Inngangur
Auglýstur kynningartími á tillögu að kerfisáætlun 2019 – 2028 og draga að umhverfisskýrslu var frá 13.maí til 24. júní 2019. Á tímabilinu bárust alls 19 erindi og í þessu skjali verður gerð grein athugasemdum sem komu fram og viðbrögðum Landsnets við þeim.
Athugasemdir eru flokkaðar eftir umsagnaraðilum. Efnistök athugasemda eru víða sambærileg og reynt eftir að fremsta megni að vitna milli kafla með sambærilegum umsögnum eða viðbrögðum.
Í mörgum athugasemdum kemur fram andstaða við stefnumörkun Landsnets en eðlilegt er að afstaða fólks sé mismunandi gagnvart þeim leiðum sem lagðar eru fram og þeim tæknikostum sem til umfjöllunar eru. Í nokkrum tilvikum er litið svo á að efni athugasemdarinnar endurspegli álit eða skoðun viðkomandi og sé því ekki unnt að svara efnislega. Þeim athugasemdum og umsögnum sem snúa ekki að efnistökum kerfisáætlunar eða umhverfismatsskýrslu verður eftir atvikum svarað á öðrum vettvangi.
Landsnet þakkar fyrir þær athugasemdir, ábendingar og umsagnir sem bárust við kerfisáætlun. Þær eru mikilvægar fyrir mótun kerfisáætlunar, m.a. með því að fá fram fjölbreytt sjónarmið sem þarf að taka tillit til við ákvörðun um framtíðaruppbyggingu, ábendingar um það sem betur má fara, og tillögur um gögn, rannsóknir og viðfangsefni.
Fjöldi athugasemda og umsagna
Alls bárust 19 erindi á kynningartíma og er yfirlit yfir erindi sem send voru inn í töflu 1.1. Gerð verður grein fyrir umsögnum og viðbrögðum við þeim í þeirri röð sem þau koma fyrir í töflu.
Tafla 1.1 Yfirlit yfir aðila sem sendu inn athugasemdir
Framsetning umsagna og viðbragða við þeim er með þeim hætti að viðkomandi athugasemd eru birt, númeruð og skyggð. Viðbrögð Landsnets koma þar fyrir neðan.
Í einhverjum tilfellum kann umsögn vera umorðuð til að draga fram helstu atriði hennar. Hægt er að sjá allar athugasemdir og umsagnir í heild sinni í viðauka.