Samantekt yfir verkefni á framkvæmdaáætlun

Í þessum kafla má finna yfirlit yfir þau framkvæmdaverk sem eru á þriggja ára framkvæmdaáætlun Landsnets. Kaflinn byrjar á yfirliti yfir stöðu verkefna og því næst er hverju einstöku verkefni á framkvæmdaáætlun lýst í stuttu máli. Tilgangur kaflans er að lesendur geti á fljótlegan hátt glöggvað sig á þeim verkefnum sem eru á framkvæmdaáætlun og umfangi þeirra í grófum dráttum. Nánari lýsing á einstökum verkefnum má svo finna í kafla 3, þar sem ítarlega er gerð grein fyrir umfangi, útfærslum, legu og lýsingu á helsta rafbúnaði ásamt því sem valkostagreiningu nýrra verkefna eru gerð skil.

Staða verkefna á framkvæmdaáætlun


Umfang verkefna á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar er eins og því er lýst í framlögðum aðalvalkosti verkefnisins. Verði umtalsverðar breytingar á umfangi verkefnis frá þeim tíma er kerfisáætlun er afgreidd eru breytingar á umfangi kynntar í næstu útgáfu kerfisáætlunar og verkefnið þannig lagt til afgreiðslu að nýju eða þá að breyting á umfangi er lögð fyrir Orkustofnun til sér afgreiðslu. Ef sú staða kemur upp að ný verkefni koma til vegna sérstakra ástæðna í kerfinu eða vegna nýrrar notkunar og þau er ekki að finna á framkvæmdaáætlun er mögulegt að sækja um sérstaka afgreiðslu vegna framkvæmdarinnar skv. 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 6. gr. laga nr. 26/2015. 

 
Framkvæmdir hefjast á yfirstandandi ári 2020 2021 2022
Kröflulína 3 Kerfisáætlun 2015-2024
Ólafsvík – nýtt tengivirki Kerfisáætlun 2015-2024
Hnappavellir – Nýr afhendingarstaður Orkustofnun 28.9.2018
Austurland – spennuhækkun Orkustofnun 29.11.2018
Hólasandslína 3 Kerfisáætlun 2018-2027
Suðurnesjalína 2 Kerfisáætlun 2018-2027
Sauðárkrókur – ný tenging Kerfisáætlun 2015-2024
Neskaupstaðarlína 2 Orkustofnun 19.12.2018
Færsla Hamraneslína 1 og 2 Orkustofnun 13.02.2019
Lækjartún – nýtt tengivirki
Lækjartúnslína 2
Korpulína 1 – endurnýjun línu Kerfisáætlun 2015-2024
Húsavík – ný tenging Kerfisáætlun 2015-2024
Fitjar – Stakkur - ný tenging Kerfisáætlun 2015-2024
Vopnafjarðarlína 1 - endurbætur á línu Kerfisáætlun 2015-2024
Akraneslína 2
Rauðavatnslína 1 - endurnýjun línu
Lyklafell – tengivirki Kerfisáætlun 2018-2027
Lyklafellslína 1 Kerfisáætlun 2018-2027
Straumsvík nýr teinatengisrofi Kerfisáætlun 2018-2027
Ísafjarðardjúp–nýr afhendingarstaður
Vegamót – endurnýjun tengivirkis
TAFLA 2 1 : YFIRLIT VERKEFNA Á FRAMKVÆMDAÁÆTLUN

Tafla 2 1 sýnir yfirlit yfir stöðu verkefna sem eru á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar Landsnets 2019-2028. Verkefni sem eru með ártal í töflunni voru annað hvort á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar 2015-2024, 2018-2027 eða með sérleyfi frá Orkustofnun. Verkefni sem ekki eru með ártal eru hins vegar óafgreidd ennþá.


Stutt lýsing á verkefnum á framkvæmdaáætlun


Framkvæmdir á yfirstandandi ári

Hér fer á eftir stutt lýsing á þeim verkefnum sem ætlunin er að hefja framkvæmdir við á yfirstandandi ári, 2019.

Kröflulína 3

Framkvæmdin er fólgin í byggingu nýrrar háspennulínu í meginflutningskerfinu sem mun hljóta nafnið Kröflulína 3. Línan sem er loftlína mun liggja á milli Kröflu og Fljótsdals. Tilgangur með framkvæmdinni er að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi með betri samtengingu þessara landshluta og auka þannig öryggi raforkuafhendingar og gæði raforku. Framkvæmdin er mikilvægur hlekkur í styrkingu flutningskerfisins í heild þar sem um er að ræða mikilvæga styrkingu á milli framleiðslueininga á norðaustur- og austurhluta landsins. 

