Umhverfisáhrif valkosta

 

Áhrif valkosta á landslag og ásýnd

Í mati á áhrifum valkosta á landslag og ásýnd er leitast við að svara eftirfarandi matsspurningum:

 • Fer flutningskerfið um óbyggð víðerni? Hversu mikil verður rýrnunin? Hversu mikið er endurheimt? 
 • Fer flutningskerfið um miðhálendið? 
 • Fer flutningskerfi um svæði sem nýtur landslagsverndar? 
 • Fylgir flutningskerfið mannvirkjabeltum s.s. vegum og línugötum?

Grunnástand landslags

Lagt er mat á grunnástand landslags og ásýndar samkvæmt fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.3).

Tafla 7.1 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á grunnástandi landslags.

Í Íslenska landslagsverkefnisins sem unnið var vegna rammaáætlunar (Þóra Ellen Þórhallsdóttir o.fl., 2010) er landslag er flokkað, á þeim svæðum sem voru til skoðunar voru í rammaáætlun, á eftirfarandi hátt: 

 • Sandar og auðnir við jökla og há fjöll. 
 • Öldóttar, sendnar og grýttar auðnir með vatni. 
 • Þurr, grýtt og hálfgróin öræfi.
 • Urðir og úfin hraun við sjó
 • Firðir.
 • Flatar strendur og eyjar
 • Vel gróið en einsleitt láglendi og heiðar. 
 • Djúpir, vel grónir dalir
 • Fjölbreytt svæði, flest vel gróin. 

Í verkefninu er jafnframt lagt mat á fágætisgildi landslags. Þar kemur fram að landslag á láglendi myndi almennt einsleitari flokka en auðnir og öræfi. Landslagsflokkarnir þar eru umfangsminni og svæðin ólíkari innbyrðis og mætti því segja landslagið á hálendinu hafi hærra fágætisgildi. Háhitasvæði eru dreifð um landið og hafa svo sérstök einkenni og eiga ekki samleið með öðru landslagi (Mynd 7.1). Fágætisgildi háhitalandslags er því talið hátt á lands- og heimsvísu (Þóra Ellen Þórhallsdóttir o.fl., 2010).

Samkvæmt ofangreindri skilgreiningu fara valkostir A að meira leyti um landslag sem telst hafa hátt fágætisgildi en kostir B. Valkostir B fylgja mannvirkjabelti meira en kostir A og fara því meira um svæði sem þegar einkennist af mannvirkjum að nokkru leyti (Mynd 7.6). Lykilfjárfestingar, C kostur, fylgja einnig mannvirkjabelti að mestu leyti.

 
Mynd 7.1 - Háhitasvæði á Íslandi (Náttúrufræðistofnun Íslands) þar sem búast má við að landslag hafi hærra fágætisgildi en annað landslag ásamt A valkostum.

Óbyggð víðerni og önnur svæði sem nýtur landslagsverndar

Í þriðju grein laga nr. 60/2013 um náttúruvernd segir að stefna skuli að því að varðveita landslag sem sé sérstætt eða fágætt eða sérlega verðmætt vegna fagurfræðilegs og/eða menningarlegs gildis. Einnig kemur þar fram að standa eigi vörð um óbyggð víðerni landsins.

Með breyttum náttúruverndarlögum árið 2013 breyttist skilgreining víðerna. Nú heitir skilgreiningin óbyggð víðerni: „Svæði í óbyggðum sem er að jafnaði a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja og í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum.“ 

Kortlagning óbyggðra víðerna eða friðlýsing þeirra skv. 46. gr. laga um náttúruvernd liggur ekki fyrir en leiða má líkum að ný skilgreining muni ná yfir stærra svæði en ósnortin víðerni. Í tengslum við undirbúning að gerð Landsskipulagsstefnu 2015-2026 hefur umhverfisráðherra sett  fram áherslur sem lagðar verði til grundvallar við mótun stefnu um skipulag með tilliti til landslags.  Þar kemur meðal annars fram að í landsskipulagsstefnunni verði sett fram stefna og leiðbeiningar um skipulagsgerð með tilliti til landslags.  Sérstaklega verði set fram viðmið fyrir greiningu á óbyggðum víðernum. Að svo stöddu byggir Landsnet því á sömu gögnum er varðar umfang víðerna og gert var í síðustu kerfisáætlun (Skipulagsstofnun, 2019). Annarsvegar er stuðst við kortlagningu Umhverfisstofnunar á ósnortnum víðernum og hinsvegar skýrslu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði (Þorvarðar o.fl., 2017). Í skýrslu Rannsóknaseturs kemur fram að um sé að ræða tilraunaverkefni og niðurstöður þess beri að skoða í því ljósi. 

Umhverfisstofnun mat að víðerni á Íslandi, skv. eldri náttúruverndarlögum,  væri um 39 þúsund km2 árið 2009. Stærsti hluti þeirra var á miðhálendinu, eða um 24 þúsund km2. Víðerni hafa farið minnkandi á umliðnum áratugum (Skipulagsstofnun, 2015). Hins vegar hefur verið bent á að mismunandi er hversu umfangsmikil svæði þurfa að vera til að fólk upplifi þau sem víðerni eða ósnortin.

Í rannsókn Rannveigar Ólafsdóttur et al. (2016) sem gerð var fyrir 3. áfanga rammaáætlunar um viðhorf og upplifun Íslendinga á víðernum, óbyggðum og miðhálendi Íslands kemur fram að mismunandi sé hvernig fólk upplifir og skynjar víðerni. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að Íslendingar skynja hugtakið víðerni fyrst og fremst sem víðáttumikið landslag með kyrrð og ró. Óbyggðir og lítil mannleg ummerki séu það sem geri svæði að víðernum. Það sé hins vegar háð upplifun hvers og eins hvar menn telja vera mörk milli manngerðs og náttúrulegs umhverfis. Í sömu rannsókn er dregin sú ályktun að núverandi magn innviða eins og háspennulína og vega hafi ekki afgerandi áhrif á upplifun Íslendinga á víðernum, en líklegt megi telja að ef þessum mannvirkjum fjölgi þá upplifi  Íslendingar þau ekki lengur sem víðerni.  Með tilliti til þessa er í umhverfismatinu reynt að horfa til þessa þáttar við mat á gildi landslags. 

Miðhálendi Íslands

Landslag á miðhálendi Íslands býr yfir ákveðinni sérstöðu miðað við önnur landsvæði. Miðhálendið tekur yfir um 40% af flatarmáli landsins og er eitt stærsta svæði í Evrópu þar sem ekki er föst búseta (Anna Dóra Sæþórsdóttir, 2012). Meginmarkmið landsskipulagsstefnu 2015-2026 um skipulag á miðhálendi Íslands er að staðinn verði vörður um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist. Uppbygging innviða á miðhálendinu taki mið af sérstöðu þess. Auk þess skal viðhaldið sérkennum og náttúrugæðum miðhálendisins með áherslu á verndun víðerna og landslagsheilda. (Skipulagsstofnun, 2016). 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fjallað um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og styrkingar flutningskerfis raforku án þess að ráðast í línulagnir á hálendinu. 

Út frá fyrrnefnum forsendum er mikilvægi landslags þar sem A kostir fara um metið hafa hátt gildi þar sem það fer að stærri hluta um miðhálendi Íslands og landslag sem hefur hátt fágætisgildi samkvæmt skilgreiningu íslenska landslagsverkefnisins. Mikilvægi landslags við B og C kosti er metið hafa miðlungs gildi

Tafla 7.2 - Samantekt á grunnástandi landslags og ásýndar eftir valkostum

Einkenni áhrifa

Lagt er mat á einkenni áhrifa á landslag og ásýnd samkvæmt fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.3).

 

Tafla 7.- Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar á einkennum áhrifa í mati á áhrifum á landslag og ásýnd

Ef horft er til skilgreiningar í náttúruverndarlögum getur lagning loftlínu og jarðstrengs hvort tveggja haft áhrif á óbyggð víðerni en þar segir að m.a. háspennulínur og önnur tæknileg ummerki skerði víðerni. Óvissa er um að hve miklu leyti strenglögn skerðir víðerni þó svo að vel gengi að afmá ummerki eftir strenglögn því jarðstrengur kallar á mannvirki á yfirborði. Þá er ekki ljóst, og erfitt að meta, hvernig mismunandi valkostir hafa áhrif á upplifun fólks með tilliti til óbyggðra víðerna. 

Við útreikning á skerðingu valkosta er miðað við 5 km til hvorrar handar frá loftlínum og 3 km til hvorrar handar frá jarðstrengjum. Útreikningar miðast hvort tveggja við kortlagningu Umhverfisstofnunar og kortlagningu samkvæmt tillögu H.Í á Hornafirði að nýrri aðferðafræði. Niðurstöður má sjá í töflu (Tafla 7.4).

 
Tafla 7.4 - Umfang skerðingar á víðernum í ha eftir valkostum. Hæsta talan er skyggð.

Bein skerðing víðerna hefur væntanlega áhrif á upplifun fólks af þeim og þá ætti að skipta máli hveru mikil skerðingin verður. Í ljósi þess hve upplifun fólks er huglæg er mikilvægt að aflað verði slíkra upplýsinga við mat á umhverfisáhrifum stakra verkefna.

Ein matsspurning sem lagt er upp með í umhverfismatinu snýr að því hvort víðerni séu endurheimt. Til þess að það megi verða þarf að taka niður mannvirki og ekki reisa neitt í staðinn. Slíkar aðgerðir eru ekki á áætlun þar sem víðerni eru annars vegar. 

Valkostir A,  B og C fara allir um miðhálendi Íslands (Mynd 7.3 og Mynd 7.4) en landið sem fer undir mannvirkin er mismikið eftir kostum þar sem mismikið land þarf undir mismunandi útfærslur flutningskerfisins (Tafla 7.5). Lagning flutningskerfis raforku á miðhálendi Íslands í jarðstreng er nær því að vera í samræmi við markmið landsskipulagsstefnu og stefnu stjórnvalda en lagning loftlínu. 

