Bætt hefur verið við einum aðalvalkosti frá síðust kerfisáætlun þannig að í Kerfisáætlun 2019 – 2028 eru lagðir fram þrír aðalvalkostir til styrkingar meginflutningskerfisins. Nýr valkostur, C kostur, inniheldur eingöngu þær sjö lykilfjárfestingar í meginflutningskerfinu sem eru hluti af 10 ára langtímaáætlun. Þessi verkefni eru sameiginlegar A og B kostum. Þá yrði kerfið rekið sem tvær sterkar eyjar með veikum tengingum sín á milli.
Undir A og B aðalkostum eru lagðir til mismunandi valkostir, blanda af nýbyggingum og endurbyggingu á núverandi byggðalínu og blanda af loftlínum og jarðstrengjum. Það sem helst aðgreinir legu valkosta A frá valkostum B er að fyrri kosturinn felur í sér tenging milli landshluta yrði yfir hálendið meðan B kostir fylgja byggð og hringtenging styrkt á línuleiðum á vestur- og austurhliðum núverandi hringtengingar (vængjunum).
Níu valkostir hafa þannig verið greindir út frá kerfislegum forsendum og er lagt mat á þá með tilliti til umhverfisáhrifa (Tafla 4.1). Sjá má fyrir sér ýmsa samsetningarmöguleika sem ekki eru lagðir fram sem sérstakir valkostir, en nota má umhverfismat þeirra níu valkosta, sem lagt er mat á í kerfisáætluninni, til að varpa ljósi á hver áhrif annarra samsetninga gætu orðið.
Tafla 4.1 - Valkostir til skoðunar í kerfisáætlun 2019-2028
Jarðstrengsvalkostir í meginflutningskerfinu á Norðurlandi
Landsnet hefur unnið greiningu á mögulegri lengd jarðstrengja í nýju meginflutningskerfi á Norðurlandi (Landsnet, Efla & ARA Engineering, 2017). Niðurstaða þeirrar greiningar er að hámarkslengd jarðstrengs í Blöndulínu 3 sé um 10 km, fyrir Hólasandslínu 3 væri um að ræða 12 km og u.þ.b. 15 km á Kröflulínu 3. Sá fyrirvari var hafður á, að lengd jarðstrengs í einni línu í samtengdu kerfi fyrirhugaðra 220 kV lína meginflutningskerfisins hefði áhrif á mögulegar jarðstrengslagnir í hinum línunum og lagning strengs á einum stað getur takmarkað lengd strengkafla innan annarra lína.
Nú liggur fyrir að í skilgreindum aðalvalkosti vegna Kröflulínu 3 er um að ræða loftlínu alla leið, en framlagður aðalvalkostur Hólasandslínu 3 gerir ráð fyrir um 10 km löngum jarðstreng í Eyjafirði. Í ljósi þessa er hámarkslengd mögulegs jarðstreng í Blöndulínu 3 á milli 3 og 5 km.
Valkostir A | Hálendisleið
Valkostir A, hálendisleið, eru sambærilegir hvað legu varðar en mjög ólíkir hvað varðar samspil loftlínu og jarðstrengja, nýtingu núverandi mannvirkja og gerð jarðstrengja sem eru annars vegar riðstraumsstrengur (AC) eða jafnstraumsstrengur (DC). (Tafla 4.2).
Í kerfisáætlun er ávallt lagt mat á valkosti um jarðstrengi í samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og á svæðum innan hálendisins í samræmi við landsskipulagsstefnu. Jafnframt er lagt mat á jarðstrengsvalkosti í samræmi við kerfislega greiningu á því hvað tæknilega megi leggja langa jarðstrengi á milli tveggja tengipunkta (Landsnet, 2017) (Tafla 4.2).
Það er mikilvægt að hafa í huga að þó lagt hafi verið mat í samræmi við hámarkslengd í hverri línuleið fyrir sig er ekki þar með sagt að hægt sé að nýta þær hámarkslengdir í öllum línum. Lengd jarðstrengshlutanna þarf að skoða í kerfislegu samhengi, meðal annars með öðrum loftlínum og jarðstrengjum. Því er ekki unnt að sýna á þessu stigi staðsetningu eða lengd strengjalausna, en því vísað í mat á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda.
Tafla 4.2 - Valkostir í umhverfismati, útfærsla hálendisleiðar (A)
Valkostir B | Byggðaleið
Eftirfarandi eru valkostir byggðaleiðar (B). Valkostirnir eru sambærilegir hvað legu varðar, nema kostur B.2 sem felur í sér talsvert minni uppbyggingu. Kostirnir eru ólíkir hvað varðar samspil nýbygginga og endurbygginga, en sambærilegir hvað varðar samspil loftlínu og jarðstrengja (Tafla 4.3).
Valkostir C | Lykilfjárfestingar
Valkostur C er lagður fram í þeim tilgangi að leggja mat á eiginleika kerfisins, bæði í tæknilegu tilliti og efnahagslegu, ef landshlutar eru ekki samtengdir. Þá yrði kerfið í raun rekið sem tvær sterkar eyjar með veikum tengingum sín á milli. Þessi kostur inniheldur eingöngu þær sjö lykilfjárfestingar í meginflutningskerfinu sem eru hluti af 10 ára langtímaáætlun.
Helsti ókostur við valkostinn er að hann hefur lítil áhrif í þá átt að bæta stöðugleika kerfisins auk þess sem hann býður ekki upp á getu til þess að flytja afl á milli landshluta umfram það sem mögulegt er í núverandi kerfi.