Kröflulína 3 mun gegna veigamiklu hlutverki með því að tengja virkjanaklasann á Norðausturlandi (Kröflustöð og Þeistareykjastöð) betur við Fljótsdalsstöð. Erfiðlega hefur reynst að reka jarðgufuvirkjanir einar og sér, án stuðnings frá vatnsaflsvirkjunum. Með öflugri (og tvöfaldri) tengingu við Fljótsdalsstöð er áhættan lágmörkuð.

Eftir að Kröflulína 3 er komin í rekstur mun afhendingaröryggi áhrifasvæði línunnar aukast til muna því með henni er komin önnur tenging inn á Austurland, til viðbótar við núverandi 132 kV tengingar sem eru annars vegar frá Sigöldu um Höfn í Hornafirði og hins vegar frá Kröflustöð. Nauðsynlegt er að halda þeim línum í rekstri auk Kröflulínu 3 til að ná fram bættu afhendingaröryggi fyrir svæðið. Það sama gildir fyrir Norðausturland en bætt tenging við Fljótsdalsstöð eykur afhendingaröryggi á því svæði.

Gert er ráð fyrir að verkframkvæmdir hefjist sumarið 2019 og að þeim ljúki síðla árs 2020. Spennusetning línunnar er áætluð í lok árs 2020.

Ólafsvík – tengivirki

Verkefnið snýr að byggingu tengivirkis í svæðisbundna kerfinu á Snæfellsnesi. Tengivirkið er byggt í tengslum við lagningu jarðstrengs milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur. Með nýjum jarðstreng ásamt nýjum tengivirkjum á Grundarfirði og í Ólafsvík kemst á hringtenging á Snæfellsnesi sem gerir það að verkum að öryggi og áreiðanleiki afhendingar eykst þar sem almennir notendur munu ekki verða fyrir skerðingum á afhendingu rafmagns við bilanir á öðrum línum.

Áætlað er að framkvæmdir muni hefjast á síðasta ársfjórðungi ársins 2018 og ljúki ári síðar.

Hnappavellir - nýr afhendingarstaður 

Verkefnið snýst um uppsetningu á nýjum afhendingarstað í meginflutningskerfinu í Öræfasveit. Núverandi afhendingarstaður Landsnets fyrir sveitina frá Skaftafelli að Lónsheiði er Hólar. 

Áætlað er að notkun hjá viðskiptavinum RARIK í Öræfum muni aukast um a.m.k. 1 MW en við það mun kerfið frá Hólum í Öræfin yfirlestast bæði hvað varðar töp og spennufall. Því var ákveðið að reistur yrði nýr afhendingarstaður í Öræfum til að koma til móts við þessa auknu notkun á sem hagkvæmastan hátt. 

Fyrirhugað er að framkvæmdir hefjist um mitt ár 2019 og að þeim ljúki ári síðar.

Austurland - spennuhækkun 

Verkefnið snýr að hækkun rekstrarspennu lína og tengivirkja í svæðisbundna flutningskerfinu á Austfjörðum, frá Stuðlum í Reyðarfirði og að Eyvindará um Eskifjörð, úr 66 kV upp í 132 kV. Það er gert til þess að auka flutningsgetu í kerfinu, m.a. í þeim tilgangi að tryggja aðgengi fiskimjölsverksmiðja á svæðinu að innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum. Ávinningur af verkefninu er að möguleg innmötun á Austfjarðakerfið eykst um rúmlega 20 MW. 

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í sumarið 2019 og að þeim ljúki snemma árs 2021.

Sauðárkrókur – ný tenging

Verkefnið snýr að byggingu nýrrar flutningslínu í svæðisbundna kerfinu á Norðurlandi vestra sem mun hljóta nafnið Sauðárkrókslína 2. Flutningslínan, sem verður 66 kV jarðstrengur, mun liggja á milli Sauðárkróks og Varmahlíðar, þar sem hún tengist byggðalínunni. Línan er önnur tenging á milli þessara tveggja staða, en fyrir er Sauðárkrókslína 1, 66 kV loftlína frá Varmahlíð á Sauðárkrók, sem er eina núverandi tenging Sauðárkróks við flutningskerfið. Línan er orðin rúmlega 40 ára gömul og því mikilvægt að styrkja þessa tengingu. Einnig hefur 132/66 kV spennirinn í Varmahlíð takmarkandi áhrif á flutning til Sauðárkróks og verður honum skipt út fyrir spenni með hærri aflgetu.