Valkostir A.2, með jarðstreng um Sprengisand, og B.4 hafa minnstu áhrif á friðlýstum svæðum eða svæðum á náttúruminjaskrá sem eru verndaðar á grundvelli landslags. Mestu áhrifin hefur B.1 og því næst A.1 og B.2. Þar sem jarðstrengir eru metnir draga þeir úr áhrifum á landslag. Með lagningu jarðstrengja um friðlýst svæði og landslag sem viðkvæmt er fyrir sýnilegum mannvirkjum eru valkostirnir í samræmi við þriðju grein náttúruverndarlaga um varðveislu landslags.

 
Tafla 7.5 - Umfang röskunar innan afmörkun miðhálendis í ha eftir valkostum. Hæsta talan eru skyggð.

Flutningskerfi kemur til með að breyta ásýnd landslags á svæðum þar sem engin mannvirki eru til staðar. Ef horft er til landslagsflokkun samkvæmt íslenska landslagsverkefninu teljast valkostir B og C fara að meira leyti um fjölbreytt landslag, sem einkennist meðal annars af grónum dölum, fjörðum, vel grónu láglendi og heiðum. Hálendisleið valkosta A fer um einsleitar, úfnar eða sendnar auðnir og talið er hafa hærra fágætisgildi samkvæmt Íslenska Landslagsverkefninu (Þóra Ellen Þórhallsdóttir o.fl., 2010).

Á áhrifasvæði flutningskerfisins, hvort sem um er að ræða valkosti A, B eða C er landslag einnig víða mótað af athöfnum manna, s.s. þéttbýli, vegir, landbúnaðarsvæði og virkjanamannvirki (Mynd 7.5).

Talsverð óvissa er um áhrif valkosta varðandi breytinga á einkennum landslags þegar litið er til áhrifa á landsvísu. Meðal óvissuþátta eru áhrif af tvöföldun línu, þ.e. að ný lína liggur samhliða línu sem þegar er til staðar. Ein rök hníga að því að það dragi úr áhrifum að velja línuleið þar sem mannvirki sé þegar til staðar. Á hinn veginn eru færð rök fyrir því að með tilkomu nýju línunnar aukist sammögnunaráhrif mannvirkjanna. 

Ef horft er til skerðingu víðerna, fágætisgildi landslags og legu kosta innan afmörkunar miðhálendis íslands eða verndarsvæða tengt landslagi er umfang áhrifa kosta A.1, A.2 og B.1 talin mikil. Kostur B.4 er talinn hafa lítil áhrif. Umfang annarra kosta eru talin miðlungs (Tafla 7.6). Niðurstaðan er háð óvissu og fer nánari greining á áhrifum á landslag fram í mati á umhverfisáhrifum framkvæmda.

 
Tafla 7.6 - Samantekt á grunnástandi landslags og einkenni áhrifa eftir valkostum

Niðurstaða

Áhrif loftlínu á landslag og ásýnd eru metin óveruleg til mikil neikvæð. Valkostur B.4 er talinn hafa minnstu áhrif meðan valkostur A.1 er talinn hafa mestu áhrifin auk valkostar A.2 (Mynd 7.2). Jarðstrengsmöguleikar draga úr áhrifum á landslag og ásýnd en á þessu stigi er þó ekki fyllilega ljóst hvar þeir yrðu staðsettir né hversu langir þeir yrðu. Ákvarðanir um jarðstrengslagnir eru teknar á framkvæmdastigi. 

Mótvægisaðgerðir

Umhverfismatið leggur fram eftirfarandi tillögur að mótvægisaðgerðum sem verða teknar til skoðunar við frekari útfærslu framkvæmda. 

 • Hnika línu/streng hjá verndarsvæðum þar sem það er mögulegt. 
 • Vanda staðsetningu loftlína þannig að þær beri ekki við himinn. 
 • Velja form, liti og stærð mastra með nánasta umhverfi í huga. 
 • Velja möstur sem eru minna áberandi í umhverfinu. 
 • Skoða mismunandi útfærslur á viðkvæmum svæðum.
 
Mynd 7.2 - Áhrif valkosta á landslag

Þróun umhverfisþáttar án kerfisáætlunar: 

Ef Kerfisáætlun 2019-2028 kemur ekki til framkvæmda fækkar mögulegum áhrifaþáttum á víðerni og þá fyrst og fremst á miðhálendinu. Ásýnd miðhálendisins verður að mestu óbreytt. Það er þó mögulegt að virkjanaframkvæmdir, vegagerð og uppbygging í tengslum við ferðaþjónustu hafi áhrif á ásýnd hálendisins og afmörkun víðerna. Uppbygging flutningskerfis mun ávallt hafa áhrif á ásýnd og landslag, hvar sem hún fer fram. Áhrifin eru þó mismikil eftir því hvaða tækniútfærsla er valin og hvernig kerfinu er valinn staður í umhverfinu. Ef ekki verður af framkvæmdum mun ekki koma til þessara áhrifa.

 
Mynd 7.3 - Áhrifasvæði valkosta A og mörk miðhálendis. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild: Skipulagsstofnun.
Mynd 7.4 - Áhrifasvæði valkosta B og mörk miðhálendis. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild: Skipulagsstofnun
Mynd 7.5 - Áhrifasvæði valkosta A og mannvirkjabelti. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild: Landmælingar Íslands og Landsnet
Mynd 7.6 - Áhrifasvæði valkosta B og mannvirkjabelti. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild: Landmælingar Íslands og Landsnet 

 

Áhrif valkosta á jarðminjar


Matsspurningar sem hafðar eru til hliðsjónar við mat á áhrifum á jarðminjar eru eftirfarandi:

 • Fer flutningskerfið um svæði þar sem eru merkar jarðminjar?
 • Svæði sem njóta verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. (eldhraun, eldvörp, gervigígar, hraunhellar, hverir og aðrar heitar uppsprettur, virk ummyndun og útfellingar)?

Grunnástand

Lagt er mat á grunnástand jarðminja samkvæmt fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.7).
 
Tafla 7.7 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á áhrifum á jarðminjar

Flutningskerfið liggur á kafla um landsvæði sem einkennist af eldhraunum, aðallega á suðvesturhorninu, Norðausturlandi, suðvestan Vatnajökuls og á syðsta hluta Sprengisandsleiðar. Háhitasvæði á yfirborði á línuleiðum eru aðallega á Hengilsvæðin, Reykjanesi og við Kröflu. Gígar og gossprungur einkenna svæðið, einkum á suðvesturhorninu, Norðausturlandi, sunnanverðri Sprengisandsleið og suðvestan Vatnajökuls. Þar sem minna er um áhrif eldvirknarinnar eru að finna eldri jarðmyndanir sem myndast hafa við eldsumbrot undir jökli eða af völdum rofs vatns, vinda, jökla og sjávar. 

Eldhraun, eldvörp, gígar og gervigígar sem og hverir eru jarðminjar sem njóta verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Á áhrifasvæði flutningskerfisins eru friðlýst svæði, svæði á náttúruminjaskrá eða á náttúruverndaráætlun sem sum hver hafa gildi vegna sérstakra jarðmyndana. Má sem dæmi nefna Friðland að Fjallabaki og gervigíga í Þingeyjarsýslu. 

Mikilvægi jarðminja á línuleiðum valkosta A, B og C eru talin sambærileg og er mikilvægi þeirra talið hafa miðlungs gildi (Tafla 7.8).

 
Tafla 7.8 - Samantekt á grunnástandi jarðminja eftir valkostum

Einkenni áhrifa

Lagt er mat á einkenni áhrifa á jarðminjar samkvæmt fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.9). 

 
Tafla 7.9 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á áhrifum á jarðminjar

Valkostir, þar sem gert er ráð fyrir lagningu jarðstrengs og/eða nýrri loftlínu innan eldhrauns, eru líklegri til að hafa bein neikvæð áhrif á jarðminjar. Það er helst á svæðinu Blanda – Fljótsdalur og á svæðinu suðvestan Vatnajökuls sem fyrirhugaðir valkostir fara um eldhraun. Auk þess eiga allir valkostir það sameiginlegt að raflínur á Suðurnesjum hafa áhrif á eldhraun.

Áhrif valkosta A, B og C á jarðmyndanir felast fyrst og fremst í beinu raski. Beint rask við lagningu nýrrar loftlínu er að meðaltali um 9 m, beint rask vegna lagningu jarðstrengja er á bilinu 11 m – 17 m fyrir 220 kV jarðstreng og um 10 m fyrir DC strengi  (sjá umfjöllun hér)

Miðað við fyrirliggjandi gögn er talið að aðrar jarðminjar sem njóta sérstakrar verndar séu ekki innan áhrifasvæða valkosta. Í greiningu á áhrifum á jarðminjum var m.a. farið yfir skýrslu um verndun jarðminja á Íslandi (Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins, 2002) Skortur er á opinberum viðmiðum fyrir það sem teljast merkar jarðminjar. Haft var samband við Náttúrufræðistofnun Íslands við gerð Kerfisáætlunar 2018-2027 sem staðfesti að slík viðmið vantaði. 

Af valkostunum eru umfang áhrifa kosta B.1 og B.3 talið vera mikið en umfang áhrifa A.2 er talið lítið. Umfang annarra kosta er talið vera miðlungs (Tafla 7.10).

 
Tafla 7.10 - Samantekt á einkennum áhrifa á jarðminjar eftir valkostum

Niðurstaða mats á áhrifum

Sé litið til áhrifa valkosta á jarðminjar eru þau á heildina litið metin óveruleg til mikil neikvæð. Þar er fyrst og fremst litið til rasks á eldhraun sem nýtur sérstakrar verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga. Beint rask af valkostum B getur verið á bilinu 50-95 ha háð valkostum, en vegna A kosta er raskið á bilinu 35-65 ha. 

