Samtenging landshluta

Tilgangur þessa kafla er að taka saman niðurstöður greininga á kostum þess að samtengja landshluta með nýjum öflugum flutningslínum og þess að reka kerfin í tveimur eyjum með veikar tengingar sín á milli. Í þeim tilgangi að gera þennan samanburð mögulegan hefur verið skilgreindur sérstakur valkostur, valkostur C.1, þar sem einungis lykilframkvæmdir í meginflutningskerfinu koma til framkvæmda. Í undangengnum köflumhefur verið lagt mat á tæknilegan samanburð ásamt því að bera saman áhrif á þjóðhagslega hagkvæmni og gjaldskrá. Auk þess hefur valkostur C.1 verið metinn í umhverfisskýrslu til jafns við aðra valkosti.

Tæknilegur samanburður valkosta sýnir valkostir sem tengja saman landshluta (A og B) eru umtalsvert betri fyrir tæknileg markmið raforkulaga en valkostur C.1. Horft var til endurgreiðslutíma valkostanna við mat á hagkvæmni og komu allir valkostir álíka út varðandi markmið um hagkvæmni eftir sviðsmyndum. Besti valkosturinn tæknilega er valkostur B.1 en hann hefur þó í för með sér mestu umhverfisáhrifin.

 Þegar valkostir A, B og C eru bornir saman sést að valkostur C.1 felur í sér minnstu breytingar á flutningskostnaði.  Gagnvart stórnotendum í valkosti C.1 mætti búast við allt frá 4% lækkun á flutningskostnaði upp í 8% hækkun eftir því hvaða raforkusviðmynd raungerist.  Sambærilegar breytingar fyrir dreifiveitur yrðu á bilinu 13% lækkun upp í 6% hækkun.  Sá valkostur sem hefði mest áhrif á flutningskostnað er Valkostur A með hraðri uppbyggingu.  Í þeim valkost yrðu hækkanir á flutningskostnaði stórnotenda á bilinu 4-22% og breytingar hjá dreifiveitum yrðu breytingarnar á bilinu 4% lækkun upp í 15% hækkun.

 Samanburður á þjóðhagslegri arðsemi valkosta leiðir í ljós mikla arðsemi þess að klára samtengingar. Niðurstöður samráðs við vinnsluaðila raforku gefa til kynna að um 400 GWst geti fengist með bættri nýtingu virkjana árlega ef samtenging er kláruð. Árlegur ábati af bættri nýtingu nemur því tæpum tveimur milljörðum króna árlega. Aðrir ábataliðir koma einnig til og vega þeim mun þyngra sem raforkuflutningur vex meira. Væntur kostnaður við rekstrartruflanir á tímabilinu fram til 2050 er til dæmis 4,5 milljörðum meiri í valkosti C.1 en í valkosti A og 6,8 milljörðum meiri en í valkosti B ef sviðsmyndin Hægar framfarir raungerist. Ef Græn framtíð raungerist er kostnaður við rekstrartruflanir í valkosti C hins vegar 5,3 og 7,9 milljörðum meiri en í valkostum A og B. Þá er munurinn á kostnaði við töp í valkosti C.1 annars vegar og valkostum A og B hins vegar í sviðsmyndinni Græn framtíð 2 og 3,3 milljörðum hærri en í sviðsmyndinni Hægar framfarir.

 Þegar allt er tekið saman er niðurstaðan sú að valkostur C er ótvírætt óhagkvæmari en aðrir valkostir. Þjóðhagslegur ábati er mismikill eftir sviðsmyndum en alltaf lægstur í valkosti C.1. Að meðaltali skilar hann ábata upp á 32,5 milljarða á tímabilinu fram til 2050 en valkostir A.1 og B.1 skila 49,9 og 48,1 milljarði hvor um sig.

 
MYND 7-1 : Þjóðhagslegur ábati  valkosta

Þessi munur á ábata sem felst fyrst og fremst í bættri nýtingu virkjana skýrir hvers vegna Valkostur C.1 er að jafnaði lengst að borga sig. Valkostur C.1 er 58 ár að meðaltali yfir sviðsmyndirnar samanborið við 34 fyrir valkost A.1 og 36 valkost B.1. Mestu munar um sviðsmyndina Hægar framfarir þar sem endurgreiðslutíminn er 140 ár í Valkosti C.1 en hann er einnig lengst að borga sig í hinum sviðsmyndunum þótt það dragi verulega saman með aukinni raforkunotkun.

MYND 7-2 : Endurgreiðslutími valkosta