Áætlað er að framkvæmdir hefjist síðla árs 2019. Verklok eru áætluð á síðari hluta árs 2020.

Neskaupstaðarlína 2

Til þess að bæta afhendingaröryggið í Neskaupstað er þörf á tvöföldun á 66 kV tengingu til Nes-kaupstaðar. Nú þegar er búið að koma fyrir ídráttarrörum í Norðfjarðargöngin fyrir Neskaupstaðar-línu 2 og snýst verkefnið því um að koma tengingu frá Eskifirði gegnum göngin og út á Neskaupstað.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist sumarið 2019 og að þeim ljúki rúmu ári síðar.

Færsla Hamraneslína 1 og 2

Landsnet hf. áformar að færa Hamraneslínur 1 & 2 fjær byggð á um 1,5 km kafla við Skarðshlíð í Hafnarfirði. Í stað þess að fara yfir byggðina í Skarðshlíð og meðfram Ásvallabraut að Hamranestengivirki mun línan fara suður út á Hamranesið og tengjast tengivirkinu úr suðvestri. Þessi lína verður rifin þegar Lyklafellslína er komin í notkun og er því einungis um tímabundna færslu að ræða.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fyrri hluta ársins 2019 og að þeim ljúki um haustið sama ár.

Framkvæmdir 2020

Hólasandslína 3

Fyrirhuguð er bygging nýrrar 220 kV háspennulínu í meginflutningskerfinu á Norðurlandi. Línan, sem mun hljóta nafnið Hólasandslína 3, verður að hluta loftlína og að hluta lögð sem jarðstrengur og mun hún liggja á milli Akureyrar og Hólasands. Einnig inniheldur framkvæmdin byggingu á nýju 220 kV tengivirki á Hólasandi, ásamt byggingu á nýju 220 kV tengivirki á Akureyri sem mun tengjast núverandi 132 kV virki. Tengivirkið á Rangárvöllum mun innihalda 220/132 kV aflspenni og spólu til útjöfnunar á launafli frá jarðstrengshluta línunnar.

Þegar línan verður komin í rekstur mun afhendingaröryggi á Eyjafjarðarsvæðinu aukast til muna þar sem við bætist ný og öflug tenging inn á svæðið sem einnig mun gefa möguleika á aukinni notkun innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á svæðinu. Framkvæmdin skipar einnig drjúgan sess í uppbyggingu meginflutningskerfisins í heild, en Hólasandslína 3 er mikilvægur hlekkur í styrkingu tengsla sterkari hluta kerfisins á suðvesturhorninu við veikari hluta þess á Norðausturlandi. 

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við lagningu línunnar hefjist vorið 2020 og að þeim ljúki í lok árs 2021.

Suðurnesjalína 2

Verkefnið snýr að byggingu 220 kV flutningslínu á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Um er að ræða aðra tengingu Suðurnesja við meginflutningskerfið en núverandi tenging er um Suðurnesjalínu 1 sem er 132 kV loftlína á milli Hamraness í Hafnarfirði og Fitja í Reykjanesbæ. Ekki er um N-1 afhendingaröryggi að ræða á Suðurnesjum þrátt fyrir að næg vinnslugeta sé á svæðinu, en vegna eðlis virkjana er eyjarekstur á Suðurnesjum illmögulegur. Því er nauðsynlegt að koma á annarri tengingu Suðurnesja við meginflutningskerfið á Suðvesturhorninu í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi á svæðinu.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist um mitt ár 2020 og að þeim ljúki í byrjun ársins 2022.

Lækjartún – nýtt tengivirki

Verkefnið snýr að byggingu nýs tengivirkis, sem mun bera heitið Lækjartún sem tengist 220 kV Búrfellslínu 2 (BU2) um 220/132 (66) kV aflspenni inn á 66 kV kerfið á Suðurlandi um jarðstrengi/línur að Hellu og Selfossi. Meginmarkmið verkefnisins eru að auka flutningsgetu inn á svæðisbundna flutningskerfið á Suðurlandi, auka áreiðanleika afhendingar á Suðurlandi og auka nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa með því að auðvelda orkuskipti á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist um mitt árið 2020 og að þeim ljúki seinni hluta ársins 2021.