Valkostir B.1 og B.3 eru líklegastir til að hafa umfangsmestu áhrifin en A.2 þau minnstu (Mynd 7.7). Þar sem jarðstrengir eru metnir, í samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og í samræmi við landsskipulagsstefnu (2016) um jarðstrengi á miðhálendinu, eru áhrif metin sambærileg og loftlína í öllum valkostum.

 
Mynd 7.7 - Áhrif valkosta á jarðminjar

Mótvægisaðgerðir

Umhverfismatið leggur fram eftirfarandi tillögur að mótvægisaðgerðum sem verða teknar til skoðunar við frekari útfærslu framkvæmda. 

 • Hnika línu/streng hjá jarðminjum þar sem það er mögulegt.
Þróun umhverfisþáttar án kerfisáætlunar: 
Ef kerfisáætlun 2019-2028 kemur ekki til framkvæmda er líklegt að jarðminjar haldist áfram óskertar. Það er þó mögulegt að virkjunarframkvæmdir, vegagerð og uppbygging í tengslum við ferðaþjónustu eða annað hafi áhrif á jarðmyndanir.
 

 

Áhrif valkosta á vatnafar og vatnsvernd


Við mat á áhrifum valkosta á vatnafar er leitast við að svara eftirfarandi matsspurningu:

 • Fer flutningskerfið um vatnsverndarsvæði (brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði)?

Grunnástand

Lagt er mat á grunnástand vatnafars og vatnsverndar fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.11).

Tafla 7.11 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á grunnástandi vatnafars og vatnsverndar.

Áhrifasvæði áætlunar liggur helst um vatnsverndarsvæði á Norðurlandi. Þar er aðallega um að ræða fjarsvæði og grannsvæði vatnsverndar. Um grunnástand vatnafars á miðhálendi Íslands segir í tillögu að landsskipulagsstefnu 2013-2014 (Skipulagsstofnun, 2012a, bls. 43): „Neysluvatn er víðast hvar á Íslandi ríkulegt að magni og gæðum og er um 95% af drykkjarvatni ómeðhöndlað grunnvatn. Góð vatnsból eru hins vegar ekki sjálfgefin og eftir langvarandi þurrkatíð getur vatnsskortur komið fram. Fráveitur eru einn af þeim þáttum sem skapa álag á vatn, grunnvatn og yfirborðsvatn.“ Mikil úrkoma á hálendinu skilar sér um lek jarðlög til grunnvatnsins og er framlag hálendisins til neysluvatns íbúa landsins því mikilvægt. 

Samkvæmt stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands (Umhverfisstofnun, 2013b), eru vatnshlot á áhrifasvæði flutningskerfis yfirleitt ekki í hættu. Fjölmörg vötn eru á áhrifasvæði meginflutningskerfisins. Stöðuvötn eru víða um land en einkum á heiðum eins og Holtavörðuheiði og Jökulsdalsheiði. Dragár og bergvatnsár eru á mestöllu áhrifasvæðinu og má þar nefna Norðurá í Borgarfirði, Breiðdalsá og Miðfjarðará. Einnig eru stórar jökulár á svæðinu eins og Skjálfandafljót, Jökulsá á Fjöllum, Jökulsá í Fljótsdal og fjölmargar aðrar sunnan Vatnajökuls. Mikið vatnasvæði er á hálendinu vestan Vatnajökuls og eru þar stöðuvötn, tjarnir og fallvötn. 

Valkostir A, B og C liggja að mestu utan vatnsverndarsvæða (Mynd 7.9 og Mynd 7.10) og er grunnástandið metið sambærilegt milli valkosta, það er mikilvægi vatnsverndar á línuleiðum er talið hafa lágt gildi (Tafla 7.12).

 
Tafla 7.12 - Samantekt á grunnástandi vatnafars og vatnsverndar eftir valkostum

Einkenni áhrifa

Lagt er mat á einkenni áhrifa á vatnafar og vatnsvernd fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.13).

 
Tafla 7.13 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á einkennum áhrifa á vatnafar og vatnsvernd.

Helstu áhrif koma fram vegna nýbyggingu á línu um Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslur auk Suðurnesjalínu 2 sem liggja um vatnsverndarsvæði. Við Akureyri er jarðstrengur staðsettur innan vatnsverndarsvæði. Ofangreind atriði eiga við alla valkosti.

Allir valkostir fara innan við 10 ha innan grannsvæða vatnsverndar og ekki er gert ráð fyrir að þeir fyrir inn á brunnsvæði. Umfang áhrifa er talið lítið fyrir alla valkosti (Tafla 7.14). Umfang áhrifa vegna jarðstrengja er þó talið aðeins meira (án þess þó að það hafi bein áhrif á vægismatið) þar sem almennt almennt meira rask sem felur í sér meiri áhættu á mengun innan vatnsverndarsvæða.

 
Tafla 7.14 - Samantekt á einkennum áhrifa á vatnafar og vatnsvernd eftir valkostum

Niðurstaða

Áhrif eru talin sambærileg á milli valkosta og eru metin óveruleg (Mynd 7.8). Áhrif valkosta á vatnafar og vatnsvernd eru háð verklagi og hvort um sé að ræða loftlínu eða jarðstreng. Almennt er hægt segja að jarðstrengir hafi neikvæðari áhrif en loftlínur á vatnsvernd þar sem lagning þeirra felur í sér meira rask. Á þeim svæðum þar sem jarðstrengir eru metnir eru áhrif líkleg til að vera neikvæð.

 
Mynd 7.8 - Áhrif valkosta á vatnafar og vatnsvernd.

Mótvægisaðgerðir

Umhverfismatið leggur fram eftirfarandi tillögur að mótvægisaðgerðum sem verða teknar til skoðunar við frekari útfærslu framkvæmda. 

 • Huga að fjölda mastra á vatnsverndarsvæðum og mögulegri zinkmengun. Kanna þörf á sérstöku verklagi á framkvæmdatíma í samræmi við áhættugreiningu. 
Þróun umhverfisþáttar án kerfisáætlunar 
Ástand og þróun vatnafars er háð mörgum þáttum. Megin áhrif þess að kerfisáætlun 2019-2028 komi ekki til framkvæmda eru að ekki verði mannvirki nærri vatnsverndarsvæðum, vötnum og fallvötnum. Þá má draga þá ályktun að færri framkvæmdir á vatnsverndarsvæðum dragi úr mögulegu álagi eða mengunarhættu á neysluvatni.
 
Mynd 7.9 - Áhrifasvæði valkosta A og vatnsverndarsvæði. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild Umhverfisstofnun.  
Mynd 7.10 - Áhrifasvæði valkosta B og vatnsverndarsvæði. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur).  Heimild Umhverfisstofnun.   

 

Áhrif valkosta á lífríki


Við mat á áhrifum valkosta á lífríki er leitast við að svara eftirfarandi matsspurningum:

 • Svæði á náttúruverndaráætlun 2004-2008 og 2009-2013?
 • Svæði á náttúruminjaskrá: Friðlýst svæði, fólkvangar, önnur svæði á náttúruminjaskrá?
 • Svæði sem njóta verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. (birkiskógar, mýrar og flóar stærri en 2 ha, stöðuvötn stærri en 1.000 m2, sjávarfitjar og leirur)
 • Önnur lykil vistkerfi?
 • Mikilvæg fuglasvæði?
 • Ramsarsvæði?
 • Gróið land?

Grunnástand

Lagt er mat á grunnástand lífríkis samkvæmt fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.15).

Tafla 7.15 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á áhrifum á lífríki.

Mögulegt framtíðar flutningskerfi liggur um nokkur svæði á náttúruminjaskrá, náttúruverndaráætlun og friðlýst svæði. Þar eru einnig votlendi 20.000 m2 og stöðuvötn yfir 1.000 m2 og sérstæðir eða vistfræðilega mikilvægir birkiskógar, sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga. Helstu svæðin má finna á Suðvesturhorni landsins, Vesturlandi, Norðausturlandi og Suðausturlandi. Allir valkostir fara um gróið land og þar verður bein skerðing vegna framkvæmda. Fjölbreytni í gróðri er mismunandi eftir landsvæðum en fjölbreytnin er mest á Vestur-, Austur- og Suðausturlandi en minnst á hálendinu (Þóra Ellen Þórhallsdóttir o.fl., 2010). 

Fuglalíf er ríkt á því svæði sem framtíðar flutningskerfi fer um og eru nokkur svæði skilgreind sem alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (BirdLife, 2015 og vistgerðakortlagning Náttúrufræðistofnunar Íslands) ásamt tveimur Ramsarsvæðum.  Flutningsleið um miðhálendið liggur í nokkurri fjarlægð frá Þjórsárverum sem er alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Þar er m.a. eitt mesta varpland heiðagæsar á heimsvísu.

Allir valkostir liggja um Laxárvog og Laxá í Kjós, Brynjudal og Botnsdal, Varastaðaskóg og Bleiksmýrardal sem eru svæði á náttúruminjaskrá, m.a. vegna lífríkis.Gert er ráð fyrir í öllum valkostum að flutningskerfi muni liggja yfir farveg Laxár, sem tilheyrir friðlýstu svæði Mývatns og Laxár, og yfir farveg Jökulsár á Fjöllum, sem tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði og fólkvang í Glerárdal, en þessi þrjú svæði eru friðlýst m.a. vegna lífríkis. 

Fjöldi verndarsvæða lífríkis er meiri við línuleiðir B valkosta (Mynd 7.13 og Mynd 7.15). Grunnástand við B kosta er þannig metið hafa hátt mikilvægi meðan mikilvægi lífríkis við A kosta er metið miðlungs. C kostur felur í sér þær lykilfjárfestingar sem valkostir A og B eiga sameiginlegt. Grunnástand hans er metið miðlungs (Tafla 7.16).

 
Tafla 7.16 - Samantekt á grunnástandi lífríkis eftir valkostum.

Einkenni áhrifa

Lagt er mat á einkenni áhrifa á lífríki samkvæmt fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.17).

 
Tafla 7.17 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á einkennum áhrifa á lífríki.

