Samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 [1] er það m.a. skylda flutningsfyrirtækis raforku að leggja fram áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins. Með lögum nr. 26/2015, sem öðluðust gildi 6. júní 2015, var ákvæðum raforkulaga breytt og innleidd ákvæði 22. gr. þriðju raforkutilskipunar Evrópusambandsins nr. 2009/72/EB um kerfisáætlanir. Í raforkulögum er flutningsfyrirtækinu gert að leggja árlega fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfisins sem feli í sér annars vegar 10 ára langtímaáætlun og hins vegar framkvæmdaáætlun til næstu þriggja ára. Í raforkulögum eru einnig ýmis ákvæði tengd kerfisáætlun, s.s. um undirbúning, málsmeðferð, eftirlit og stöðu kerfisáætlunar gagnvart skipulagi sveitarfélaga. Kerfisáætlun markar þannig stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Kerfisáætlanir flutningsfyrirtækisins falla þannig undir lög um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006. Efnistök kerfisáætlunar eru nánar tilgreind í reglugerð um kerfisáætlun fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku, nr. 870/2016 [6], sem inniheldur kröfur um vinnslu, samþykktir og innihald kerfisáætlunar.
Forsendur
Sem grunnforsenda við áætlun á flutningsþörf til framtíðar er notuð Raforkuspá 2018-2050 [3] og Sviðsmyndir um raforkunotkun [4] frá Raforkuhópi orkuspárnefndar. Raforkuspá 2018-2050 er endurreikningur á spá frá 2015 og kom út í ágúst 2018. Sviðsmyndir um raforkunotkun 2018-2050 er uppfærsla frá fyrra ári og kom út í desember 2018. Sviðsmyndirnar eru gefnar út sem viðbót við Raforkuspá og er ætlað að sýna óvissubilið í raforkunotkun sem leiðir af þeim breytileika sem getur verið í þeim þáttum sem ganga inn í spána.
Valkostagreining
Valkostagreining er með sama sniði og í síðustu áætlun ásamt því að framlagðir valkostir eru áfram þeir sömu nema að nú hefur verið bætt við valkosti sem ekki gerir ráð fyrir samtengingu landshluta. Gerð hefur verið sú breyting í valkostagreiningu að mat á því hvernig valkostir uppfylla markmið raforkulaga hefur verið uppfært frá síðustu áætlun. Það er gert í kjölfar umsagnaferlis vegna kerfisáætlunar 2018-2027, en sem liður í viðbrögðum Landsnets við innkomnum athugasemdum var ákveðið að endurskilgreina aðferðafræði við mælikvarða sem markmiðin eru metin eftir.
Í valkostagreiningunni eru skoðaðar þrjár meginleiðir til uppbyggingar meginflutningskerfisins, ein byggir á tengingu yfir miðhálendið (A-kostir), önnur á styrkingum meðfram núverandi byggðalínu (B-kostir) og sú þriðja þar sem ekki er gert ráð fyrir samtengingu landshluta (C-kostur). Allir valkostir fela í sér nauðsynlegar framkvæmdir á suðvesturhorninu. Þessar framkvæmdir eru styrking til Suðurnesja, styrking milli höfuðborgarsvæðisins og Hellisheiðar, styrking frá höfuðborgarsvæðinu til Vesturlands og styrking frá Hellisheiði í Hafnarfjörð þegar gert er ráð fyrir niðurrifi núverandi lína (Hamraneslína 1 og 2).
Valkostir eru metnir m.t.t. til ólíkra sviðsmynda og bornir saman á grundvelli markmiða sem getið er í raforkulögum nr. 65/2003, 9. gr. Þau eru:
• Hagkvæmni
• Öryggi
• Skilvirkni
• Áreiðanleiki afhendingar
• Gæði raforku
• Jafnframt skal horfa til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku
Niðurstaða mats á því hvernig framlagðir valkostir uppfylla ofangreind markmið er birt í vægisgrafi sem sýnir bæði grunnstöðu og áhrif viðkomandi valkosts á ofangreind markmið.