Lækjartúnslína 2

Verkefnið snýst um lagningu 132 kV raflínu, sem hlotið hefur nafnið Lækjartúnslína 2, í svæðisbundna flutningskerfinu á Suðurlandi. Línan mun styrkja möguleika flutningskerfisins á Suðurlandi til að afhenda aukna orku og bæta afhendingaröryggi. Lækjartúnslína 2 mun liggja á milli Hellu og Lækjartúns.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á seinni hluta árs 2020 og að þeim ljúki seinni hluta ársins 2021.

Korpulína 1 – endurnýjun línu

Verkefnið snýr að strenglagningu línu í meginflutningskerfinu á höfuðborgarsvæðinu, en Reykjavíkurborg hefur óskað eftir því að Landsnet kanni möguleikann á því að setja Korpulínu 1 í jarðstreng þar sem byggðin hefur þróast á þann veg að hún er komin alveg upp að línunni.
 Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist 2020 og að þeim ljúki í lok sama árs.

Rauðavatnslína 1 – endurnýjun línu

Verkefnið er hluti af endurnýjunaráætlun Landsnets en hluti Rauðavatnslínu 1 er 65 ára gamall og því kominn tími á endurnýjun þess hluta. Aðalvalkostur snýr að lagningu 132 kV jarðstrengs, um 2 km leið, og niðurrif samsvarandi loftlínu. Meginmarkmið verkefnisins er að tryggja áreiðanleika afhendingar raforku á höfuðborgarsvæðinu og minnka líkur á myndun flöskuhálsa.

Áætlað er að framkvæmdir hefjist seinni hluta ársins 2020 og línan verði spennusett í lok ársins.

Húsavík – ný tenging

Verkefnið snýr að uppsetningu á nýjum afhendingarstað fyrir raforku á Húsavík. Núverandi tenging Húsavíkur frá Laxá, Húsavíkurlína 1, er með allra elstu flutningslínum í kerfinu og hefur um nokkurn tíma staðið fyrir dyrum að endurnýja tenginguna við bæinn. Lausnin sem stendur til að framkvæma er að tengja bæjarfélagið frá nýjum afhendingarstað á iðnaðarsvæðinu á Bakka.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2020 og að þeim ljúki ári seinna.

Fitjar – Stakkur – ný tenging

Verkefnið, sem áður hét Fitjalína 3, snýst um lagningu 132 kV jarðstrengs frá tengivirkinu Fitjum í Reykjanesbæ og að tengivirkinu Stakki í Helguvík. Tilgangur tengingarinnar er að bæta tengingu Stakks við meginflutningskerfið, m.a. vegna fyrirhugaðs kísilvers Thorsil í Helguvík. 

Tímaáætlun verkefnisins er háð fyrirvörum í tengisamningi Landsnets við Thorsil, en núverandi áætlun gerir ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í lok árs 2020 og ljúki vorið 2022.

Færanlegt varaafl

Verkefnið samanstendur af innkaupum á varaaflsvélum sem verða samtals um 12 MW í meðfærilegum einingum. Þær verða allar af sömu stærð og gerð að lágmarki 1 MW og að hámarki 2 MW hver eining en stærð hverrar einingar verður ákveðin í samráði við framleiðanda vélbúnaðar. Tilurð verkefnisins er vegna þarfar Landsnets á að geta farið í viðhald á línum sem fæða geislatengda afhendingarstaði, þ.e. staði sem njóta ekki N-1 afhendingaröryggis. Einnig er hugsunin að færanlegar varaaflsstöðvar komi að góðum notum í alvarlegum bilanatilvikum sem krefjast langs viðgerðartíma.
Gert er ráð fyrir að innkaup fari fram á fyrri hluta ársins 2020 og að þeim ljúki fyrir sumarið.

Framkvæmdir 2021

Vopnafjarðarlína 1 - endurbætur á línu

Verkefnið snýr að endurbótum á Vopnafjarðarlínu 1 sem er hluti af svæðisbundna flutningskerfinu á Austurlandi. Verkefnið gengur út á að breyta línunni, sem er 66 kV háspennulína, er liggur frá tengivirkinu við Lagarfoss að tengivirki rétt við Vopnafjarðarbæ, í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi á Vopnafirði og einnig til að minnka slysahættu við rekstur og viðhald línunnar. Línan er tréstauralína og er heildarlengd rúmlega 58 km. Hún liggur meðfram Lagarfljóti og Jökulsá Brú í Hróarstungu í átt til sjávar. Línan þverar Hellisheiði eystri, fer niður Skinnugil og upp Búrið, sem er afar torfarið og hættulegt á veturna. 