Valkostir liggja allir um ýmis svæði þar sem lífríki nýtur einhvers konar verndar. Valkostir B skerða mun meira af verndarsvæðum en valkostir A (Mynd 7.13 og Mynd 7.16). Í mati á vægi áhrifa er litið svo á að skerðing á friðlýstum svæðum sé skilgreind sem mikil neikvæð áhrif. Samkvæmt útreikningum er mögulegt rask A kosta á friðlýst svæði um 8 ha, en rask vegna B kosta er á bilinu 8-63 ha. 

Leiðirnar fara að mjög litlu leyti um birkiskóga. Allir valkostir liggja um votlendi en mun meiri skerðing verður á votlendi miðað við valkosti B. Skerðing á votlendi telst vera neikvæð vegna verndargildis þess. Skerðing A kosta er á bilinu 22-55 ha, B kosta er 53-126 ha og C kosta er á bilinu 16 - 40. B valkostir liggja að meira leyti um vistgerðir með hátt og mjög hátt verndargildi en valkostir A (Tafla 7.18). A valkostir liggja um 55-56 vistgerðaflokka en B valkostir um 68-72, sem skýrist af því að þeir valkostir eru heldur lengri en A.

 
Tafla 7.18 - Áætlað umfang raskaðra svæða, flokkað eftir verndargildum vistgerða. Hæstu tölur eru skyggðar.

Lagning flutningskerfis getur valdið beinu raski á lífríki og þar með haft áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika þó það sé á þessu stigi háð talsverðri óvissu. Veðrun háspennumastra með galvanhúð getur valdið því að sink losni út í umhverfið og geti valdið staðbundnum skemmdum á gróðri, aðallega á mosagróðri (Efla, 2007). Það á við um alla kosti. Allir valkostir fara um gróið land og þar verður bein skerðing vegna framkvæmda. Valkostir B skerða mun meira af grónu landi en valkostir A. 

Valkostir B.1 og A.1-DC er líklegri til að raska meira landi innan alþjóðlegra mikilvægra fuglasvæða (IBA) en aðrir kostir (Mynd 7.15). A.1, A.2 og B.2 eru líklegir til að raska þeim svæðum minnst. Mestu munar um legu í Vatnajökulsþjóðgarði, sem er skilgreindur sem mikilvægt fuglasvæði, Jökuldalsheiði, Arnarvatns- og Laxárdalsheiði.  Mývatn-Laxá er einnig á alþjóðlegri votlendisskrá Ramsarsamningsins og skrá um alþjóðleg mikilvægt fuglasvæði (IBA). Háspennulínur geta skapað áflugshættu fyrir fugla og vegslóðir geta bætt aðgengi fyrir veiðimenn sem getur haft áhrif á stofnstærð. Samkvæmt erlendum rannsóknum er erfitt að ákvarða hvaða áhrif dauðsföll af völdum áflugs hafa á stofnstærðir fugla því mikill skortur er á slíkum rannsóknum. Það þykir þó liggja ljóst fyrir að stofnar sem eru stórir og í góðu jafnvægi þoli einhver afföll á meðan minni stofnar þola afföllin verr (Bevanger, 1998). Það hefur sýnt sig að tæknilegar útfærslur á flutningslínum geta skipt máli við að draga úr fugladauða. 

Landsnet hefur undanfarin fjögur ár unnið að vöktun á áflugi fugla á háspennulínur og staðið fyrir tilraunum á notkun myndavéla til vöktunar á áflugi fugla á línur. Þessar rannsóknir munu nýtast við að þróa staðlaða aðferðarfræði sem nota má við vöktun nýrra lína í rekstri í framtíðinni og þá munu niðurstöður vöktunar veita betri vitneskju um áflugshættu og áhrif raflína á stofnstærðir fugla.Landsnet mun í mati á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda meta jarðstrengskosti ef svæðin eru viðkvæm t.d. ef þau eru mikilvæg fuglasvæði og líklegt að línurnar skapi áflugshættu. 

B kostir eru taldir hafa umfangsmeiri áhrif á lífríki en A og C kostir. Valkostir A.2, A.1-J50 eru taldir hafa umfangsminni áhrifi miðað við aðra kosti, vegna styttri vegalengda og minni áflugshættu (Tafla 7.19). 

 
Tafla 7.19 - Samantekt á einkenni áhrifa á lífríki eftir valkostum

Niðurstaða

Valkostir B.1,B.3 og B.4 eru líklegir til að hafa mikil neikvæð áhrif á lífríki en A.2 óveruleg. Aðrir valkostir eru taldir hafa nokkuð neikvæð áhrif (Mynd 7.11). Þar sem jarðstrengir eru metnir eru áhrif talin sambærileg og loftlínu.
 
Mynd 7.11 - Áhrif valkosta á lífríki.

Mótvægisaðgerðir 

Umhverfismatið leggur fram eftirfarandi tillögur að mótvægisaðgerðum sem verða teknar til skoðunar við frekari útfærslu framkvæmda: 

 • Hnika línu/streng hjá verndarsvæðum þar sem það er mögulegt. 
 • Staðsetja línur utan þéttra fuglasvæða/skoða hæð leiðara/skoða mögulega jarðstrengskosti. 
 • Huga að möguleikum og tækifærum í endurheimt gróðurlenda, m.a. í samræmi við lög nr. 17/1965 um landgræðslu, lög nr. 3/1955 um skógrækt og lög um náttúruvernd nr. 60/2013.
Þróun umhverfisþáttar án kerfisáætlunar 
Líkleg þróun lífríks er háð mörgum þáttum og erfitt er að draga fram hver áhrif yrðu á þróunina án kerfisáætlunar 2019-2028. Hins vegar er unnt að draga þá ályktun að líklegra sé að náttúran þróist á eigin forsendum þar sem ekki verði af framkvæmdum. 
 
Mynd 7.12 - Áhrifasvæði valkosta A og náttúruverndarsvæði. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild Umhverfisstofnun
Mynd 7.13 - Áhrifasvæði valkosta B og náttúruverndarsvæði. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild Umhverfisstofnun
Mynd 7.14 - Áhrifasvæði valkosta A og ýmis verndarsvæði. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild: NÍ, Skógræktin, Ramsar database, Nytjaland og Umhverfisstofnun
Mynd 7.15 - Áhrifasvæði valkosta B og ýmis verndarsvæði. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild: NÍ, Skógræktin, Ramsar database, Nytjaland og Umhverfisstofnun
Mynd 7.16 - Áhrifasvæði valkosta A og svæði sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur).
Mynd 7.17 - Áhrifasvæði valkosta B og svæði sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). 

 

Áhrif valkosta á menningarminjar


Eftirfarandi matsspurningar eru hafðar til hliðsjónar í mati á áhrifum valkosta á menningarminjar:

 • Fer flutningskerfið um svæði þar sem vitað er um fornleifar?

Grunnástand

Samkvæmt lögum nr. 80/2012, 1. gr. teljast menningarminjar ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornminjar, menningar- og búsetulandslag, kirkjugripir og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og bátar, samgöngutæki, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Lögin ná einnig til staða sem tengjast menningarsögu.

Fornleifar eru hins vegar hvers kyns mannvistarleifar á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri. Fornleifar njóta friðunar nema annað sé ákveðið af Minjastofnun Íslands. Samkvæmt lögum nr. 80/2012, 1. gr. teljast menningarminjar ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornminjar, menningar- og búsetulandslag.Lögin ná einnig til staða sem tengjast menningarsögu. 

Af ofangreindu má sjá að fornleifar eru aðeins hluti þess sem telst til menningarminja og að sé farið eftir þessari skilgreiningu eru menningarminjar víða. 

Niðurstaða

Útbreiðsla menningarminja hefur ekki verið kortlögð. Þær fornleifar sem hafa verið skráðar hafa ekki verið færðar inn í Minjasjá Minjastofnunar Íslands (www.map.is/minjastofnun) nema að takmörkuðu leyti og stendur sú vinna yfir. Það má hins vegar álykta það að þar sem byggð og landnýting eða atvinnustarfsemi hefur verið sé menningarminja að vænta. Á það við um svo til allt það svæði sem valkostir flutningskerfis fara um, en þó síst á  miðhálendinu. 

Það getur gefið villandi mynd að nota framangreind gögn þar sem þau gefa aðeins til kynna lágmarksáhrif á fornleifar og ekki hægt að bera saman áhrif valkosta. Óvissa er því um áhrif áætlunarinnar á menningarminjar.

Fornleifar verða skráðar þar sem þess er þörf í framkvæmdamati og mat lagt á áhrif viðkomandi framkvæmdar.

 
Mynd 7.18 - Skjáskot af korti úr Minjasjá Minjastofnunar Íslands. 

Mótvægisaðgerðir 

Umhverfismatið leggur fram eftirfarandi tillögur að mótvægisaðgerðum sem verða teknar til skoðunar við frekari útfærslu framkvæmda. 

 • Lega raflína verði ákveðin í samræmi við frekari rannsóknir og kortlagningu fornleifa.
Þróun umhverfisþáttar án kerfisáætlunar 
Draga má almennt þá ályktun að minni hætta sé á að menningarminjar raskist ef ekki verði af kerfisáætlun 2019-2028.

 

Áhrif valkosta á loftslag


Eftirfarandi matsspurningar eru hafðar til hliðsjónar í mati á áhrifum valkosta á loftslag:

 • Hvaða áhrif hefur uppbygging flutningskerfisins á losun gróðurhúsalofttegunda?
 • Hver eru möguleg áhrif af rekstri kerfis á losun gróðurhúsalofttegunda?
 • Hvaða áhrif hefur uppbygging flutningskerfisins á aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum?

Grunnástand

Hlýnun loftslags, gróðurhúsaáhrifin með tilheyrandi loftslagsbreytingumer hnattrænn vandi. Aðgerðir á Íslandi sem auka á losun gróðurhúsalofttegunda eru því á heimsvísu en ekki staðbundin. og hefur íslenska ríkið ásamt alþjóðasamfélaginu tekið á sig skuldbindingar til að draga úr losun þessara lofttegunda á næstu árum. 

