Uppbygging flutningskerfis raforku
- Hver er staðan í þinni heimabyggð?
Fyrir okkur hjá Landsneti skiptir miklu máli að eiga gott samtal við alla um uppbyggingu flutningskerfisins í umhverfi sem er á fleygiferð inn í framtíðina. Í farvatninu eru miklar breytingar í raforkumálum sem munu gerast hratt. Hröð þróun tækninnar, auk áskorana í loftslagsmálum, eru helstu drifkraftar breytinganna. Í okkar huga eru raforkumál loftslagsmál. Styrking flutningskerfisins er gríðarlega mikilvægt verkefni þar sem takmarkanir í kerfinu eru þegar verulegar og fara vaxandi. Samhliða er jafnframt mikilvægt að auka vægi markaðsviðskipta með rafmagn til að tryggja aðgengi nýrra endurnýjanlegra orkugjafa og bæta nýtingu orkuinnviða landsins.
Kerfisáætlun 2019-2028, sem hér er lögð fram í drögum til kynningar, er ætlað að sýna sviðsmyndir til framtíðar sem grundvallast á áherslum sem við hjá Landsneti höfum unnið með hliðsjón af samtali og fjölbreyttum gögnum. Sviðsmyndirnar endurspegla þarfir samfélagsins og í þeim er reynt að gæta jafnræðis milli meginsjónarmiða, þ.e. öryggis, efnahags og umhverfis.
Í þessari áætlun höfum við lagt sérstaka áherslu á að fjölga sviðsmyndum, skilgreina betur lykilmælikvarða flutningskerfisins og bæta hagrænar greiningar. Þessar áherslur eru valdar með hliðsjón af þeim ábendingum sem bárust í ferlinu. Í jafn viðamikilli og flókinni áætlun verður að reikna með því að þróun hennar taki tíma. Við vonumst til þess að viðbæturnar gefi mun skýrari mynd af stöðunni.
Hraðinn í umhverfinu er að aukast og við gerum meiri kröfur til okkar sjálfra um skilvirkni, hagkvæmni, öryggi, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku. Jafnframt horfum við til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku þegar kemur að valkostum í áætluninni. Í þessu samhengi er mikilvægt að huga að skilvirkni ferilsins við gerð kerfisáætlunar. Svo virðist sem margir hagaðilar séu sama sinnis og leggja sumir til að áætlunin verði unnin á tveggja ára fresti. Annar valmöguleiki er að einfalda efnistök áætlunarinnar sem gæti hentað betur með hliðsjón af þörfum viðskiptavinanna.
Að þessu sinni er skýrslan í rafrænu formi en ekki prentuð út eins og áður hefur verið og vonumst við til að þeirri breytingu verði vel tekið. Ég vil hvetja ykkur til að taka þátt í að móta framtíðina með okkur og taka þátt í umræðu um áætlunina.