Áætlun um þróun meginflutningskerfis næstu 10 árin
Niðurstaða valkostagreiningar í langtímaáætlun kerfisáætlunar, sem snýr að þróun meginflutningskerfisins, er sú að þær línulagnir sem sameiginlegar eru öllum valkostum og kynntar eru í kafla 4 verði fullkláraðar á því tímabili sem áætlunin nær yfir. Að auki er sett á 10 ára áætlun ný línulögn sem nær frá Brennimel í Hvalfirði og að Hrútatungu í Hrútafirði.
Þær línur sem um ræðir eru á Norðurlandi; Kröflulína 3 á milli Kröflu og Fljótsdals, Hólasandslína 3 á milli Akureyrar og Kröflu og Blöndulína 3 á milli Blöndu og Akureyrar. Á suðvesturhorninu þarf að byggja Lyklafellslínu 1 og Suðurnesjalínu 2. Einnig er fyrirsjáanlegt að auka þurfi flutningsgetu á milli höfuðborgarsvæðis og Vesturlands, annað hvort með uppfærslu á Brennimelslínu 1 eða með byggingu nýrrar línu þar á milli. Það sama gildir um tengingu á milli Hellisheiðar og höfuðborgarsvæðis en kerfisrannsóknir sýna að þar muni fljótlega myndast flöskuháls í fæðingu höfuðborgarinnar. Einnig hefur verið ákveðið að bæta við einni tengingu á langtímaáætlun, sem mun koma á milli Hvalfjarðar og Hrútartungu. Um er að ræða breytingu frá því að tillaga að kerfisáætlun var kynnt í maí 2019, en ástæða þess að línan hefur verið sett á áætlun, er annars vegar niðurstaða kerfisgreininga, sem sýnir að flæði um línuleiðina muni fara hratt vaxandi og hins vegar sú að koma til móts við hugmyndir um uppbyggingu vindorkukosta á Vesturlandi.
Framkvæmdar voru kerfisrannsóknir í þeim tilgangi að leggja mat á aflgetu afhendingarstaða í lok tímabils áætlunarinnar eftir að lokið hefur verið við þær framkvæmdir taldar eru upp hér að ofan. Miðað er við Raforkuspá og horft til stöðunnar eins og hún verður í lok árs 2029 samkvæmt spánni og er niðurstaðan eftirfarandi ásamt núverandi stöðu til samanburðar.
Hagræn áhrif uppbyggingar
Mikið er lagt upp úr því að meta hagræn áhrif þeirrar uppbyggingar í flutningskerfinu sem kynnt er í kerfisáætlun. Mat á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að byggja upp flutningskerfið hefur verið uppfært í takt við nýjar forsendur kerfisáætlunar. Sjóndeildarhringur matsins er sá hinn sami og sjóndeildarhringur sviðsmynda Raforkuhóps orkuspárnefndar eða fram til ársins 2050. Niðurstaða matsins sýnir að miðað við flestar forsendur um valkosti og sviðsmyndir eru fjárfestingar í flutningskerfinu hagkvæmar í þjóðhagslegu tilliti. Bætt hefur verið við greininguna nýjum valkosti sem snýr að því að framkvæma eingöngu lykilfjárfestingar í meginflutningskerfinu og án samtenginga landshluta. Að auki eru tekin til skoðunar áhrif þess að flýta samtengingu landshluta, á þann hátt að slík samtenging verði tekin til framkvæmdar í beinu framhaldi af lykilfjárfestingum á Norður- og Austurlandi. Niðurstaða greininga sýna að það er þjóðhagslega hagkvæmt að samtengja landshluta og því fyrr sem samtenging á sér stað því hagkvæmara.
Til að meta áhrif kerfisáætlunar á gjaldskrá er unnin greining á því hvaða áhrif boðaðar fjárfestingar í flutningskerfinu gætu haft á gjaldskrá. Horft er til fjárfestinga í meginflutningskerfinu og eins til fjárfestinga í svæðisbundnu flutningskerfunum og er sjóndeildarhringurinn að þessu sinni 15 ár. Ástæða lengingar sjóndeildarhrings útreikninga á áhrifum framkvæmda á gjaldskrá er sú að gera greiningu á áhrifum samtengingar landshluta á gjaldskrá mögulega. Skoðuð er næmni mismunandi hraða samtengingar á gjaldskrárþróun og eins er horft til mismunandi sviðsmynda um aukningu á flutningsmagni yfir tímabilið og hvaða áhrif það hefur á gjaldskrá.