Árið 1990 var losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 3.500 Gg koldíoxíð ígildi og árið 2014 var losunin 4.597 Gg koldíoxíð ígildi sem er 26,5 % aukning (Umhverfisstofnun, 2016). Iðnaður á stærstan hluta í losun gróðurhúsalofttegunda, því næst orkauvinnsla, landbúnaður, úrgangur og fleira. Árið 2016 hafði losun hins vegar dregist saman frá árinu 2008 um 11%, einkum vegna betri framleiðslustýringar í álverum og samdráttar í hagkerfinu. Ekki eru komnar upplýsingar fyrir árið 2017 eða 2018.

Landsnet lét gera visterilsgreiningu á flutningskerfinu (Efla Verkfræðistofa, 2018). Kolefnisspor flutningskerfisins er 0,87 g CO2-ígildi/kWst þegar endurvinnslan er tekin með í reikninginn, eða 0,94 g CO2-ígildi/kWst án endurvinnslu. Miðað er við 60 ára líftíma kerfisins, að meðtalinni endurnýjun á líftímanum. 

Samkvæmt niðurstöðum greiningarinnar veldur orkutap á rekstrartíma tæplega helmingi áhrifanna eða samanlagt 46%. SF6 leki í tengivirkjum myndar um 15% kolefnissporsins. Af þeim byggingarhlutum sem mynda flutningskerfið hafa leiðarar stærstu hlutdeild í kolefnissporinu eða 13%. Aðrir byggingarhlutar sem valda töluverðum hluta heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda eru möstur (7%) og tengivirki (6%). Með endurvinnslu á stáli í möstrum og áli í leiðurum í lok líftíma má minnka kolefnisspor um 8% miðað við forsendur þessarar greiningar.

Skógrækt, endurheimt votlendis og landgræðsla stuðla að bindingu koldíoxíðs og getur vegið upp á móti losuninni. 

Markmið Landsnets í loftslagsmálum til ársins 2019 fela m.a. í sér að losun SF6 gass verði að hámarki 90 kg á ári, sem samsvarar 2.052 tonnum CO2- ígilda og að leki af búnaði verði ekki meiri en 0,3%. Sé þetta markmið framreiknað til 60 ára líftíma kerfisins er hámarkslosun SF6 gass 123 Gg CO2 ígilda. Munur eftir mismunandi valkostum er óverulegur. 

Niðurstaða

Í kjölfar athugasemda á kynningartíma Kerfisáætlunar 2019-2028 og umhverfisskýrslu var kolefnisspor valkosta A og B endurreiknað og bætt inn valkosti C (Efla, 2019). Niðurstöðurnar sýna heildar kolefnisspor, án þess að búið sé að draga frá ávinning vegna endurvinnslu málma (Mynd 7.19. Kolefnasporið er þá á bilinu 76 - 181 Gg CO2 ígildi fyrir framleiðslu og byggingu mannvirkja að viðbættri losun SF6 gass. Til samanburðar var losun frá samgöngum á landi árið 2016 um 923 Gg (Umhverfisstofnun, 2018).

Valkostur C hefur lægra kolefnisspor en aðrir valkostir þar sem aðeins er um að ræða þær framkvæmdir sem A og B eiga sameiginlega. Þegar valkostir A og B eru bornir saman er kolefnisspor valkosta A.1, A.2 og B.2 er marktækt lægra samkvæmt niðurstöðum Eflu. Það sem mestu ræður um stærð kolefnissporsins í öllum valkostum nema A.1-DC er öflun hráefna og framleiðsla leiðara í loftlínu og mastra. Í valkosti A.1-DC er það framleiðsla DC strengsins sem er stærsti hluti kolefnissporsins. Valkostir B eru talsvert lengri en A, í km talið, og fer þar af leiðandi meira efni í þá kosti, sem aftur leiðir til stærra kolefnisspors. C kostur felur í sér þær lykilfjárfestingar sem eru sameiginlegar í A og B kostum.

 

Mynd 7.19 - Kolefnisspor framleiðslu og bygginga mannvirkja valkosta A, B og C

Samkvæmt niðurstöðum Eflu er að kolefnisspor valkosta A.1, A.2 og B.2 er marktækt lægra. Það sem mestu ræður um stærð kolefnissporsins í öllum valkostum nema A.1-DC er öflun hráefna og framleiðsla leiðara í loftlínu og mastra. Í valkosti A.1-DC er það framleiðsla DC strengsins sem er stærsti hluti kolefnissporsins. Valkostir B eru talsvert lengri en A, í km talið, og fer þar af leiðandi meira efni í þá kosti, sem aftur leiðir til stærra kolefnisspors. C kostur felur í sér þær lykilfjárfestingar sem eru sameiginlegar í A og B kostum.

Uppbygging flutningskerfis mun líklega hafa í för með sér aukna notkun á SF6 gasi, sem er notað sem neistavari í rafbúnaði. Tengivirki geta ýmist verið lofteinangruð eða gaseinangruð. Það ræðst m.a af staðsetningu og kerfislegum forsendum hvor gerð tengivirkja er valin og liggur það fyrir þegar nær dregur framkvæmdum. Líklegt er að í einhverjum tilvikum verði gaseinangruð tengivirki fyrir valinu, sem nú byggja á notkun á SF6 gasi. 

Valkostir munu allir raska votlendi sem leiðir til losunar gróðurhúsalofttegunda. Valkostir B valda meira raski á votlendi en valkostir A. Ekki liggja fyrir forsendur til þess að reikna losun frá votlendi þar sem aðstæður eru mjög mismunandi.

Valkostir A, B og C eru taldir hafa sambærileg áhrif á loftslag og eru áhrif metin óveruleg.

Mótvægisaðgerðir

Umhverfismatið leggur fram eftirfarandi tillögur að mótvægisaðgerðum sem verða teknar til skoðunar við frekari útfærslu framkvæmda. 

 • Í framkvæmdamati verður hugað að endurheimt vot- og skóglendis og landgræðslu þar sem það á við.
Þróun umhverfisþáttar án kerfisáætlunar 
Flutningskerfið og rekstur þess hefur óveruleg áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Líkleg þróun losunar gróðurhúsalofttegunda án kerfisáætlunar 2019-2028 eru því fyrst og fremst óbein. Þannig getur losun aukist ef afhending raforku er ekki tryggð og nota verður jarðefnaeldsneyti í staðinn. Þetta á til að mynda við um fiskimjölsverksmiðjur og varaaflstöðvar. Einnig kann losun að aukast ef ráðist þarf í fleiri virkjanir til að vinna gegn flutningstapi í kerfinu. Án styrkingar kerfisins er ólíklegt að orku.
 

 

Áhrif valkosta á landnýtingu


Í mat á áhrifum valkosta á landnýtingu er leitast við að svara eftirfarandi matsspurningum:

 • Fer meira land undir flutningskerfi og öryggissvæði/helgunarsvæði þess en nú er?
 • Mun flutningskerfið fara um ræktað land?

Grunnástand

Lagt er mat á grunnástand landnýtingar samkvæmt fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.20Tafla 7.7). 

Tafla 7.20 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á grunnástand landnýtingar

Með uppbyggingu meginflutningskerfisins eykst flatarmál þess lands sem fer undir helgunarsvæði raflína frá því sem nú er. Allt land er auðlind og því er mikilvægt að líta til þess hversu mikið land fer undir mannvirkjagerð vegna flutningskerfis raforku. Hagsmunir raforkuflutninga og landbúnaðar kunna að fara saman en umfang helgunarsvæða getur sett nýtingu lands ákveðnar takmarkanir. 

Með ræktuðu landi er átt við tún og akra, skógrækt og landgræðslu og er matið byggt á landfræðilegum upplýsingagögnum. Í umhverfisskýrslu tillögu að landsskipulagsstefnu 2013-2024 (Skipulagsstofnun 2012a, bls. 60) kemur fram að flatarmál lands sem er notað til túnræktar og akuryrkju, er 1.200-1.280 km2. Talsverð óvissa sé um hversu mikið land sé ræktanlegt en áætlað er að það geti verið um 6.000 km2 .

B kostir fylgja meira ræktuðu landi og svæðum sem eru viðkvæm vegna gróðureyðingar en A kostir. C kostur fylgir einnig ræktuðu landi en fer að sambærilegu leyti um land sem er viðkvæmt fyrir gróðureyðingu og A kostur. Mikilvægi landnýtingar við B kosti hafa miðlungs gildi meðan hún er talin hafa lágt gildi við A og C kosti (Tafla 7.21).

 
Tafla 7.21 - Samantekt á grunnástandi landnýtingar og einkenni áhrifa eftir valkostum

Einkenni áhrifa

Lagt er mat á einkenni áhrifa á landnýtingu samkvæmt fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.22). 

Tafla 7.22 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á einkennum áhrifa á landnýtingu.

Almennt hafa jarðstrengir í för með sér meira rask en loftlína (Tafla 5.2). Byggðaleið, B kostir, fara meira um svæði sem eru viðkæm vegna jarðvegseyðingar og þar sem rof telst vera mikið eða mjög mikið Áhrif koma helst fram á suðurlandi og þar sem kostir fara inn á miðhálendið. 

Aukið umfang helgunarsvæða frá núverandi ástandi er mismikið eftir valkostum. Almennt gildir að óleyfilegt er að staðsetja hvers konar byggingar innan helgunarsvæða. Ýmis starfsemi er þó heimil innan helgunarsvæðis loftlínu, svo sem túnrækt, lágvaxin skógrækt, geymslusvæði, samgöngumannvirki o.fl. Á helgunarsvæðum jarðstrengja má ekki byggja og flest allur trjágróður er bannaður þar sem rótarkerfið getur skaðað strengina.

