki, sem fylgja núverandi línu. Þannig skuli taka til skoðunar hvort unnt sé að spennuhækka eða auka flutningsgetu núverandi raflínu, sem getur m.a. falið í sér að fjölga leiðurum og styrkja möstur núverandi línu.
 

 

Tafla 11.1 -  Samræmi kerfisáætlunar við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og uppbyggingu flutningskerfis raforku
Tafla 11.2 -  Samræmi kerfisáætlunar við aðrar áætlanir og stefnur stjórnvalda.