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist árinu 2021 og að þeim ljúki á sama ári.

Akraneslína 2

Verkefnið snýst um fyrri áfanga endurnýjunar á tvítengingu Akraness, sem er lagning á Vatnshamralínu 2 í jarðstreng á um 4 km löngum kafla sem liggur um iðnaðarsvæði Akurnesinga. Verkefnið er hluti af endurnýjunaráætlun Landsnets, en hlutverk endurnýjunaráætlunar er að hámarka afhendingaröryggi í flutningskerfinu, tryggja samfellu í endurnýjun núverandi eigna í flutningskerfinu og lágmarka þannig uppsafnaðan vanda vegna endurnýjunarþarfar. Meginmarkmið verkefnisins er að viðhalda afhendingaröryggi á Akranesi.

Áætlað er að framkvæmdir hefjist í maí 2021 og ljúki um mánaðamótin september/október.

Framkvæmdir 2022

Lyklafell – tengivirki

Verkefnið snýr að byggingu nýs tengivirkis í meginflutningskerfinu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Fyrirhugað tengivirki verður staðsett við Lyklafell í landi Mosfellsbæjar og er framtíðarhlutverk þess að létta af tengivirkinu Geithálsi en þar hefur megintengipunktur höfuðborgarsvæðisins verið staðsettur um áratugaskeið. Hið nýja tengivirki verður byggt sem 220 kV tengivirki og mun það innihalda sex rofareiti.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2022 og að þeim ljúki með spennusetningu í byrjun árs 2024.

Lyklafellslína 1

Verkefnið snýr að byggingu nýrrar háspennulínu í meginflutningskerfinu. Línan sem er 220 kV loftlína mun liggja frá nýju tengivirki við Lyklafell og að tengivirkinu í Hamranesi. Tilgangur með byggingu línunnar er að tryggja möguleika á niðurrifi Hamraneslína 1 og 2 og Ísallína 1 og 2. Til þess að þetta verði kerfislega mögulegt þarf að reisa nýja línu frá Lyklafelli og að Hamranesi. 

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2022 og að þeim ljúki með spennusetningu í byrjun árs 2024.

Straumsvík nýr teinatengisrofi

Verkefnið snýst um uppsetningu á rofa í aðveitustöð álversins í Straumsvík. Verkefnið tengist byggingu Lyklafellslínu 1, sem er ætlað að leysa af hólmi tvær línur, Hamraneslínur 1 og 2, sem liggja nú frá Geithálsi í Hamranes. Til þess að svo megi verða þarf tenging að vera til staðar milli teina í álverinu í Straumsvík svo aflflutningur geti orðið í gegnum spennistöð álversins inn í Hamranes og öfugt. Landsnet mun því setja upp rofabúnað fyrir tengingu á milli teinanna. Þessi tenging er nauðsynleg til að viðhalda áreiðanleika kerfisins eftir að Lyklafellslína 1 hefur tekið við hlutverki Hamraneslína 1 og 2.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á fyrri hluta árs 2022 og að þeim ljúki í byrjun árs 2023. Verkefnið er fljótt í framkvæmd og er tímasett til að vera lokið tímanlega fyrir spennusetningu Lyklafellslínu 1 og niðurrif Ísallína 1 og 2 þar sem teinatengisrofinn er mikilvægur fyrir rekstur kerfis eftir þær framkvæmdir.

Ísafjarðardjúp – nýr afhendingarstaður

Verkefnið snýr að uppsetningu á nýjum afhendingarstað í meginflutningskerfinu við Ísafjarðardjúp. Afhendingarstaðurinn verður tengdur við núverandi meginflutningskerfi í Kollafirði inn á Mjólkárlínu 1, þar sem byggt verður nýtt tengivirki. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að auka afhendingaröryggi flutningskerfisins á Vestfjörðum.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2022 og að þeim ljúki með spennusetningu seinni hluta árs 2024.

Vegamót – endurnýjun tengivirkis

Verkefnið snýr að endurnýjun á tengivirki í svæðisbundna flutningskerfinu á Snæfellsnesi. Tengivirkið á Vegamótum er mikilvægur tengipunktur, þar sem kemur saman eina tenging Snæfellsness við meginflutningskerfið. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að tryggja áreiðanleika raforkuafhendingar á Snæfellsnesi.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á fyrsta ársfjórðungi 2022 og að þeim ljúki ári síðar.