 
Tafla 7.23 - Stækkun helgunarsvæða m.v. núverandi flutningskerfi. Helgunarsvæði getur verið breytilegt eftir aðstæðum og því er helgunarsvæðið sýnt á ákveðnu bili.
Umfang rasks vegna valkosts B.1 er metið miðlungs en hjá öðrum valkostum er umfang metið lítið (Tafla 7.24).
Tafla 7.24 - Samantekt á einkennum áhrifa á landnýtingu eftir valkostum

Niðurstaða

Valkostir eru líklegir til að hafa óveruleg til neikvæð áhrif á landnýtingu. Valkostir A.1-J50 og B.1 eru líklegir til að hafa neikvæð áhrif á landnýtingu.

 
Mynd 7.20 - Áhrif valkosta á landnýtingu.

Mótvægisaðgerðir:

Umhverfismatið leggur fram eftirfarandi tillögur að mótvægisaðgerðum sem verða teknar til skoðunar við frekari útfærslu framkvæmda. 

 • Skoða leiðir til að draga úr raski á ræktuðu landi og svæðum sem teljast viðkvæm vegna jarðvegseyðingar.
 • Í framkvæmdamati verður hugað að vöktun og/eða uppgræðslu lands þar sem það á við.

Þróun umhverfisþáttar án kerfisáætlunar 

Ef ekki verður af kerfisáætlun mun landnýting s.s. ræktað land, skógrækt og landgræðsla ekki verða fyrir skerðingu vegna flutningskerfisins og þróast óháð uppbyggingu meginflutningskerfisins.

 
Mynd 7.21 - Áhrifasvæði valkosta A og jarðvegseyðing, ræktað land og ræktað skóglendi. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild: Landgræðslan, Skógræktin og Nytjaland.
Mynd 7.22 - Áhrifasvæði valkosta B og jarðvegseyðing, ræktað land og ræktað skóglendi. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild: Landgræðslan, Skógræktin og Nytjaland. 

 

Áhrif valkosta á heilsu


Leitast er við að svara eftirfarandi matsspurningu í mati á áhrifum valkosta á heilsu:

 • Mun flutningskerfið fara nærri þéttbýli? Er líklegt að það hafi áhrif á rafsegulsvið og hávaða nærri byggð og útivistarsvæðum?

Grunnástand

Hljóð frá háspennulínum getur haft truflandi áhrif á íbúa eða aðra þá sem dvelja langdvölum í návígi við háspennulínur. Hljóðið stafar annars vegar af vindgnauði þegar vindur stendur þvert á mannvirkin og hins vegar af rafrænum uppruna. Hljóð af rafrænum uppruna er í formi lágtíðnitóns og braks og bresta, einkum af hærri spennu og í blautu veðri en minnstur hávaði er í þurru veðri. 

Samkvæmt strangasta skilyrði reglugerðar nr. 724/2008 má hávaði frá atvinnustarfsemi ekki fara yfir 40 dB(A) við íbúðarhúsnæði á kvöldin og um helgar, og hávaði við frístundabyggð skal aldrei fara yfir 35 dB(A). Við mat á grunnástandi hljóðvistar við línuleiðir kerfisáætlunar verður að líta til spennustigs núverandi háspennulína, nálægðar við íbúðarhús, frístundabyggð og útivistarsvæði. Einnig verður að líta til þess hvort aðrir hávaðavaldar séu til staðar í umhverfinu. 

Valkostir fara að stærstum hluta um svæði sem mætti teljast kyrrlát svæði. B kostir fylgja frekar mannvirkjabelti en A kostir þar sem búast má öðrum hávaðavöldum, til að mynda umferð.

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar undanfarin 40 ár á áhrifum rafsegulsviðs á heilsu fólks. Niðurstöður rannsókna hafa verið misvísandi og af því tilefni lét WHO rýna fyrirliggjandi rannsóknarniðurstöður (Michael Repacholi, 2012). Niðurstöður rýninnar voru þær að fyrirliggjandi gögn staðfesti ekki tilvist heilsufarslegra vandamála sem eru til komin vegna lágtíðni rafsegulsviðs háspennulína undir viðmiðunarmörkum ICNIRP gagnvart almenningi (International Commission on Non-Ionizing Radiation Protection) (WHO, 2015). 

Rafsegulsvið við mörk byggingarbanns núverandi lína á Íslandi er almennt vel undir viðmiðunarmörkum (Jón Bergmundsson o.fl. 2009).

Niðurstaða

Áhrif valkosta A, B og C á heilsu eru metin óveruleg neikvæð. Valkostirnir liggja ekki það nálægt byggð að hljóð frá flutningslínum geti skapað óþægindi en þar sem leiðirnar fara um útivistarsvæði er óhjákvæmilegt að suð heyrist við vissar aðstæður, ef um loftlínur er að ræða. 

Að sama skapi er ekki líklegt að áhrifa rafsegulsviðs gæti á heilsu fólks. Engin af þeim fjölmörgu rannsóknum sem gerðar hafa verið hefur sýnt fram á samband milli rafsegulsviðs og heilsufars manna og dýra (Efla verkfræðistofa, 2017). Miðað er við að áhrifasvæði rafsegulsviðs sé 42,5 m til hvorrar handar frá línustæði (Jón Bergmundsson, Ragnar Kristjánsson, & Árni Guðni Einarsson, 2009).

 

 

Áhrif valkosta á atvinnuuppbygging, aðra en ferðaþjónusta


Í mati á áhrifum valkosta á atvinnuuppbyggingu er leitast við að svara eftirfarandi matsspurningum:

 • Fellur flutningskerfið að áformum um atvinnuuppbyggingu í landshluta?
 • Takmarkar flutningskerfið möguleika til atvinnuuppbyggingar?

Grunnástand

Lagt er mat á grunnástand atvinnuuppbyggingar samkvæmt fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.25). 

 
Tafla 7.25 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á grunnástandi atvinnuuppbyggingar
Samkvæmt greiningu á stöðu flutningskerfisins kemur fram að núverandi byggðalína er fulllestuð. Víða er ekki hægt að bæta við álagi á afhendingarstöðum (Mynd 7.24). Ef litið er til umfangsmestu áforma sveitarfélaga um uppbyggingu, skv. skipulagsáætlunum þeirra (Mynd 7.23) er ljóst að þau fara ekki saman við núverandi stöðu flutningskerfisins. Samkvæmt núverandi ástandi er því ólíklegt að atvinnuuppbygging geti verið skv. áformum sveitarfélaga. Í greinargerð Skipulagsstofnunar um stöðu og þróun skipulagsmála er birt yfirlit um skipulögð athafna- og iðnaðarsvæði á Íslandi. Niðurstaða þeirrar úttektar er að slík svæði ná yfir tugi hektara eða meira þar sem ekki er um tæmandi upptalningu að ræða. Víða í skipulagsáætlunum eru birtar stærðir atvinnusvæða, en ekki alls staðar og auk þess sem ekki er ávallt gerð grein fyrir svæðum sem eru minni en 5 ha (Skipulagsstofnun, 2012b). VSÓ Ráðgjöf hefur farið yfir allar skipulagsáætlanir og skráð niður stærðir athafna- og iðnaðarsvæða í landshlutum, þar sem gert er ráð fyrir þess háttar atvinnustarfsemi (Tafla 9.1).

Tafla 7.26 - Yfirlit um stærðir iðnaðar- og athafnasvæða í aðalskipulagsáætlunum sveitarfélaga. Heimild: (VSÓ Ráðgjöf, 2017)

Það er mismunandi eftir valkostum um hversu mikið þeir fara um svæði þar sem eftirspurn er eftir raforku og núverandi kerfi annar illa notkun. Mikilvægi grunnástand allra kosta er metið hafa hátt gildi (Tafla 7.27), þar sem áhersla er lögð á atvinnuþróun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins, byggðaáætlun 2018-2024 og í aðalskipulagsáætlunum sveitarfélaga.
Tafla 7.27 - Samantekt á grunnástandi á atvinnuuppbyggingu eftir valkostum

Einkenni áhrifa

Lagt er mat á einkenni áhrifa á atvinnuuppbyggingu samkvæmt fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.25). 

 
Tafla 7.28 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á áhrifum á atvinnuuppbyggingu
Mynd 7.23 - Yfirlit um umfangsmestu áform um atvinnuuppbyggingu skv. aðalskipulagsáætlunum
Valkostir A og B falla að áformum um atvinnuuppbyggingu í viðkomandi landshlutum, sem felast að mestu leyti í iðjuverum, gagnaverum og orkuöflun. Við rýni á áformum um skipulag athafna- og iðnaðarsvæða sveitarfélaga eru stærstu áformin á Suðvesturhorninu, Norðurlandi og Norðurlandi eystra (Mynd 7.23). Það verður að teljast líklegt að þörf er á styrkingu flutningskerfisins til að þessi áform sveitarfélaganna um atvinnuuppbyggingu gangi eftir. Með styrkingu kerfisins á næstu tíu árum, þ.e. C kostur, eykst afhendingargeta verulega á flestum stöðum á landinu (Mynd 7.24). Jákvæðustu áhrifin eru þó staðbundnari en yrði raunin með valkostum A og B, en áhrif þeirra verða á landsvísu. 
Mynd 7.24 - Staða flutningskerfisins og möguleikar til að bæta við álagi á afhendingarstöðum. Heimild: (Landsnet, 2018) 

Mynd 7.25 - Aflgeta afhendingarstaða í lok tímabils áætlunarinnar skv. 5.1.1 kafla kerfisáætlunar 2019-2028

Við mat á áhrifum á atvinnuuppbyggingu var horft til þess hver stöðugleiki, sveigjanleiki orkuafhendingar og aukinn flutningur yrði. Tryggt afhendingaröryggi er mikilvægt fyrir núverandi atvinnustarfsemi og möguleika til að laða að nýja starfsemi. 

Af A kostum er umfang áhrifa talin mikil fyrir flesta kosti en umfang A.2 er metið miðlungs. A B kostum eru umfang áhrifa metin miðlungs fyrir flesta kosti en umfang B.3 er talið mikið (Tafla 7.29). 

 
Tafla 7.29 - Samantekt á einkenni áhrifa á atvinnuuppbyggingu eftir valkostum

Niðurstaða

Valkostir eru líklegir til að hafa miðlungs jákvæð til mikil jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu (Mynd 7.26). Flestir A og B kostir hafi mikil jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu á landsvísu, þar sem þeir tengjast vel flestum landshlutum og bæta verulega aðgengi að raforku og afhendingaröryggi hennar. C kostur er talinn hafa miðlungs jákvæð áhrif á landsvísu, ásamt B2 og A2, þar sem þessir kostir hafa staðbundnari jákvæð áhrif.

 
Mynd 7.26 - Áhrif valkosta á atvinnuuppbyggingu, aðra en ferðaþjónustu.

Þróun umhverfisþáttar án kerfisáætlunar 

Mikilvægt er að tryggja afhendingaröryggi raforku til núverandi viðskiptavina og er styrking meginflutningskerfisins liður í því. Ef ekki verður af þeirri framkvæmd er afhendingaröryggi stofnað í hættu og getur það haft áhrif á atvinnustarfsemi og samfélag.

 

 

Áhrif valkosta á ferðaþjónustu sem atvinnugrein


Við mat á áhrifum valkosta á ferðaþjónustu er leitast við að svara eftirfarandi matsspurningum:

 • Mun flutningskerfið fara nálægt vinsælum ferðamannaleiðum og –stöðum? Stöðum með miðlungs aðdráttarafl eða sérlega áhugaverðir?
 • Er flutningskerfið líklegt til að hafa áhrif á ferðamenn og ferðaþjónustu?

Grunnástand

Lagt er mat á grunnástand ferðaþjónustu samkvæmt fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.30). 

 
Tafla 7.30 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á grunnástandi ferðaþjónustar
Ferðamannastraumur til Íslands hefur farið hraðvaxandi undanfarin ár. Erlendum ferðamönnum fjölgaði úr 303.000 árið 2000 í 2.224.000 árið 2017, (Ferðamálastofa, 2018). Ferðamálastofa gerir reglulega kannanir á því hvaða viðkomustaðir erlendra og innlendra ferðamanna á Íslandi eru vinsælastir (Tafla 7.31).
Tafla 7.31 - Svæði sem ferðamenn heimsóttu sumarið 2017. Áætlaður fjöldi (Ferðamálastofa, 2018).
Byggt á ofangreindri töflu kemur fram að meirihluti ferðamanna hefur viðdvöl á Suðurlandi en mun færri á hálendið þar sem valkostir A liggja (Ferðamálastofa, 2017). Valkostir B liggja um Suðurland sem er fjölfarið af ferðamönnum. Allir kostir fara um SV-land, þar sem eru fjölmargir ferðamannastaðir, og um Norðurland sem er ekki eins fjölsótt og Suðurlandið. Um 29, 6 erlendra ferðamanna heimsækja hálendið. Tafla 7.32 sýnir þá staði innan hálendisins, sem mest voru sóttir af erlendum ferðamönnum það sumar (Ferðamálastofa, 2018).
Tafla 7.32 - Fjölsóttustu staðir á hálendinu sumarið 2017 (Ferðamálastofa, 2018). Tölurnar tákna hlutfall af heild svarenda

Samkvæmt kortlagningu Ferðamálastofu (2016) eru fleiri ferðamannastaðir taldir vera innan 5 km við B kosti, á bilinu 66-91 meðan fjöldi staða við A kosti eru um 66-69 talsins.

Svarendur í sumarkönnun meðal erlendra ferðamanna 2016, sem unnin var af Maskínu fyrir Ferðamálastofu (Maskína, 2016), nefndu fjölmarga þætti þegar þeir voru inntir eftir því hvaðan hugmyndin að Íslandsferð hefði komið. Flestir, eða 57,8%, nefndu almennan áhuga á náttúrunni og landinu. Þeir, sem nefndu náttúruna sem áhrifavald fyrir Íslandsför, voru spurðir um hvað það væri við náttúruna sem heillaði. 

Eftirfarandi þættir voru oftast nefndir (Maskína, 2016):

 • Fegurð/óspillt/ósnert/náttúra/landslag/óbyggðir 48,6% 
 • Eldfjöll/hraun 31,8% 
 • Sérstaða/frábrugðið/fjölbreytni 24,4% 
 • Jöklar 17,5% 
 • Fossar 16,0% 
 • Jarðfræðisaga/jarðfræði/jarðeðlisfræði 13,7%
 • Jarðhiti/hverasvæði 11,2% 
 • Goshverir 8,0% 

Nýleg rannsókn hefur leitt í ljós að opinbert kynningarefni ferðaþjónustu á Íslandi sýnir í meirihluta tilfella náttúru þar sem fólk eða mannvirki (áhrif manna) eru ekki sýnileg (Dennis Hermans, 2016). Það kynningarefni er þó ekki bundið við miðhálendi Íslands. 

Í viðhorfskönnunum hefur komið fram að ferðamenn eru andvígir því að fá rafmagnslínur á miðhálendið (Verkefnisstjórn rammaáætlunar, 2016). Það kann því að vera að uppbygging meginflutningskerfis hafi neikvæð áhrif á miðhálendi Íslands sem markaðsvöru/ímynd Íslands en það er þó háð óvissu eins og lesa má í lokaskýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar á bls. 73 

„Sú staðreynd að yfir 90% ferðamanna á ýmsum náttúruskoðunarstöðum hér á landi telja víðerni vera hluta af aðdráttarafli staðarins sýnir að ferðamenn á Íslandi sjá það sem þeir vilja sjá og búa til og viðhalda í hugum sér ímyndinni um lítt spillta náttúru á Íslandi og víðerni. Þessi félagslega smíð um náttúru Íslands endurspeglar hvernig víðerni eru að mörgu leyti huglæg nálgun en ekki hlutlægur raunveruleiki. Þetta er hugmynd sem ferðaþjónustan viðheldur ásamt ferðamönnunum sjálfum.“ (Verkefnisstjórn rammaáætlunar, 2016). 

A kostir fara að meiru leyti um miðhálendi Íslands sem í augun margra stendur fyrir ósnortna náttúru Íslands. Mikilvægi A kosta er metið hafa hátt gildi og mikilvægi grunnástands við B og C kosti er metið hafa miðlungs gildi (Tafla 7.33).

 
Tafla 7.33 - Samantekt á grunnástandi á ferðaþjónustu eftir valkostum.

Einkenni áhrifa

Lagt er mat á einkenni áhrifa á ferðaþjónustu samkvæmt fyrirfram gefnum matsþáttum (Tafla 7.34). 

 
Tafla 7.34 - Matsþættir sem lagðir eru til grundvallar mati á einkenni áhrifa á ferðaþjónustu

Valkostir B og C fara að minna leyti um miðhálendi Íslands en A kostir, en en skera það þó að Fjallabaki og á Norðausturlandi (Möðrudalsöræfi) og B.1 og B.2 fara um miðhálendið á Norðvesturlandi. Á Norðausturlandi eru mannvirki fyrir en ekki á Norðvesturlandi.

Valkostir A kunna að hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustu sem atvinnugrein að því leyti að verið er að fara með mannvirki inn á miðhálendi. Jarðstrengir draga úr sýnileika mannvirkjanna og geta að því leyti dregið úr beinum áhrifum. Það kann því bæði að skipta máli hvernig staðið yrði að útfærslu framkvæmdarinnar sem og kynningu hennar hvernig hún myndi ríma við upplifun ferðamanna af miðhálendinu og þeirrar ímyndar sem það hefur. 

Nokkur óvissa er um þau áhrif sem valkostirnir kunna að hafa á ferðaþjónustu utan miðhálendisins. Fleiri koma til með að sjá mannvirkin þar sem þau liggja í nágrenni þjóðvega og/eða fjölfarinna ferðamannastaða en á móti kemur að fyrir eru mannvirki og land mótað af mannanna verkum. Það hefur ekki verið rannsakað, svo vitað sé, hver áhrif eru af flutningsmannvirkjum til viðbótar við það sem er fyrir. Valkostir eru líklegir til að hafa lítil áhrif á ferðamannastaði en áhrif geta verið staðbundin og þarfnast frekari skoðunar í hverju tilfelli fyrir sig.

Við mat á umfangi rask er horft til fjölda þeirra ferðamannastaða, samkvæmt kortlagningu Ferðamálastofu (2016), sem eru innan 5 km frá valkostum. Fjöldi ferðamannastaða er í flestum tilvikum meiri á láglendi í nágrenni B og C kosta en í nágrenni hálendisleiðar A kosta (Mynd 7.28 og Mynd 7.29). Áhrif kosta A.1-DC og A.1-J50 eru taldir hafa lítið umfang þar sem línan færi í jörð á miðhálendinu (Tafla 7.35). 

Tafla 7.35 - Samantekt á einkenni áhrifa á ferðaþjónustu eftir valkostum.

Niðurstaða

Með hliðsjón af vinsælum eða fjölförnum ferðamannastöðum og -leiðum og áhrif á miðhálendi Íslands sem markaðsvöru ferðaþjónustu Íslands er það niðurstaðan að áhrif á ferðaþjónustu séu neikvæð vegna allra valkosta en niðurstaðan er þó háð óvissu. Jarðstrengir, þar sem þeir eru metnir, draga úr áhrifum á ferðaþjónustu.

 
Mynd 7.27 - Áhrif valkosta á ferðaþjónustu

Þróun umhverfisþáttar án kerfisáætlunar 

Líkleg þróun þeirra samfélagsþátta sem litið er til er ólík. Áframhaldandi straumur erlendra ferðamanna til landsins mun styrkja atvinnustarfsemi í tengslum við ferðaþjónustu. Ef ekki kemur til styrkingar á meginflutningskerfinu verða háspennulínur ekki byggðar á hálendinu eða í nágrenni ferðamannastaða.

 
Mynd 7.28 - Áhrifasvæði valkosta A og ferðamannastaðir skv. skráningu Ferðmálastofu (2016). Athuga skal að ekki er um tæmandi upptalningu að ræða þar sem skráningar geta verið mismunandi milli svæða. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur).
Mynd 7.29 - Áhrifasvæði valkosta B og ferðamannastaðir skv. skráningu Ferðmálastofu (2016). Athuga skal að ekki er um tæmandi upptalningu að ræða þar sem skráningar geta verið mismunandi milli svæða. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). 

 

Samræmi við skipulag og eignarhald


Við mat á áhrifum á skipulag og eignarhald er leitast við að svara eftirfarandi matsspurningum:

 • Hefur flutningskerfið áhrif á skipulagsáætlanir sveitarfélaga?
 • Mun flutningskerfið fara um svæði sem skilgreind eru sem útivistarsvæði í gildandi skipulagsáætlunum?
 • Breytir flutningskerfið landnotkun?
 • Er land sem fer undir flutningskerfi  þjóðlendur eða annað eignarland?
 • Hefur flutningskerfið áhrif á framfylgd markmiða Byggðaáætlunar?
 • Fellur flutningskerfið að áformum um atvinnuuppbyggingu sem að er stefnt í sóknaráætlunum landshluta? 

Grunnástand 

Byggðaáætlun 2018 – 2024 og sóknaráætlanir landshluta

Byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 var samþykkt á Alþingi í júní 2018. Meginmarkmið hennar eru að jafna aðgengi að þjónustu, að jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Skilgreindar eru 52 aðgerðir í fyrirliggjandi tillögu til stefnumarkandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018 til 2024. Meðal aðgerða til að tryggja framgang markmiða byggðaáætlunar sem varða flutningskerfi raforku eru: 

 • Uppbygging innviða fyrir endurnýjanlega orku á landi og í höfnum. Í því fellst að haldið verði áfram uppbyggingu innviða fyrir vistvænar bifreiðar, t.d. hleðslustöðvar, og innviðir fyrir rafvæðingu hafna styrktir, þ.m.t. aðgengi að raforkutengingum í höfnum.
 • Þrífösun rafmagns. Að dreifikerfi rafmagns mæti þörfum heimila og fyrirtækja, með sérstakri áherslu á dreifingu raforku og afhendingaröryggi raforku í dreifbýli.
 • Flutningskerfi raforku og aukið orkuöryggi. Að auka orkuöryggi og efla flutningskerfi raforku. Áfram verði unnið að því að liðka fyrir nauðsynlegri uppbyggingu og viðhaldi á flutnings og dreifikerfi raforku, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi um land allt til að mæta þörfum almennings og atvinnulífs.

Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir á sviði atvinnu-, byggða- og menningarmála sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í þeim koma fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum.  Sóknaráætlanir liggja fyrir í öllum átta landshlutunum og samningar ríkis og landshlutasamtaka fyrir tímabilið 2015-2019. Samningsbundin áhersluverkefni hafa flest verið á sviði mennta- og menningarmála, þjónustustarfsemi og markaðssetningu. Nokkur áhersluverkefni sóknaráætlana varða flutningskerfi raforku m.a. verkefni á Norðurlandi eystra um raforkuöryggi, greiningu á framboði og eftirspurn eftir raforku og forgangsröðun tillagana um framkvæmdir. Tvö verkefni um möguleika smávirkjana á Norðurlandi vestra og Norðulandi eystra. Verkefni um hugmyndasamkeppni um nýtingu orku á Suðurlandi með áherslu á nýsköpun í orkutengdri atvinnustarfsemi.

Valkostir A og B falla vel að aðgerðum Byggðaáætlunar 2018-2024 og áhersluverkefnum sóknaráætlana sem varða flutningskerfi raforku og raforkunýtingu.

Skipulagsáætlanir

Núverandi og fyrirhugaðar háspennulínur eru flestar sýndar í gildandi aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélaga, en skipulagi er þó frestað í línustæði í einhverjum tilvikum. Valkostir fara um land sem er að mestu skilgreint sem landbúnaðarsvæði eða óbyggt svæði. Landnotkun er fjölbreyttust við þéttbýli, einkum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Þar er landið skipulagt m.a. sem opið svæði til sérstakra nota, iðnaðarsvæði, íbúðasvæði, svæði undir verslun og þjónustu.

Línuleiðir liggja um svæði sem skipulagt er til útivistar samkvæmt skipulagsáætlunum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sömuleiðis liggja valkostirnir í jaðri útivistarsvæða í Húnavatnshreppi og á Akureyri. Til skoðunar er jarðstrengslausn á Akureyri sem er í samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, sem myndi draga úr sjónrænum áhrifum svo mögulega gætu þessar tvær tegundir landnotkunar farið betur saman.

Í umhverfismatinu var farið yfir samræmi kerfisáætlunar við aðalskipulagsáætlanir, þ.e. almennt hvort að styrking flutningskerfisins falli að stefnu sveitarfélaganna. Horft var til þess hvort að gert sé ráð fyrir uppbyggingu 220 kV flutningskerfis í sveitarfélaginu og hvort mörkuð sé stefna um legu flutningskerfisins.

Samkvæmt raforkulögum, gr. 9. c., um stöðu kerfisáætlunar gagnvart skipulagi sveitarfélaga kemur fram að sveitarstjórnum ber að samræma skipulagsáætlanir vegna verkefna í staðfestri tíu ára kerfisáætlun. Sveitarstjórn er þó heimilt að fresta ákvörðun um landnotkun samkvæmt kerfisáætlun í allt að átta ár. Sveitarstjórnum ber enn fremur að tryggja að skipulagsákvarðanir hindri ekki framgang verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar.

Tafla 7.36 er niðurstaða lauslegrar yfirferðar á samræmi valkosta A.1, B.1 og C við aðalskipulagsáætlanir. Mögulega er þörf á breytingum í skipulagi vegna tilfærslu, hliðrana einstakra framkvæmda eða efnistökusvæða, en ekki er gert grein fyrir þeim í fyrrnefndri töflu.

 
Tafla 7.36 - Yfirlit um samræmi valkosta A.1 og B.1 við aðalskipulagsáætlanir

Eignarhald

Valkostir A liggja að nokkrum hluta um þjóðlendur, einkum á hálendinu (Mynd 7.30 og Mynd 7.31). Valkostir A liggja um 11 sveitarfélög. A.1, A.1-J50 og A.1-DC liggja um 115 jarðir en A.2 um 128. Valkostir B liggja að litlu leyti um þjóðlendur (Mynd 7.31) og í mun minna mæli en valkostir A. Valkostir B liggja um 14-19 sveitarfélög og 168-356 jarðir (Tafla 7.37).

 
Tafla 7.37 - Fjöldi sveitarfélaga og jarða sem einstaka valkostir fara um. Hæstu tölur eru skyggðar.

Niðurstaða

Valkostir A, B og C eru líklegir til að hafa óveruleg áhrif á skipulagsáætlanir og eignarhald.

Mynd 7.30 - Áhrifasvæði valkosta A og þjóðlendur. Mörk þjóðlenda á korti eru vinnugögn og birt með fyrirvara um ónákvæmni. Þær línur sem settar eru fram á kortum eru einungis til hliðsjónar úrskurðarorðum. Úrskurðarorð og dómsorð þar sem það á við eru ávallt rétthærri en framsettar línur á kortum. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild: Forsætisráðuneytið.
Mynd 7.31 - Áhrifasvæði valkosta B og þjóðlendur. Mörk þjóðlenda á korti eru vinnugögn og birt með fyrirvara um ónákvæmni. Þær línur sem settar eru fram á kortum eru einungis til hliðsjónar úrskurðarorðum. Úrskurðarorð og dómsorð þar sem það á við eru ávallt rétthærri en framsettar línur á kortum. Innskotsmynd sýnir legu lykilfjárfestinga (C kostur). Heimild: Forsætisráðuneytið. 

 

Möguleg áhrif vegna náttúruvár


Leitast verður við að svara eftirfarandi matsspurningu:

 • Fer flutningskerfið um svæði þar sem náttúruvá hefur verið skilgreind?

Allir valkostir kerfisáætlunar 2019-2028 liggja um svæði þar sem náttúruvá er þekkt. Í raun má segja að sá staður á landinu þar sem náttúruvár gætir ekki sé vandfundinn. 

Með tilliti til hættu á tjóni vegna náttúruvár er að mati Landsnets sísti kosturinn að að hafa eina línu, tvær samsíða línur eru betri, en besti kosturinn er tvær línur í aðskildum landshlutum. Þannig eru meiri líkur á að ein lína verði fyrir tjóni en tvær og minnstu líkurnar eru ef tvær línur eru á sitthvoru landsvæðinu. Ef tjón verður á línu er hætta á að afhending rafmagns til notenda skerðist.

Helsta aðsteðjandi hætta varðandi loftlínur er ísing, eldingar og aftakaveður. Taka þarf tillit til þessara þátta við staðsetningu línu sem og jarðskjálfta, snjóflóða, aurskriða, vatnsflóða og eldgosa. 

Við ákvörðun um lagningu jarðstrengja um jarðskjálftasvæði/ sprungusvæði þarf að kanna jarðskorpuhreyfingar sérstaklega. Veðurstofa Íslands hefur unnið að skráningu á virkni sprungna með smáskjálftum á nokkrum stöðum á landinu. Við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda þar sem farið er með jarðstrengsvalkosti um sprungusvæði þarf sérstaklega að meta hættu vegna skjálfta og sprungna. Nánari skoðun á hættu og náttúruvá fer fram í mati á umhverfismati framkvæmda. 

Veðurstofan vinnur nú að gerð hættu- og áhættumats vegna náttúruvár á Íslandi í samvinnu við aðrar stofnanir. Um er að ræða hættu- og áhættumat vegna ofanflóða, eldgosa, flóða (vatnsflóða og jökulhlaupa) og sjávarflóða. Landsnet mun fylgjast með framvindu þessara verkefna og nýtir niðurstöður þeirra við ákvarðanatöku um valkosti kerfisáætlunar og hönnun flutningsleiða og tengivirkja.